Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, undirritar friðlýsingu vegna stækkunar friðlandsins í Þjórsárverum á morgun, 21. júní kl. 15:00. Athöfnin verður í Árnesi, Skeiða- og Gnúpverjahreppi en við sama tækifæri undirrita fulltrúar sveitarfélaganna yfirlýsingu um friðlýsinguna.

Undanfarin ár hefur verið unnið að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum í samræmi við náttúruverndaráætlun 2009-2013, en svæðið var friðlýst árið 1981 og náði þá til 375 ferkílómetra. Með stækkuninni nú er friðlandið alls 1.563 ferkílómetrar.

Þjórsárver eru ein víðáttumesta gróðurvin á miðhálendinu. Þar er að finna gróskumikið votlendi með afar fjölskrúðugu gróðurfari. Þjórsárver eru meðal stærstu varpstöðvar heiðargæsarinnar í heimi. Vegna þessa var friðlandið samþykkt inn á votlendisskrá Ramsarsamningsins árið 1990 en Ísland hefur verið aðili að samningnum frá 1978. Þá er að finna á svæðinu rústamýrar, sem eru sérkennilegar sífreramyndanir í jarðvegi. Rústamýravist hefur verulegt vísindalegt gildi og þykir óvenju fjölbreytt vistgerð miðað við aðrar þekktar vistgerðir á hálendinu. Þær hafa sérstakt verndargildi þar sem þær teljast til búsvæða sem eru í hættu samkvæmt Bernarsamningnum. Rústamýrum fer fækkandi hér á landi, m.a. vegna loftslagsbreytinga en þær þola illa rask af ýmsu tagi. Þær eru afar mikilvægar til viðhalds varpstofni heiðagæsar þar sem gæsin sækir í að verpa  þar.

Markmiðið með friðlýsingu Þjórsárvera er að tryggja víðtæka og markvissa verndun gróðurlendis Þjórsárvera í heild sinni, vistkerfis veranna, votlendis, varpstöðva heiðagæsa, víðernis og sérstakrar landslagsheildar. Þá stuðlar stækkun friðlandsins í Þjórsárverum að aukinni verndun líffræðilegrar fjölbreytni í  samræmi við markmið samningsins um líffræðilega fjölbreytni.

Eftir undirritunina verður móttaka í Félagsheimilinu Árnesi.

Ljósmynd: Gullbrá í Þjórsárverum.

Birt:
20. júní 2013
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Friðland Þjórsárvera stækkar“, Náttúran.is: 20. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2013/06/20/fridland-thjorsarvera-staekkar/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: