,,Við erum ekki mörg , en við erum fólk með heita lífssýn og ríka þörf fyrir að umgangast aðra sem skilja okkur,” segir Sæunn I. Marinósdóttir en grænmetisætur ætla að stofna samtök á laugardag sem eiga að standa fyrir fræðslu og viðburðum og stuðla að auknu framboði vara sem henta þörfum grænmetisæta, auka þekkingu og skilning á lífsstíl grænmetisæta og stunda virka hagsmunagæslu.

Sæunn Ingibjörg segir að hópurinn Íslenskar grænmetisætur hafi lengi starfað á Facebook með um 700 meðlimi. Þeir eigi það sameiginlegt að telja að ýmislegt megi betur fara, varðandi framboð í verslunum og á veitingahúsum. ,,Við héldum undirbúningsfund í mars og lögðum línurnar,” segir Sæunn sem hætti að borða rautt kjöt þegar hún var sautján ára. ,,Smám saman tók ég fleiri fæðutegundir í burtu og núna er ég vegan og borða engar dýraafurðir, hvorki kjöt, egg né mjólkurafurðir. Þá kaupi ég ekkert úr dýraríkinu, hvorki ull né leður,” segir Sæunn og bætir við að það gangi ekki allir svona langt. ,,Það er pláss fyrir margskonar lífsstíl í okkar röðum.”

Sjálf er hún grænmetisæta af samviskuástæðum: ,,Það er út af dýravernd og umhverfismálum. Ég hef miklu betri samvisku nú en áður.”

Aðstandendur nýja félagsins vonast er til að starfsemi þess muni styrkja enn frekar það lifandi samfélag sem myndast hefur meðal grænmetisæta á Íslandi. Fundurinn verður haldinn í sal Lifandi markaðar í Borgartúni 24.

Sjá Facebooksíðu íslenskra grænmetisæta.

Ljósmynd: Nýuppteknar gulrætur, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
29. apríl 2013
Höfundur:
smugan.is
Tilvitnun:
smugan.is „Grænmetisætur stofna samtök“, Náttúran.is: 29. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/30/graenmetisaetur-stofna-samtok/ [Skoðað:3. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 30. apríl 2013
breytt: 3. maí 2013

Skilaboð: