Innigarðurinn
Garður, sem er undir þaki, er virkur næstum allt árið. Sérhvert gróðurhús hefur sitt eigið loftslag. Hita- og rakastig er mismunandi í heimagróðurhúsum, sem bjóða þar af leiðandi upp á mismunandi vaxtarmöguleika fyrir plöntur. Mitt gróðurhús er bogaplasthús með tvöföldu plasti og hefur svolitla volgru af heita pottinum, sem notar frárennslisvatn af húsinu. Yfir pottinum er állok svo gufa og vatnshiti helst inni, en álflöturinn hitar ögn svo þarna frýs ekki nema í miklum kuldum. Reyndar læt ég frjósa til að reyna að eyða skorkvikindum og galopna því dyrnar einn til tvo sólarhringa um áramótin áður en nýr vöxtur fer að bæra á sér að ráði. Vandinn við þessi litlu hús er sá að það hættir til að ofhitna í þeim á vorin, þegar sólin skín glatt, og kólna svo nokkuð snögglega. Það er erfitt að stjórna hitanum og þarf mikla aðgát ef vel á að fara. Þess vegna verður að velja plöntur sem una við slíkt loftslag eða allavega plöntur sem þola það.
Sumir segja með svolítilli fyrirlitningu ef þeir sjá hjá mér eitthvert nauðavenjulegt grænmeti, eins og kartöflur og grænkál, vaxa inni – þetta ræktaði nú mamma úti í garði. En séu örfáar kartöflur settar niður inni koma þær snemma og eru spennandi og eina eða tvær rófur er hægt að fá í júní eða snemma í júlí. Líka klettasalat, sem verður síðan óverulegt í sumarhitanum en fer stundum aftur að vaxa með haustinu og helst þá lengi frameftir. Með því að rækta jarðarber bæði inni og úti er hægt að hafa uppskeru af þeim í þrjá mánuði í góðum árum. Það mun vera auðveldara að fást við blóm í svona húsum en það að geta framleitt eigin fæðu hefur mér alltaf fundist meira spennandi.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.
Ljósmynd: Inniræktun í Garðbæ á Eyrarbakka, Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Innigarðurinn“, Náttúran.is: 18. mars 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/07/innigarurinn/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 7. nóvember 2007
breytt: 23. mars 2014