Umhverfis- og auðlindaráðuneytið efnir til dagskrár miðvikudaginn 24. apríl næstkomandi í tilefni af degi umhverfisins, sem í ár ber upp á sumardaginn fyrsta. Efnt verður til málþings um loftgæði og lýðheilsu auk þess sem Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra afhendir viðurkenningar fyrir störf á sviði umhverfismála á sérstakri hátíðarsamkomu.

Dagur umhverfisins er þann 25. apríl næstkomandi en það er fæðingardagur náttúrufræðingsins og læknisins Sveins Pálssonar. Í tilefni dagsins stendur umhverfis- og auðlindaráðuneytið í samvinnu við velferðarráðuneytið fyrir málþingi undir yfirskriftinni Hreint loft – betri heilsa, en á dögunum kom út samnefnt rit stýrihóps ráðuneytanna tveggja um loftgæði og lýðheilsu.

Hátíðarsamkoma umhverfis- og auðlindaráðuneytisins verður í Hannesarholti við Grundarstíg og hefst kl. 13:00. Þar mun Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra afhenda viðurkenningar fyrir störf á sviði umhverfismála. Kuðungurinn verður veittur fyrirtæki sem hefur skarað fram úr í umhverfismálum og Varðliðar umhverfisins er viðurkenning sem veitt er grunnskólabörnum fyrir verkefni á sviði umhverfismála.

Aðrir viðburðir í tengslum við dag umhverfisins:

  • Umhverfisnefnd Garðabæjar skipuleggur fræðslugöngu sunnudaginn 28. apríl upp að Vífilsstaðaseli ofan Grunnuvatna undir leiðsögn Ragnheiðar Traustadóttur, fornleifafræðings. Mæting er kl. 13:00 við Vífilsstaðavatn við gamla torfkofann við bílastæðið.
  • Kötlusetur í Vík í Mýrdal býður uppá erindi Jóhanns Óla Hilmarson um fugla í Mýrdal á degi umhverfisins, 25. apríl kl. 15:00.
  • Akraneskaupstaður efnir til dagskrár þann 26. apríl í tilefni af degi umhverfisins.

Greint verður frá fleiri viðburðum hér jafn óðum og upplýsingar um þá berast.

Sjá þá sem hlotið hafa Kuðunginn frá upphafi hér á Grænum síðum.

Ljósmynd: Sólarlag við Faxaflóa, Árni Tryggvason.

Birt:
24. apríl 2013
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Dagskrá í tengslum við Dag umhverfisins“, Náttúran.is: 24. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/20/dagskra-degi-umhverfisins/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. apríl 2013
breytt: 24. apríl 2013

Skilaboð: