Fuglaverndar ályktar gegn virkjun við Mývatn og með endurheimt votlendis
Aðalfundur Fuglaverndar sem haldinn var 20. apríl síðastliðinn sendir frá sér tvær ályktanir:
1. Ályktun gegn virkjun við Mývatn
Aðalfundur Fuglaverndar hvetur til þess að nú þegar verði hætt við öll frekari áform um jarðvarmavirkjanir við Mývatn. Það steðja margar ógnir að einstöku lífríki vatnsins. Fleiri borholur í Bjarnarflagi munu hafa afar neikvæðar afleiðingar. Fuglvernd hvetur Landsvirkjun til að hætt nú þegar við áform um virkjun við Mývatn.
Greinargerð: Vatnasvæði Mývatns og Laxár hafa verndargildi á heimsmælivarða og eru einn allra mikilvægasti fuglastaður á Íslandi og þar verpa m.a.15 tegundir anda.
- Við Mývatn er mesti varpstaður flórgoða í Evrópu, og 50 % allra flórgoða á Íslandi verpa við vatnið.
- Nánast allar hrafnsendur á Íslandi halda til á Mývatni yfir 90% stofnsins.
- Mývatn og Laxá stærsta og mesta varp straumanda í heiminum en straumendur finnast hvergi annars staðar í Evrópu.
- Mývatn er geysi mikilvægur varpstaður óðinshana á íslandi og í Evrópu.
- Mývatn og Laxá eru einu varpstaðir húsandar í Evrópu utan fáeinna para sem verpa við aðrar ár í nágrenni vatnsins.
Forsenda hins einstaka lífríkis við Mývatn er sú að volgt, steinefnaríkt grunnvatn sérstaklega að kísli, hripar hægt en stöðugt í grunnt stöðuvatnið og skapar einstök skilyrði fyrir kísilþörunga og fleiri lífverur sem mynda grunninn að fuglalífinu. Rétta magnið örvar lífríkið en of mikið er ógnun við það.
Frá því að nýting jarðvarma hófst við Mývatn hefur hallað undan lífríkinu. Jarðhitamengun, borholuvökvi frá Bjarnarflagi sem verður til við þéttingu gufu og inniheldur mikið af þungmálum rennur stöðugt frá eldri borholum til Mývatns sem getur haft afar alvarlegar afleiðingar fyrir umhverfið. Silung fækkaði mikið í vatninu og hefur ekki náð sér á strik. Þá hefur álag á lífríki vatnsins aukist þar sem frárennsli eða skólp frá mannvirkjum hefur aukist vegna mikils fjölda ferðamanna við vatnið, að ógleymdri mengun vegna vaxandi bílaumferðar.
2. Ályktun Fuglaverndar um endurheimt votlendis
Fuglavernd hvetur stjórnvöld og landeigendur til að hætta framræslu og endurheimta votlendi.
Greinargerð: Árið 1996 var hafist handa við endurheimt tjarna og mýra í smáum stíl. Þrátt fyrir að vaxandi þekkingu á mikilvægi votlendis fyrir lífríki Íslands og loftslag hefur framræsla votlendis á Íslandi verið að færast í aukana á ný umfram það sem er endurheimt. Þessu verður að snúa við. Mýrarnar eru búsvæði fuglategunda sem við berum ábyrgð á á heimsvísu, t.d. óðinshana, jaðrakans og stelks.
Mýrarnar með flóum, flæðiengjum og smátjörnum eru fallegt náttúrulegt umhverfi sem mikilvægt er að vernda og endurheimta það sem spillt hefur verið en um 30.000 kílómetrar af skurðum voru grafnir á 20. öld á Íslandi. Mýrajarðvegurinn geymir milljarða tonna af kolefni sem safnast hefur þar upp sem mór á síðustu 10.000 árum eða frá lokum Ísaldar. Endurheimt mýra og vernd heillegra mýra er mikilvægasta lóðið á vogarskálar baráttunnar gegn loftslagsbreytingunum í heiminum sem Íslendingar geta lagt af mörkum.
Ljósmynd: Endurheimt á votlendi í fuglafriðlandinu í Flóa. Ljósm.Jóhann Óli Hilmarsson.
Birt:
Tilvitnun:
Hólmfríður Arnardóttir „Fuglaverndar ályktar gegn virkjun við Mývatn og með endurheimt votlendis“, Náttúran.is: 24. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/24/fuglaverndar-alyktar-gegn-virkjun-vid-myvatn-og-me/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.