Það fer tvennum sögum af því af hverju bygging álvers í Helguvík hafi ekki orðið. Á Íslandi hljómar eins og framkvæmdin strandi á Íslendingum. En í opinberum upplýsingum eiganda Norðuráls, Century Aluminium, kemur fram að framkvæmdin hefur enn ekki verið fjármögnuð. Í viðbót er staða áliðnaðar í heiminum þannig að ólíklegt er að úr framkvæmdum verði. Það eru engin spurningarmerki á heimasíðu Norðuráls hvað varðar byggingu álvers í Helguvík. Þar er aðeins þessi fullyrðing: ,,Norðurál reisir álver í Helguvík.” Framkvæmdin er reyndar þegar hafin, búið að reisa grindurnar. Það fer þó tvennur sögum af Helguvíkuráætlunum. Á Íslandi heyrist að framkvæmdir séu á næsta leiti ef semjist um orkuverð. En miðað við stöðuna eins og hún virðist þegar rýnt er í skýrslur Century Aluminium, eiganda Norðuráls og eins stöðu áliðnaðarins í heiminum, er fátt sem bendir til að grindurnar verði að kerskála í bráð. En þó ekkert álver verði reist gæti Century áfram haft mikinn áhuga á orkusamningi því hagstæður orkusölusamningur er verðmætur í sjálfu sér.
---------

Þann 25. apríl, nokkrum dögum fyrir kosningarnar á Íslandi, birti Century Aluminium, eigandi Norðuráls, ársfjórðungsyfirlit. Þar lýsti framkvæmdastjórinn Michael Bless því yfir að því miður miðaði hægt í viðræðum um orkusölu til nýs álvers Century í Helguvík. Bless sagðist vonast til að ný ríkisstjórn veitti nauðsynlegan stuðning til að hefja aftur framkvæmdir í Helguvík. Síðan segir: ,,Það eina sem stendur í vegi fyrir að hefja að fullu þetta vænlega verkefni er næg orka og trygging fyrir nauðsynlegri orku.”

Þessi yfirlýsing birtist í íslenskum fjölmiðlum svona eins og vinsamleg kveðja rétt fyrir kosningar. Og boðskaðurinn sá að nú stæði ekkert í vegi fyrir framkvæmdum í Helguvík og meðfylgjandi störfum nema stuðningur stjórnvalda og trygging á nauðsynlegri orku.

En er það nú svo? Í skýrslum Century um Helguvík er fleira en bara þetta.

Í yfirliti Century frá marslokum segir að varðandi meiriháttar fjárfestingaverkefni eins og Helguvík, yrði leitað fjármögnunar á mismunandi mörkuðum. Af þessu og fleiri svipuðum yfirlýsingum má marka að Helguvíkurframkvæmdin hefur alls ekki verið fjármögnuð. Allir sem þekkja til fjármögnunaráætlana stórfyrirtækja vita að slík vinna getur tekið mánuði og ár. Þess vegna er skiljanlegt að í þessu sama yfirliti segir að fyrirtækið geti ekki sagt neitt til um hvenær þessar meiriháttar framkvæmdir hefjist.

Undirbúningsvinnan hófst þó fyrir langa löngu. Árið 2005 gerði Norðurál viljayfirlýsingu um orkukaup og 2007 undirrituðu fyrirtækið, HS Orka og Orkuveita Reykjavíkur saming um raforkusölu til fyrirhugaðs álsvers í Helguvík. Gangsetja átti fyrsta áfanga álversins 2010, fyrir heilum þremur árum. Álverið er hins vegar ekki enn risið og HS Orka og OR vildu endurgreiðslur. Fyrr á árinu dæmdi alþjóðlegur gerðardómur orkufyrirtækjunum í vil. Samtals þarf Norðurál að greiða fyrirtækjunum rúmar 820 milljónir króna vegna þessa samnings.

Þessi saga er gott dæmi um hversu áhættusamt það er að gera samninga þar sem þarf að kosta framkvæmdir út á síðari tíma hagnað. Landsvirkjun hefur staðið í samningaviðræðum við Norðurál um orkuverð í rúm tvö ár og gerir sér án efa ljóst hver staða Helguvíkurverkefnisins er hjá Century.

Af þessu má marka að það segir fjarri því alla söguna að láta líta svo út að Helguvíkurverið strandi á íslenskum yfirvöldum. Þrátt fyrir margvíslegar yfirlýsingar Norðuráls á Íslandi þá liggur það fyrir, í opinberjum upplýsingum Century, að Helguvíkurverið er alls ekki komið á framkvæmdastig – og nei, það er ekki aðeins þannig að það strandi á orkuverði. Þarna fer því tveimur sögum – sagan á Íslandi er að það strandi á Íslendingum en í erlendum upplýsingum móðurfélags Norðuráls er sagan öll önnur: móðurfélagið er ekki búið að fjármagna Helguvíkurverið.

Í viðbót má spyrja hverjir séu framkvæmdaburðir Century einmitt nú. Matsfyrirtækið Moody’s breytti nýlega horfum Century úr stöðugum í neikvæðar og lánshæfni þess er B3 sem er ógóður flokkur. Það þýðir að jafnaði að fjármögnun er dýr.

En úr því Helguvíkurverið átti að fara í gang 2010 og Century virðist enn ekki hafa fjármögnunina klára má spyrja af hverju Century og Norðurál leggi svo mikla áherslu á orkusamning. Það er ekki hægt að fullyrða neitt um ástæður fyrirtækisins en almennt má segja að hagstæður orkusamningur er verðmætur í sjálfum sér.

Orkusamningurinn við álverið í Straumsvík hefur til dæmis gengið kaupum og sölum, þegar álverið hefur skipt um eigendur og samningurinn þá talinn kjöreign. Það getur verið verðmætt fyrir Century að hafa upp á vasann hagstæðan orkusamning. Slíkur samningur getur verið söluvara í viðbót við gæðin af  samningi sem tryggir lágt verð til langs tíma ef fyrirtækið sjálft vill síðar ráðast í framkvæmdirnar sem áttu að gerast fyrir þremur árum.

Það getur verið hagstætt fyrir Century og Norðurál að gera orkusamning þó óvíst sé hvenær og hvort álver rísi í Helguvík. Það er hins vegar áhætta fyrir Landsvirkjun að gera orkusölusamning við Norðurál upp á von og óvon. Sagan af samningnum við HS Orku og OR er víti til varnaðar. Framkvæmdir, sem ekki verður ekki af, geta orðið hið mesta feigðarflan fyrir orkusalann. Og þar sem Landsvirkjun er í eigu þjóðarinnar má líta svo á að hagsmunir Landsvirkjunar og landsins fari saman í þessum efnum.

En eru þá aðstæður á heimsmarkaði þannig að líklegt sé að álverið í Helguvík rísi? Um þessar mundir eru aðstæður á álmarkaðnum taldar dökkar um ófyrirsjáanlega framtíð. Eftir því sem Spegillinn kemst næst þá er einfaldlega hvergi verið að byggja álver á Vesturlöndum. Aðeins í láglaunalöndum eins og Kína og Indlandi.

*Þessi pistill var fluttur 6.6. 2013.

Mynd: Skilti Norðuráls í Helguvík, Rúv.

Birt:
13. júní 2013
Tilvitnun:
Sigrún Davíðsdóttir „Verður álverið í Helguvík byggt?“, Náttúran.is: 13. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2013/06/13/verdur-alverid-i-helguvik-byggt/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: