Krepputunga friðlýst - Vatnajökulsþjóðgarður stækkaður
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur staðfest friðlýsingu Krepputungu, 678 ferkílómetra svæðis sem liggur á milli Jökulsár á Fjöllum og Kreppu. Svæðið verður hluti Vatnajökulsþjóðgarðs en innan þess er m.a. Kverkfjallarani og Hvannalindir. Þegar í sumar verður aukið við landvörslu á hinu friðlýsta svæði.
Hið friðlýsta svæði nær til svokallaðrar Krepputungu sem er ungt eldfjallaland, og er yfirborð hennar víðast þakið hraunum, sem runnið hafa eftir að ísöld lauk. Syðst í tungunni, á milli Dyngjujökuls og Brúarjökuls eru Kverkfjöll, mikil megineldstöð sem talin er ennþá virk, og rísa hnjúkar þeirra allt að 1920 metra yfir sjávarmál. Norður frá þeim gengur Kverkfjallarani út í miðja tunguna og austan í honum, utantil, eru Hvannalindir. Landslagið er ákaflega fjölbreytt en jafnframt viðkvæmt fyrir raski.
Hvannalindir, austast og efst í Krepputungu, voru friðlýstar árið 1973, en með friðlýsingunni núna verða þær hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Þær eru ein hinna gróðurríku vinja, sem skapast hafa við uppsprettur á Miðhálendinu, og er þar að finna samsvarandi gróður og í Herðubreiðarlindum, þó að þetta svæði liggi um 150 metrum hærra yfir sjó.
Þetta er þriðja stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs frá því hann var stofnaður árið 2008. Árið 2009 bættust við þjóðgarðinn land á norðursvæði en þar á meðal var náttúruvættið Askja í Dyngjufjöllum. Þá stækkaði þjóðgarðurinn í júlí 2011 þegar inn komu m.a. landsvæði á suðursvæði við Hoffell og á vestursvæði Langisjór og Eldgjá.
Mynd: Kort sem sýnir legu Krepputungu norðan Vatnajökuls (bleika svæðið).
Birt:
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Krepputunga friðlýst - Vatnajökulsþjóðgarður stækkaður“, Náttúran.is: 27. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/27/krepputunga-fridlyst-vatnajokulsthjodgardur-staekk/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.