Bráð augnslímhúðarbólga (augnangur) orsakast oftast af gerli eða veiru, en einnig getur bólgan verið fylgikvilli ofnæmis, s.s. heymæði. Langvinn bólga í augnslímhúð er algeng hjá fólki sem býr við mikla loftmengun og einnig hjá rosknu fólki ef augnslímhúðin hefur þornað upp vegna minnkaðrar táraframleiðslu.
Best er að nota jurtir í senn í inntöku og sem augnskol.
Augnskol getur verið þynnt te af jurtunum eða urtaveig í soðnu vatni eða rósavatni. Ef notuð er urtaveig er hægilegt að setja 10-15 dropa af henni í fjórar matskeiðar af vatni. Gætið þess að laga ávallt nýtt augnskol fyrir hvern dag og gætið ítrasta hreinlætis við lögunina. (Sjá nánar um augnskol í kafla um blöndun jurtalyfja.)

Jurtir gegn augnkvillum

Augnfró, morgunfrú, gulmaðra, bjöllulilja, lokasjóður og kamilla. Sólblómahattur er góð jurt við hvers kyns bólgu. Hún er notuð til inntöku.

Annað húsráð við bólgu í augnslímhúð er að baða augun með safa úr hráum kartöflum nokkrum sinnum á dag. Þá kemur einnig að gangi að baða augun með venjulegu tei (kældu) sem er auðugt að barksýrum sem verka barkandi á slímhúðina.
Birt:
13. apríl 2007
Tilvitnun:
Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir „Augnslímhúðarbólga“, Náttúran.is: 13. apríl 2007 URL: http://nature.is/d/2007/04/13/augnslmharblga/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 7. maí 2007

Skilaboð: