Jurtate
Þegar te er gert skal nota ílát sem þolir vel hita og er með góðu loki. Notið hvorki álpotta né óglerjuð leirílát. Ef búa á til te fyrir einn bolla er best að setja 1-2 tsk af jurt í bolla af vatni. Ef búa á til te fyrir þrjá daga skal nota 100 g af jurt á móti lítra af vatni, þ.e. í hlutfallinu 1:10. Te geymist ekki lengi og því er ráðlagt að búa ekki til meira en þriggja daga skammt í senn.
Hellt uppá te
Setjið jurtirnar í ílát. Hellið yfir þær sjóðandi vatni. Lokið ílátinu og látið standa í 20-30 mínútur. Sigtið í gegnum bómullargrisju og vindið jurtirnar vel til þess að ná sem mestum krafti úr þeim. Geymið teið í kæliskáp ef útbúinn hefur verið stærri skammtur en til eins dags. Skammtar fyrir fullorðna eru 1 dl þrisvar á dag, nema annað sé tekið fram.
Te er yfirleitt gert af ofanjarðarhlutum jurtanna, blöðum, blómum og stönglum. Í þeim hlutum jurtanna eru virku efnin auðleysanleg. Ef búa á til te úr fræjum, rótum eða berki vegna efna sem ekki þola suðu (yfirleitt er gert seyði úr þessum plöntuhlutum) þarf að merja plöntuna vel og jafnvel búa til duft úr þeim fyrir lögunina. Ef gera á te úr ferskum jurtum þarf (vegna vatnsinnihalds þeirra) þrefalt það magn jurta sem væri notað af þeim þurrkuðum.
Birt:
Tilvitnun:
Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir „Jurtate“, Náttúran.is: 13. apríl 2007 URL: http://nature.is/d/2007/04/13/jurtate/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 7. maí 2007