Hér að neðan er vitnað í þá kafla í viðtali við sjávarútvegs-, landbúnaðar, umhverfis- og auðlindaráðherra Sigurð Inga Jóhannsson sem birtist í Bændablaðinu sem kom út þ. 6. júní sl. og hafa með umhverfismál að gera. Eins og gefur að skilja eru umhverfissinnar sem Náttúran.is hefur haft tal af hér á landi og erlendis gersamlega kjaftstopp yfir yfirlýsingum ráðherra sem brjóti gegn alþjóðlegum sáttmálum og allri rökhugsun. Þeim sem ekki hafa lesið viðtalið skal bent á að gera það og mynda sér sína eigin skoðun:

Stefnan að samþætta umhverfismál inn í öll ráðuneyti

– Hvers vegna situr þú bæði í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu og einnig í auðlinda- og umhverfisráðuneytinu? Hví eru ráðherrar Framsóknarflokksins bara fjórir en ekki fimm?

„Það hafa orðið miklar breytingar á stjórnarráðinu á undanförnum árum. Sumum þeirra vorum við mjög mótfallin. Við viljum hins vegar ekki fara í að breyta strax, breytinganna vegna. Við viljum gefa okkur tíma til að skoða hvernig málum er best fyrir komið og það eru augljós samlegðaráhrif í mörgu af því sem umhverfisráðuneytið fæst við og landbúnaðarhluta atvinnuvegaráðuneytisins, sérstaklega. Það eru hlutir sem varða landnýtingu, landgræðslu og skógrækt, til dæmis. Tilgangurinn með því að ég sitji í báðum þessum ráðuneytum er að ná yfirsýn og þekkingu á málaflokkunum til að geta svo lagt fram hvernig þessum málum verður best fyrir komið í framtíðinni innan stjórnarráðsins. Stefnan er eftir sem áður að halda þessum ráðuneytum aðskildum en líka að skoða hvernig umhverfis- málin geti á næstu árum orðið samþætt inn í hverja atvinnugrein þannig að þetta séu ekki andstæðir pólar sem takist á. Menn horfi alltaf á verndarsjónarmiðin þegar menn taki ákvörðun um nýtingu.“

– Ertu þá að segja að í framtíðinni verði umhverfisráðuneytið óþarft, vegna þess að málaflokkurinn hafi verið tekinn inn í öll önnur ráðuneyti?

„Já, það má í raun segja að það gæti verið ein niðurstaðan. Það er nú þó þannig að það er alltaf einhver stjórnsýsla í kringum leyfisveitingar og annað slíkt sem ekki hverfur og henni þarf að finna stað.“

Rammaáætlun dró ekki úr átökum

– Þið boðið breytingar á rammaáætlun. Í hverju liggja þær breytingar?

„Hugmyndafræðin að baki rammaáætlun var að draga úr átökum milli umhverfisverndarsinna og virkjunarsinna, sem mér þykja hvoru tveggja ekki góð orð. Mér finnst þetta hafa mistekist. Vissulega fór áætlunin í lögformlegt ferli. Niðurstaðan var að taka út ýmsa kosti sem faghópar voru búnir að meta þjóðhagslega góða og umhverfislega líka. Við enduðum með rammaáætlun með jarðvarmavirkjunum sem við höfum minni þekkingu á en vatnaaflsvirkjunum. Markmið okkar með upptöku rammaáætlunar er í raun að vísa þessum málum aftur til faghópanna. Það má ekki gleyma því að á liðnum misserum hafa komið fram nýjar hugmyndir sem hafa nánast engin umhverfisleg áhrif, eins og stækkun á Búrfellsvirkjun, stækkun Blönduvirkjunar og stækkun Hrauneyjarvirkjunar. Þessa þætti væri mjög áhugavert að skoða.“

– Í samhengi við þetta hlýtur að þurfa að spyrja um Þjórsá. Hvaða afstöðu tekur þú, þingmaður Sunnlendinga, til frekari virkjanaframkvæmda í Þjórsá?

„Ég hef mikinn skilning á því sjónarmiði að fegurðargildi svæðisins er mikið. Við erum hins vegar þjóð sem byggir á nýtingu rafmagns. Miðað við þau gögn sem lágu fyrir við gerð rammaáætlunar hefði mér ekki þótt óeðlilegt að Urriðafossvirkjun, neðsta virkjunin, hefði verið höfð áfram í biðflokki en efri tvær virkjanirnar settar í nýtingarflokk.“

– Breytingar á rammaáætlun þýða, að því er komið hefur fram, fjölgun virkjunarkosta í nýtingarflokki. Þarf að nýta þá virkjunarkosti og hvað eigum við að gera við rafmagnið?

„Ég bendi á að síðasta ríkisstjórn var með álverið í Helguvík og virkjanir tengdar því sem forsendu hagvaxtarspár í þrjú ár. Það stóðst auðvitað ekki. Allir eru hins vegar sammála um að hagvöxtur þurfi að aukast. Þó að ég sé talsmaður þess að við höfum eggin í sem flestum körfum er ég líka þeirrar skoðunar að álver í Helguvík sé komið það langt að við eigum að láta á það reyna. Það myndi skapa mikinn hagvöxt og fjölgun starfa. Hvað varðar aðra nýtingu hafa verið á þriðja tug fyrirtækja sem hafa haft samband við Íslandsstofu um verkefni sem  krefjast orkunýtingar og það þurfum við að skoða í framtíðinni.“

Tilvitnun lýkur.

Ljósmynd: Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs-, landbúnaðar, umhverfis- og auðlindaráðherra. Af vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Birt:
11. júní 2013
Uppruni:
Bændablaðið
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, fr „Umhverfisráðherra telur umhverfisráðuneytið geta verið ónauðsynlegt“, Náttúran.is: 11. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2013/06/11/umhverfisradherra-telur-umhverfisraduneytid-geta-v/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: