Ný reglugerð um snyrtivörur
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur gefið út nýja reglugerð um snyrtivörur sem kemur í stað eldri reglugerðar um snyrtivörur. Í reglugerðinnni er m.a. kveðið á um aukna ábyrgð framleiðenda og innflytjenda snyrtivara með það að markmiði að auka neytendavernd í því skyni að vernda heilsu manna með öflugum hætti.
Með reglugerðinni eru gerðar auknar kröfur til ábyrgðaraðila, þ.e. framleiðenda og innflytjenda. Ábyrgðaraðili þarf nú að láta framkvæma öryggismat á viðkomandi vöru og vinna öryggisskýrslu. Notkun efna sem valda krabbameini, stökkbreytingum eða eru skaðleg æxlun er háð áhættumati Evrópsku vísindanefndarinnar um neytendavörur. Ákvæði um eftirlit með vörum á markaði eru gerðar skýrari og komið á skráningu innihaldsefna í snyrtivörum í miðlægan gagnagrunn fyrir allt Evrópska efnahagssvæðið.
Hert er á reglum um tilraunir á dýrum og m.a. verður markaðssetning bönnuð á snyrtivörum sem prófaðar hafa verið á dýrum eða innihalda efni sem prófuð hafa verið á dýrum.
Kveðið er á um að merkingar á umbúðum snyrtivara skulu vera á íslensku, ensku eða Norðurlandamáli, öðru en finnsku. Almennt skulu viðvörunarmerkingar þó vera á íslensku með þeim undantekningum að heimilt er að viðvörunarmerkingar vegna flúorinnihalds í tannkremi séu á ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku. Hið sama gildir um merkingar á snyrtivörum sem eingöngu er ætlað að taka fram að snyrtivaran innihaldi tiltekið innihaldsefni.
Umhverfisstofnun fer með eftirlit með framleiðslu, meðferð og markaðssetningu snyrtivara hér á landi og Eitrunarmiðstöð Landspítala Háskólasjúkrahúss skal taka við upplýsingum um tilkynntar snyrtivörur þegar það á við. Þá hafa heilbrigðisnefndir sveitarfélaga eftirlit með meðferð, notkun og merkingum snyrtivara í starfsleyfisskyldri starfsemi, s.s. í snyrtivöruframleiðslu og á hárgreiðslu- og snyrtistofum.
Nýja reglugerðin, sem er númer 577/2103, innleiðir reglugerð (EB) Evrópuþingsins og ráðsins frá 30. nóvember 2009 og öðlast gildi 11. júlí 2013.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Ný reglugerð um snyrtivörur“, Náttúran.is: 25. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2013/06/25/ny-reglugerd-um-snyrtivorur/ [Skoðað:2. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.