Landsbankinn hefur ásamt nokkrum öðrum fyrirtækjum og stofnunum unnið að því að bæta samgöngur á Íslandi með það að meginmarkmiði að fækka einkabílum í umferð og fjölga vistvænum valkostum í samgöngum bæði fyrir almenning og fyrirtæki. Í þeim tilgangi hafa Landsbankinn og Bílaleiga Akureyrar (Höldur ehf.) gert samstarfssamning um þjónustu svokallaðra flýtibíla. Þetta er fyrsti samningur sinnar tegundar á Íslandi, en þessi aðferð er vel þekkt víða erlendis.

Þjónusta flýtibíla verður framvegis hluti af samgöngusamningi Landsbankans við starfsmenn og geta þeir nýtt sér samninginn jafnt í vinnu sem í persónulegum erindum utan vinnutíma. Þeir starfsmenn bankans sem undirrita samninginn skuldbinda sig til að ferðast ekki á einkabíl til vinnu, heldur með strætó, hjólandi eða á flýtibíl. Þegar hafa yfir 360 starfsmenn, eða rúmlega fjórðungur, skrifað undir samgöngusamning og fá þeir á móti fjárframlag til að standa straum af kostnaði vegna vistvænna samganga, svo sem vegna kaupa á strætókorti, leigu á flýtibíl eða viðhaldi á reiðhjóli.

Flýtibílaþjónusta gengur einfaldlega út á það að fólk geti leigt sér bíl allt frá einum klukkutíma og upp í nokkra daga. Að leigutíma loknum er greitt fyrir raunverulega notkun, þ.e. fyrir akstur og tíma. Til eru nokkrar útfærslur af þjónustunni en í tilviki Bílaleigu Akureyrar verður boðið upp að leigja bíla allt frá einum klukkutíma til einhverra daga. Greitt er tímagjald og akstursgjald á hvern ekinn kílómetra og er eldsneyti og annar kostnaður innifalinn. Flýtibíllinn verður sendur heim að dyrum til viðskiptavina.

Með þessu leiguformi gefst fólki kostur á að nýta einkabíl þegar það nauðsynlega þarf en aðra samgöngumáta þegar það getur, t.d. strætisvagna eða leigubíla.  Aðgangur að bíl í skamman tíma opnast fyrir þá sem að öðru leyti kjósa að eiga ekki bíl og fyrir sumar fjölskyldur getur aukabíll orðið óþarfur.

Landsbankinn hyggst einnig nýta flýtibíla í daglegum erindum starfsmanna fyrir hönd bankans og spara með því rekstrarkostnað eigin bifreiða þegar fram í sækir.

Fleiri þátttakendur væntanlegir

Útfærsla flýtibílaþjónustu getur verið með ýmsu móti. Landsbankinn hefur einnig átt í viðræðum við bílaleiguna Hertz um flýtibílaleigu og vonast til að geta skrifað undir samstarfssamning við Hertz um þeirra útfærslu síðar á árinu.

Samningurinn sem undirritaður hefur verið við Bílaleigu Akureyrar byggir á vinnu sem staðið hefur yfir frá því á árinu 2011, en þá bauð Landsbankinn Reykjavíkurborg og nokkrum fyrirtækjum til skrafs og ráðagerða um að innleiða flýtibíla á Íslandi. Í febrúar 2012 var fengin fyrirlesari sem hafði haft yfirumsjón með innleiðingu flýtibíla í Gautaborg til að kynna hugmyndina fyrir helstu hagsmunaaðilum þ.e. bílaleigum, olíufélögum og bílaumboðum og í mars sama ár var haldinn opinn íbúafundur í Tjarnarbíói þar sem hugmyndir Landsbankans og fyrirtækjanna voru kynntar.

Ljósmynd: Frá undirritun samstarfssamnings Landsbankans og Bílaleigu Akureyrar. Frá vinstri;  Reynir Hallgrímsson og Pálmi Viðar Snorrason frá Bílaleigu Akureyrar og með þeim Jensína K. Böðvarsdóttir, framkvæmdastjóri Þróunar hjá Landsbankanum.

Birt:
24. júní 2013
Höfundur:
Finnur Sveinsson
Uppruni:
Landsbankinn
Tilvitnun:
Finnur Sveinsson „Landsbankinn og Bílaleiga Akureyrar semja um flýtibílaþjónustu “, Náttúran.is: 24. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2013/06/24/landsbankinn-og-bilaleiga-akureyrar-semja-um-flyti/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. júní 2014

Skilaboð: