Hann er fjölær planta og fer að stinga upp kollinum strax og snjóa leysir og frost að linast. En hægt fer hann, og oft er löng bið eftir að fyrstu blöðin náist inn eftir að fyrst fer að örla á þeim. Það er svolítið lakkrísbragð af kerfli og blöðin fíngerð. Nafnið kemur úr frönsku og þar hefur hann verið notaður frá fornu fari. Hann er góður sem salatjurt, meðan blöðin eru ný . Bragðið er milt og þó er plantan nokkuð stórvaxin. Það er því hægt að nota kerfilinn í miklum mæli einmitt í maímánuði meðan beðið er eftir að salatið spretti. Í Grasnytjum Björns er ekki minnst á kerfil en Eggert hefur hann í miklu uppáhaldi og vill nota saman við salat og til bragðbætis í „soð“súpur, stöppur og kálgrauta.

Kerfillinn blómstrar um mánaðamótin maí–júní hvítum blómklösum, sem ilma skemmtilega. Hann er vorjurt og eftir blómstrun er hann minna áberandi, enda hafa þá aðrar jurtir tekið við sem matplöntur, en það má slá hann, eins og önnur villt grös, til að fá ný blöð yfir sumarið. Fyrir utan að nota kerfilinn hráan og í heita rétti má nota hann í te. Blómin má djúpsteikja. Það er auðvelt og fljótlegt að þurrka hann en bragðið er ekki sterkt. Hann er talinn hafa bætandi áhrif á meltingu og losa slím úr lungum.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.
Grafík: Hildur Hákonardóttir.

Birt:
9. maí 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Kerfill“, Náttúran.is: 9. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/06/kerfill/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. nóvember 2007
breytt: 9. maí 2014

Skilaboð: