Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti í ríkisstjórn í morgun skýrslu Umhverfisstofnunar um ástand friðlýstra svæða. Sex svæði eru nú talin í verulegri hættu sem er fækkun um fjögur svæði ef miðað er við sambærilegan lista sem gefinn var út fyrir tveimur árum.

Svæðin sem fjallað er um í skýrslunni eru flokkuð í tvo hópa og lenda á rauðum eða appelsínugulum lista eftir því hversu alvarlegt ástand þeirra er talið. Svæði á rauða listanum metur Umhverfisstofnun undir svo miklu álagi að þar þurfi þegar að bregðast við. Svæði á appelsínugula listanum eru svæði sem stofnunin telur vera undir töluverðu álagi sem fylgjast þurfi grannt með og bregðast við eftir atvikum.

Sex svæði eru nú talin í verulegri hættu en þau eru Friðland að fjallabaki, Geysir, Helgustaðanáma, Reykjanesfólkvangur, Laugarás og verndarsvæði Mývatns og Laxár en tvö síðastnefndu svæðin voru áður á appelsínugulum lista. Árið 2010 voru svokölluð rauð svæði tíu talsins en frá því að fyrri skýrslan kom út hafa fjögur ný svæði, Skútustaðagígar, Skógafoss, Háubakkar og Rauðhólar bæst á appelsínugula listann. Nokkur svæði hafa flust milli flokka og tvö svæði, Dynjandi og Hraunfossar eru ekki lengur á lista yfir svæði í hættu. Staða svæða í skýrslunni er sýnd í töflunni hér fyrir neðan.

Rauðlituð svæði eru í verulegri hættu að tapa verndargildi sínu eða hafa tapað því að hluta til.
Appelsínugul svæði eru í hættu á að tapa verndargildi sínu og þarfnast aðgerða til að snúa þeirri þróun við.

Rauð svæði 2010
Dyrhólaey
Friðland að Fjallabaki
Geysir
Grábrókargígar
Gullfoss
Helgustaðanáma
Hveravellir
Reykjanesfólkvangur
Surtarbrandsgil
Teigarhorn

Appelsínugul svæði 2010
Dynjandi 
Eldborg í Bláfjöllum
Fossvogsbakkar 
Geitland
Hraunfossar
Kringilsárrani
Laugarás
Verndarsvæði Mývatns og Laxár

Rauð svæði 2012
Friðland að Fjallabaki
Geysir
Helgustaðanáma
Reykjanesfólkvangur
Laugarás
Verndarsvæði Mývatns og Laxár

Appelsínugul svæði 2012
Dyrhólaey
Grábrókargígar
Gullfoss
Hveravellir
Surtarbrandsgil
Teigarhorn
Eldborg í Bláfjöllum
Fossvogsbakkar
Geitland
Kringilsárani
Skútustaðagígar
Skógafoss
Háubakkar
Rauðhólar

Heimild: Ástand friðlýstra svæða, skýrsla Umhverfisstofnunar 2013, bls. 5

Mat sitt byggir Umhverfisstofnun á svokallaðri SVOT greiningu, en hún byggir á styrkleika, veikleika, ógnum og tækifærum viðkomandi svæðis.

Ástand friðlýstra svæða, skýrsla Umhverfisstofnunar.

Birt:
16. apríl 2013
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Skýrsla um ástand friðlýstra svæða kynnt í ríkisstjórn“, Náttúran.is: 16. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/16/skyrsla-um-astand-fridlystra-svaeda-kynnt-i-rikiss/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 27. nóvember 2014

Skilaboð: