Svo virðist sem umhverfisráðherra hafi ekki kynnt ákvörðun sína um að undirrita „… friðlýsingarskilmála vegna friðlands í Þjórsárverum." eins og segir í boðskorti sem sem sent var út fyrr í vikunni. Þar segir einnig að „… undanfarin misseri hafi verið unnið að stækkun friðlandsins en verin voru fyrst friðlýst árið 1981."

Til að taka af öll tvímæli þá segir í boðskorti að „Föstudaginn 21. júní 2013, kl. 15 mun umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, undirrita friðlýsingarskilmála vegna friðlands í Þjórsárverum." Vissi hann ekki hvað hann var að gera?

Krafa iðnaðarráðherra, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, um að ákvörðun umhverfis- og auðlindaráðherra verði frestað eða hún dregin til baka er fordæmalaus.

Drög að friðlýsingarskilmálum voru auglýst þann 12. mars s.l. sbr.

Umhverfisstofnun hefur farið yfir allar framkomnar athugasemdir sem bárust inna tilskilins tíma. Um hvað er iðnaðarráðherra að tala?

Iðnaðarráðherra fer fram í nafni Landsvirkjunar. Í gær sendi Hörður Arnarson, forstjóri, umhverfis- og auðlindaráðherra bréf sem á sér engin fordæmi. Ekki verður annað ráðið en að Landsvirkjun vilji nú eyðileggja Rammaáætlun.

Bent skal á að Alþingi samþykkti í vetur leið með drjúgum meirihluta þingsályktunartillögu um Rammáætlun sem felur í sér að Þjórsárver (Norðlingaölduveita) eru í verndarflokki. Er það í samræmi við tillögu verkefnisstjórnar Rammáætlunar frá ágúst 2011 og líkt og fram kemur í boðskorti hefur verið unnið að málinu undanfarin misseri. Nánar tiltekið ákvað ríkisstjórn Íslands í ágúst 2009 að hefja skyldi vinnu við stækkun friðlandsins Þjórsárverum í samræmi við Náttúruverndaráætlun sem samþykkt var á Alþingi í janúar sama ár.

Álykta verður að Sigurður Ingi Jóhannsson valdi ekki verkefni sínu, að stjórna bæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Fram hefur komið af hálfu formanns umhverfis- og samgöngunefndar að skipan hans í hið síðar nefnda embætti hafi verið til bráðabirgða á meðan framtíð umhverfis- og auðlindaráðuneytisins verði ráðin.

Birt:
21. júní 2013
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Kynnti umhverfisráðherra málið ekki í ríkisstjórn?“, Náttúran.is: 21. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2013/06/21/kynnti-umhverfisradherra-malid-ekki-i-rikisstjorn/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: