Forstjóri Century Aluminum, móðurfélags Norðuráls á Grundartanga, segist vongóður um að ný ríkisstjórn komi álveri í Helgvík í gagnið. Hann segir í ávarpi að ný ríkisstjórn muni veita félaginu stuðning og sjá um virkjanir og línulagnir vegna álversins.

Nýlegar kannanir sýna að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga er því mótfallinn að hér verði reist ný álver. Fram hefur komið mikill einhugur sjálfstæðis- og framsóknarmanna um að taka upp rammaáætlun og hefja virkjanir, meðal annars í Þjórsá. Flokkarnir tveir gætu fengið meirihluta þingmanna í kosningunum á morgun ef marka má kannanir.

Michel Bless, forstjóri Century, segir í ávarpinu að stjórn félagsins voni að ný ríkisstjórn veiti Century stuðning til að endurvekja framkvæmdir í Helguvík, þar sem Norðurál hefur áformað stórt álver. Þá sé vonast til þess að ný ríkistjórn sjái til þess að raforkulínu vegna álversins verði settar upp.

Michael Bless segir orðrétt, í lauslegri þýðingu: „Við erum vongóð um að ný ríkisstjórn, sem búast má við í kjölfar kosninganna á Íslandi í lok apríl, muni sjá okkur fyrir nauðsynlegum stuðningi til að hefja að nýtju stórframkvæmdir, útvega okkur næga orku og tryggja flutningskerfi raforku til álversins.“

Nýlega var vakin athygli á því í Kastjósi að álver Norðuráls á Grundartanga, sem hér hefur starfað árum saman, hefur aldrei greitt tekjuskatt. Hagnaður sé fluttur úr landi í gegnum fléttu félaga. Norðurál hefur á móti sagt að það greiði mikið í önnur opinber gjöld.

Júlíus Jónsson, forstjóri HS, orku rakti nýlega í grein ástæður þess að álver í Helguvík hefur ekki orðið. Eitt stærsta málið eru deilur Norðuráls og HS orku um raforkuverð, en hann kvartaði einnig undan kröfum vegna umhverfismála.

Marg oft hefur verið bent á að ekki sé búið að finna þá orku sem þarf vegna álversins í Helguvík og miklar deilur hafa staðið um raflínur til verksmiðunnar, en þær þarf  að leggja yfir á annan tug sveitarfélaga, þar á meðal yfir vatnsból Reykvíkinga.

Birt:
26. apríl 2013
Höfundur:
smugan.is
Tilvitnun:
smugan.is „Álrisi bíður eftir virkjanastjórn“, Náttúran.is: 26. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/26/alrisi-bidur-eftir-virkjanastjorn/ [Skoðað:7. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: