Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur gefið út landsáætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir tímabilið 2013-2024. Í áætluninni er að finna ítarlegt yfirlit yfir núverandi stöðu úrgangsmála á Íslandi, bæði hvað varðar magn einstakra úrgangsflokka og þróun mismunandi leiða í meðhöndlun úrgangs. Þar eru einnig sett fram tímasett markmið sem öll miða að því að bæta nýtingu auðlinda og lágmarka þau neikvæðu áhrif sem myndun og meðhöndlun úrgangs hefur á umhverfið og heilsu manna.

Landsáætlunin á sér nokkurn aðdraganda. Við upphaf vinnu við landsáætlunina var sú nýbreytni viðhöfð að ráðuneytið óskaði eftir hugmyndum og ábendingum frá almenningi, stjórnvöldum og hagsmunaaðilum um hvert bæri að stefna í þessum málaflokkum. Þær hugmyndir sem bárust voru notaðar við gerð áætlunarinnar. Gefinn var kostur á að koma með athugasemdir við drög að landsáætluninni og þær athugasemdir sem bárust leiddu til breytinga á henni.

Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2014 kemur í stað fyrri áætlunar, sem kom út árið 2004 og gilti fyrir tímabilið 2004-2016. Í áætluninni er lögð áhersla á að ævinlega þurfi að skoða úrgangsmál í víðu samhengi, enda ræðst úrgangsmyndunin öðru fremur af neyslu einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Þetta kallar á að beitt sé lífsferilshugsun í allri stefnumótun og ákvarðanatöku um úrgangsmál, jafnt á vettvangi ríkis og sveitarfélaga.

Gerð er grein fyrir stefnu stjórnvalda í úrgangsmálum, bæði á alþjóðlegum vettvangi, innan Evrópusambandsins, á norrænum vettvangi og innanlands. Stefna íslenskra stjórnvalda endurspeglast í drögunum, en framkvæmd stefnunnar verður óhjákvæmilega að talsverðu leyti í höndum sveitarfélaganna. Meginmarkmiðin eru skilgreind í landsáætlun, en nánari útfærslum verður síðar lýst í svæðisáætlunum, sem sveitarstjórnir koma sér upp, einar sér eða sameiginlega fyrir stærri svæði.
Miklar framfarir í úrgangsmálum

Þegar rýnt er í stöðu úrgangsmála eins og hún birtist í landsáætlun, sést að mikið hefur áunnist á síðustu árum. Heildarmagn úrgangs á hvern íbúa jókst jafnt og þétt fram til ársins 2008 og fór hæst í 2.158 kg á hvert mannsbarn. Síðan þá hefur talan farið ört lækkandi og var 1.596 kg árið 2010, sem er nálægt meðaltali áranna 2000 og 2001. Mun meiri árangur hefur þó náðst í flokkun þess úrgangs sem til fellur. Þannig fóru 79% þess úrgangs sem til féll árið 1995 í urðun, en árið 2010 var sú tala komin niður í 32%. Markmiðin í landsáætlun miða að því að bæta nýtingu úrgangsins enn frekar og draga verulega úr urðun. Þessu á að ná fram með ýmsum hætti, svo sem með því að draga markvisst úr urðun lífræns úrgangs, auðvelda almenningi að skila frá sér flokkuðum úrgangi, koma á sértækri söfnun á a.m.k. pappír, málmum, plasti og gleri um land allt og stórauka flokkun á byggingar- og niðurrifsúrgangi. Leiddar eru að því líkur að árið 2025 gæti urðun nánast heyrt sögunni til.

Í landsáætlun er lögð meiri áhersla á fræðsluþáttinn en áður hefur verið gert, enda sé markviss fræðsla lykillinn að því að aðrar aðgerðir stjórnvalda skili tilætluðum árangri. Málið snúist heldur ekki einvörðungu um innihald fræðslunnar, heldur einnig og ekki síður hvernig henni sé komið á framfæri. Unnið er að því að Umhverfisstofnun verði falið aukið hlutverk hvað þetta varðar, en hingað til hefur fræðsla um úrgangsmál einkum verið á höndum sveitarfélaga, samlaga á þeirra vegum og úrgangsfyrirtækja. Þar hefur margt gott verið gert, en framkvæmdin hefur eðlilega ráðist af þekkingu og áhuga þeirra sem sinna þessum málum á hverjum stað.

Auk þess sem hér hefur verið nefnt er sérstakur kafli í landsáætlun um framtíðarsýn. Þar er fjallað um líklega og fyrirsjáanlega þróun mála á næstu árum og áratugum og um þá þætti sem helst munu hafa áhrif á þessa þróun.

Skoða Landsáætlun um úrgang 2013 – 2024.

Grafík: Endurvinnsluhringrásin, úr fræðsluefni Endurvinnslukorts-appsins „Af hverju endurvinna“. Guðrún A. Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.

Birt:
27. apríl 2013
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Landsáætlun um úrgang 2013-2024 komin út“, Náttúran.is: 27. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/27/landsaaetlun-um-urgang-2013-2024-komin-ut/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: