Yfirlýsing iðnaðarráðherra
Iðnaðarráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, gaf út þá yfirlýsinguí gær að nú sé til skoðunar í hennar ráðuneyti að veita Norðuráli ýmsar ívilnanir vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík.
Ekki er kunnugt um að Norðurál hafi farið fram á neinar slíkar ívilnanir. Engar vísbendingar eru heldur uppi um að HS Orka og/eða Orkuveita Reykjavíkur vilji selja þessu álveri orku. Sala á orku til álvers í Helguvík er því einungis möguleg í krafti þess að ríkisstjórnin þvingi Landsvirkjun til að selja hana á undirverði.
Engar líkur eru til þess að Norðurál muni greiða hærra orkuverð gegn því að fá styrki frá íslenska ríkinu heldur mun fyrirtækið einfaldlega taka við þeim. Svo verður afgangurinn af hendinni tekinn eins og til stóð hvort sem var. Hvað næst þá fram með slíkum styrkveitingum? Nákvæmlega ekki neitt.
Vonandi mun Ragnheiður Elín kippa að sér höndum enda vandséð hvaða tilgangi það þjónar að rétta eigendum Norðuráls milljarða króna á silfurfati. Slíkt væru alvarleg pólitísk afglöp.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Yfirlýsing iðnaðarráðherra“, Náttúran.is: 4. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2013/06/04/yfirlysing-idnadarradherra/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.