Þegar villtar jurtir eru tíndar skal ávallt hafa góðar myndir af jurtunum til samanburðar, því það getur oft verið erfitt að greina á milli líkra plantna og hér á landi eru til nokkrar eitraðar jurtir, t.d. ferlaufungur og stóriburkni.

Gætið þess einnig að tína aldrei svo mikið á sama stað að hætta sé á að jurtinni verði útrýmt, því íslenska flóran er mjög viðkvæm. Einnig þarf að taka tillit til þess að sumar jurtir eru friðaðar.

Mjög auðvelt er að rækta jurtir og því er góð regla, þegar fólk hefur fundið þær jurtir sem það kþs að nota sér til heilsubótar, að rækta jurtirnar sjálft. Og sjálfsagt er að temja sér það ef um fágætar, íslenskar plöntur er að ræða.

Tínið aldrei jurtir þar sem mengunar gætir, t.d. af völdum bíla eða iðnaðar.

Tínið jurtitnar á stöðum þar sem mikið vex af þeim, því ljóst er að jarðvegurinn þar hentar þeim vel og þá eru jurtirnar kraftmeiri.

Við tínsluna er best að setja jurtirnar eða jurtahlutana í bastkörfu eða annað ílát þar sem loft getur leikið um þær. Þegar heim er komið er síðan best að hengja jurtirnar upp eða dreifa þeim á undirlag, t.d. net, sem er þannig að vel lofti um þær.

Birt:
25. maí 2015
Tilvitnun:
Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir „Söfnun jurta“, Náttúran.is: 25. maí 2015 URL: http://nature.is/d/2007/04/13/sfnun-jurta/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 13. apríl 2007
breytt: 25. maí 2015

Skilaboð: