Náttúruverndarsamtök Íslands gera eftirfarandi athugasemdir við bréf Landsvirkjunar
Náttúruverndarsamtök Íslands gera eftirfarandi athugasemdir við bréf Landsvirkjunar til umhverfis- og auðlindaráðherra:
Í bréfi Landsvirkjunar til umhverfis- og auðlindaráðherra, dagsettu, 20. júní 2013 segir:
... Landsvirkjun sendi inn umsögn með bréfi dagsettu þann 8. apríl 2013 þar sem Landsvirkjun gerði ýmsar athugasemdir og lagðist gegn fyrirhugaðri friðlýsingu. Í umsögn Landsvirkjunar er vakin athygli á hagsmunum fyrirtækisins innan friðlandsins. Frá því að Landsvirkjun skilaði umsögn sinni hefur fyrirtækinu á engan hátt verið kynnt frekari framvinda málsins, hvernig með athugasemdir þess hafi verið farið og hvort eitthvert tillit til þeirra hafi verið tekið.
Síðan segir:
Ljóst er að Landsvirkjun er mjög stór hagsmunaaðili í málinu. Landsvirkjun hefur lagst gegn friðlýsingunni og ekki hefur náðst samkomulag við Landsvirkjun sem hagsmunaaðila um málið.
Fyrst, umsagnarfrestur rann út þann 3. apríl s.l. en umsögn Landsvirkjunar barst ekki fyrr en 8. apríl. Ekki er gerð nein athugasemd í bréfi Landsvirkjuar við setta tímafresti og hlýtur því vera á ábyrgð hennar að hafa ekki skilað inn umsögn sinni fyrr en eftir að frestur var útrunninn. Athugasemdir og kröfur Landsvirkjunar eru því marklausar og hótun fyrirtækisins um málshöfðun ef ekki verður tekið tillit til síðborinna athugsemda þess beinlínis hlægileg. Nær væri að segja að Landsvirkjun geri með bréfi sínu til umhverfis- og auðlindaráðherra athugasemdir við boðskort „… vegna fyrirhugaðrar undirritunar friðlýsingarskilmála Þjórsárvera," eins og það er orðað í bréfinu.
Annað, Landsvirkjun á engra sérstakra hagsmuna að gæta í Þjórsárverum umfram aðra. Þjórsárver eru þjóðlenda. Landsvirkjun hefur því engin réttindi eða hagsmuni í Þjórsárverum umfram borgara þessa lands eða lögaðila. Á hinn bóginn er íslenska ríkinu skylt að vernda Þjórsárver enda njóta verin sérstakrar verndar samkvæmt Ramsarsamningnum um votlendi.
Þriðja, Alþingi hefur með þingsályktunartilllögu um Rammaáætlun samþykkt að Þjórsárver (Norðlingaölduveita) eru í verndarflokki. Landsvirkjun hlýtur að lúta vilja löggjafans enda er hún í eigu ríkisins.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Náttúruverndarsamtök Íslands gera eftirfarandi athugasemdir við bréf Landsvirkjunar“, Náttúran.is: 21. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2013/06/21/natturuverndarsamtok-islands-gera-eftirfarandi-ath/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. júní 2013