Sveppasýking í leggöngum er mjög algengur kvilli sem flestar konur verða einhvern tíma fyrir. Sýkillin er þruskusveppur (Candida albicans) sem er eðlilegur þáttur í líkamsflórunni. Við tilteknar aðstæður getur orðið óeðlileg fjölgun gersveppa svo að sýking kemur fram í líkamanum, m.a. í munni, meltingarvegi, þvagrás eða leggöngum. Sveppasýking í leggöngum lýsir sér með miklum kláða og særindum og yfirleitt fylgir þykk, hvítleit útferð.

Jurtir eru mjög áhrifamiklar gegn sveppasýkingu, en þegar um þráláta og langvinna sveppasýkingu er að ræða er nauðsynlegt að huga að mataræði. Sumar fæðutegundir ýta undir eða stuðla að sveppasýkingu en aðrar hamla gegn henni. Forðist einkum sykur og allan sætan mat og drykk, áfengi, osta, sveppi og sojasósu. Borðið brauðmat í hófi. Fæðutegundir sem vinna gegn langvinnri sveppa sýkingu eru fyrst og fremst hvítlaukur, ólífuolía (kaldpressuð) og lifandi jógúrt.

Jurtir gegn sveppasýkingu í leggöngum

Jurtir til nota í legskol: t.d. morgunfrú, sólblómahattur, myrrutré, maríustakkur og hinder.Góð og einföld skolblanda er úr jöfnum hlutum af morgunfrú, sólblómahati og maríustakki.

Nauðsynlegt er að taka jurtir inn samhliða því sem skol er notað, einkum ef sýkingin er langvinn og eða þrálát. Í því skyni reynast hvítlaukur, morgunfrú og sólblómahattur best. Gamalt húsráð við sveppasýkingu er legskol, búið til með 1-2 msk af borðediki í hálft glas af vatni. Oft á tíðum er slíkt skol nóg ef um skyndilega og væga sveppasýkingu er að ræða.

Birt:
13. apríl 2007
Tilvitnun:
Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir „Sveppasýking“, Náttúran.is: 13. apríl 2007 URL: http://nature.is/d/2007/04/13/sveppasking/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 21. febrúar 2011

Skilaboð: