RB veitir starfsfólki styrk til þess að nota vistvænan ferðamáta
Starfsfólki RB (Reiknistofu bankanna hf) stendur nú til boða að fá styrk fyrir að stunda vistvænan ferðamáta. RB og starfsfólk gerir þá með sér vistvænan samgöngusamning sem felst í því að starfsfólk skuldbindur sig til þess að hjóla, ganga eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu að minnsta kosti þrisvar í viku. Er þetta liður í að framfylgja vistvænni samgöngustefnu sem fyrirtækið hefur sett sér að fara eftir.
RB vill með þessu sýna samfélagslega ábyrgð og stuðla að bættu umhverfi en aukinn umferðarþungi í borgum veldur sífellt meiri mengun, hávaða og öngþveiti. Vistvænn samgöngusamningur hvetur einnig til aukinnar hreyfingar og bættrar heilsu starfsfólks. Þá er ótalinn allur sá sparnaður sem skapast með því að minnka notkun á einkabílum.
Viðbrögðin hafa verið afar jákvæð en á tveimur vikum hefur 34% starfsfólks skrifað undir samgöngusamning. Fyrir utan samgöngustyrkinn er hægt að nýta íþróttastyrk sem fyrirtækið greiðir starfsfólki til kaupa á íþróttafatnaði, búnaði til hjólreiðaiðkunar o.fl.
Að lokum má geta þess að RB er með lið í „Hjólað í vinnuna" átakinu og mikið kapp lagt á að ná góðum árangri.
Birt:
Tilvitnun:
Guðmundur Tómas Axelsson „RB veitir starfsfólki styrk til þess að nota vistvænan ferðamáta“, Náttúran.is: 16. maí 2013 URL: http://nature.is/d/2013/05/16/rb-veitir-starfsfolki-styrk-til-thess-ad-nota-vist/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 17. maí 2013