Vinnsla og útflutningur fiskafurða úr vottuðum sjálfbærum veiðum við Ísland

Fyrirtækin Stakkavík ehf. og Spes ehf.í Grindavík fá MSC-rekjanleikavottun
Vottunarstofan Tún hefur staðfest að fiskvinnslufyrirtækið Stakkavík ehf. og fiskútflutningsfyrirtækið Spes ehf. uppfylli kröfur Marine Stewardship Council (MSC) um rekjanleika sjávarafurða sem upprunnar eru úr MSC-vottuðum sjálfbærum fiskveiðum. Vottunin var formlega staðfest í vikunni með útgáfu vottorða sem Gestur Ólafsson framkvæmdastjóri Stakkavíkur ehf. og Ólafur Þór Jóhannsson framkvæmdastjóri Spes ehf. veittu viðtöku. MSC- rekjanleikavottun (MSC Chain of Custody certification) staðfestir að hráefni og afurðir eru upprunnar úr sjálfbærum fiskistofnum. En slík vottun hefur breiðst hratt út á undanförnum árum samfara aukinni eftirspurn á alþjóðlegum mörkuðum eftir sjávarafurðum úr vottuðum nytjastofnum. MSC-vottunin greiðir íslenskum fyrirtækjum leið inn á gæðamarkaði sem skila hærra söluverði.

Með þessari vottun er staðfest að Stakkavík ehf. og Spes ehf. viðhafi gæðastýringu sem tryggi aðgreiningu MSC-vottaðra fiskafurða frá öðrum hráefnum og afurðum á öllum stigum, þ.e. við móttöku hráefna, meðferð þeirra og flutning, auðkenningu í skráningarkerfum, merkingar á umbúðum og viðskiptaskjölum. Rekjanleikavottun samkvæmt staðli MSC gerir fyrirtækjunum kleift að afla sér hráefna og afurða úr MSC-vottuðum fiskveiðum og fiskistofnum, vinna frekar úr þeim og markaðssetja síðan með tilvísun til sjálfbærra sjávarnytja undir hinu þekkta vörumerki Marine Stewardship Council. Vottunin sem fyrirtækin hljóta nú tekur til vinnslu á ferskum, frystum og söltuðum afurðum úr vottuðum þorski og ýsu af Íslandsmiðum.

Stakkavík ehf. er fiskvinnslufyrirtæki í Grindavík sem sérhæfir sig einkum í vinnslu á þorski, en einnig ýsu og steinbít. Ein helsta afurð fyrirtækisins eru roðlaus og beinlaus þorskflök sem að mestu leyti eru flutt út til Bandaríkjanna. Hráefni fær fyrirtækið að nokkru leyti af eigin bátum og að nokkru leyti af fiskmörkuðum. Hjá fyrirtækinu starfa nú nær hundrað manns. Gestur Ólafsson framkvæmdastjóri Stakkavíkur ehf. segir MSC vottunina til komna af vaxandi kröfum erlendra viðskiptavina, enda leggi stórmarkaðir austan hafs og vestan aukna áherslu á að afla fiskafurða úr vottuðum sjálfbærum stofnum: „Margir kaupendur velja frekar MSC-vottaðan fisk ef völ er á. Vottunin mun því bæta stöðu okkar og að minnsta kosti létta á sölunni fyrir Stakkavík ehf.“

Spes ehf. er fiskútflutningsfyrirtæki í Grindavík sem flytur einkum út ferskar fiskafurðir, einkum til Belgíu, en einnig til Þýskalands, Bretlands og Bandaríkjanna. Helstu fisktegundir sem fyrirtækið verslar með eru þorskur, steinbítur, karfi og ýsa, sem framleiddar eru hjá ýmsum fiskvinnslustöðvum, einkum þó Stakkavík ehf. Ólafur Þór Jóhannsson framkvæmdastjóri Spes ehf. segir vottunina hafa gríðarlega mikla þýðingu fyrir starfsemi fyrirtækisins: „Þeir sem kaupa af okkur leggja mikla áherslu á að fiskafurðir séu MSC vottaðar vegna vaxandi eftirspurnar frá viðskiptavinum þeirra sem vilja eiga þess kost að merkja fiskafurðir í verslunum sínum með hinu virta umhverfismerki MSC.“

Gísli Gíslason er svæðisstjóri MSC á Íslandi. Hann fagnar auknum áhuga íslenskra sjávarútvegs- fyrirtækja á sjálfbærnivottun: „Á síðustu 2 árum hafa 55 íslensk fyrirtæki fengið rekjanleikavottun samkvæmt MSC staðli. Nú eru 26 fyrirtæki hluthafar í Iceland Sustainble Fisheries sem heldur utan um MSC fiskveiðivottunina á þorsk og ýsu. Auk þess eru síldar-, ufsa-, karfa- og grásleppuveiðar í vottunarferli samkvæmt MSC staðli. Karfa og grásleppuveiðar Íslendinga eru jafnframt fyrstu veiðar slíkrar tegunda í vottunarferli samkvæmt MSC staðli. Ég er viss um að þessar vottanir munu nýtast greininni til að efla markaðssetningu íslensks sjávarútvegs á alþjóða vettvangi á grundvelli sjálfbærni og ábyrgra fiskveiða. Vöxtur og eftirspurn eftir vörum úr MSC vottuðum fiskstofnum hefur vaxið mikið á síðustu árum.“

Marine Stewardship Council hefur þróað staðla í samræmi við viðmiðunarreglur Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um ábyrgar fiskveiðar. Vottunarkerfi MSC nær annars vegar til úttekta á fiskistofnum og fiskveiðum og hinsvegar til rekjanleika á fiski og fiskafurðum úr vottuðum stofnum. Hátt á þriðja hundrað fiskveiðiútgerða eru ýmist vottaðar eða í vottunarferli MSC víða um heim. Yfir 20.000 afurðir í 104 löndum eru nú rekjanlegar til þessara fiskveiða og bera því merki MSC á mörkuðum víða um heim. (Sjá nánar heimasíðu MSC, www.msc.org).

Vottunarstofan Tún hefur haft forgöngu um vottun lífrænna aðferða og sjálfbærra náttúrunytja hér á landi, í Færeyjum og á Grænlandi allt frá árinu 1994. Tún er faggild af þýsku faggildingarstofunni Accreditation Services International GmbH (ASI) til þess að annast vottun samkvæmt stöðlum MSC um sjálfbærar fiskveiðar og rekjanleika afurða úr slíkum veiðum. Tún nýtur krafta reyndra íslenskra og erlendra sérfræðinga við vottun sjálfbærra sjávarnytja.

Ljósmynd :Gestur Ólafsson (t.v.) frkvstj. Stakkavíkur ehf og Ólafur Þór Jóhannsson (t.h.) frkvstj Spes ehf.
Grafík: Vottunarmerki MSC.

Birt:
18. júní 2013
Tilvitnun:
Gunnar Á. Gunnarsson „Stakkavík ehf. og Spes ehf. fá MSC-rekjanleikavottun“, Náttúran.is: 18. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2013/06/17/stakkavik-ehf-og-spes-ehf-fa-msc-rekjanleikavottun/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 17. júní 2013

Skilaboð: