Fæðuöryggi inn í kjörklefann
Undanfarnar vikur hefur hryna af uppljóstrunum í matvælaiðnaðinum gengið yfir. Hver fréttin af fætur annarri hefur upplýst að ýmist er rangt kjöt í matvælunum eða þá hefur kjötið hreinlega vantað með öllu.
Pólítisk rétthugsun, sem felur í sér hugmyndafræði um eftirlit með iðnaði, hefur gjarnan verið lítillækkuð og stimpluð sem "forsjárhyggja". Kannski er það ástæðan fyrir því að framleiðendur hika ekki við að ganga jafn langt og raun ber vitni.
Matvælaframleiðsla í Evrópu er orðin að stóriðju og með stóriðjuháttum fylgja ýmis vandkvæði. Því fleiri aðilar/lönd sem koma að framleiðslunni því minna eftirlit er með afurðinni. Því fleiri framleiðendur því minni ábyrgð. Kalla þurfti inn 50.000 tonn af mögulegu hrossakjöti sem búið var að dreifa á 370 fyrirtæki í mismunandi löndum í Evrópu.
En það er margt fleira varhugavert í unnum matvælum eins og bragð- og útfyllingarefni. Til dæmis sterkjusýróp eða „high fructose corn syrup“ sem er framleitt úr ódýrum erfðabreyttum maís. Glútamat (E-621) og sætuefnin Aspartam og Asesúlfam hafa einnig verið umdeild en þau eru mjög ódýr aukefni sem framleiðendur hagnast töluvert á að nota í stað sykurs, sem er dýr! Fyrirtækin geta þannig leyft sér að auglýsa sykurlausu vörurnar sérstaklega því þær kosta neytendur jafn mikið.
Það getur því verið gott að venja sig á að skoða innihaldslýsingar á matvörum áður en þær fá að fara í vörukörfuna. Með því að hafna unnum matvælum geta neytendur haft áhrif á framboðið því framleiðendur starfa samkvæmt eftirspurn neytenda. Mátturinn til að hafa áhrif er því okkar!
En hvaða vörum er hægt að treysta í dag? Lífrænt vottaðar afurðir gangast undir stöðugt eftirlit til að uppfylla lágmarks kröfur fyrir vottun. Lífræn vottun lýtur undir alþjóðlegum stöðlum og mikilvægt er að finna stimpilinn á vörunni sem staðfestir að hún sé pottþétt 100% lífrænt vottuð.
Á Íslandi þurfa fyrirtæki að gangast undir strangt aðlögunarferli í samstarfi við vottunarstofuna Tún til að öðlast og viðhalda vottun. Þetta er kostnaðarsamt ferli fyrir framleiðendur en þar sem eftirspurn er sífellt að aukast eftir heiðarlegri og rekjanlegri framleiðslu, er þetta skref sem sífellt fleiri vilja taka.
Það getur reynst neytendum erfið tilhugsun að færa sig yfir í lífrænt vottað fæði. Sjálf hef ég lært að sigta út heilnæmar vörur með því skoða innihaldslýsingar. Best hefur mér fundist að styðja við íslenska bændur og kaupa sem mest ferskt. Það sparaðist mikill peningur þegar við hættum að versla unnin matvæli og fyrir vikið er ekki mikið dýrara að versla lífrænt vottaðar vörur í bland við aðrar.
Solla Eiríksdóttir, hráfæðikokkur, skrifaði eftirfarandi á fésbókarsíðu sinni í vikunni; „Ég auglýsi eftir stjórnmálaflokk sem þorir að setja á stefnuskrá sína: Lífrænt Ísland“ Hún fékk nærri 200 "like". Fæðuöryggi er ein af undirstöðum góðrar heilsu almennings og þetta er málaflokkur sem skiptir okkur máli.
Borðum því heilnæmt fæði í sátt við umhverfið og vistkerfin okkar! Mengum minna, hleypum dýrunum út og stöðvum verksmiðjubúskap! Þetta er hægt að styðja með því að velja lífrænt vottaðar afurðir. Höfum náttúruvernd og fæðuöryggi með okkur inn í kjörklefann og kjósum grænan flokk sem styður lífræna ræktun!
Ljósmynd: Höfundurinn Svala Georgsdóttir en hún er fulltrúi framkvæmdanefndar Samtaka lífrænna neytenda á Íslandi.
Birt:
Tilvitnun:
Svala Georgsdóttir „Fæðuöryggi inn í kjörklefann“, Náttúran.is: 25. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/25/faeduoryggi-inn-i-kjorklefann/ [Skoðað:3. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.