Í gær lýsti forsætisráðherra Íslendinga því yfir í fyrsta sinn, kvitt og klárt, í stefnuræðu sinni að:

Ein stærsta ógn samtímans er hlýnun jarðar af völdum gróðurhúsalofttegunda.

Þessari yfirlýsingu fylgdi engin montstatus þess efnis að Ísland stæði framar öllum þjóðum í nýtingu hreinnar orku. Heldur sagði Bjarni Benediktsson:

Við þurfum að axla ábyrgð í samfélagi þjóðanna.

Væntanlega vísa þessi ummæli forsætisráðherra til þess að Íslendingar verði að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda í stað þess að auka hana stöðugt; að draga verði úr losun um allt að 40% fyrir árið 2030, miðað við 1990.[1]

Annað nýmæli í ræðu Bjarna var að forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins styður málflutning umhverfisráðherra í loftslagsmálum:

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru staðreynd. Við vitum að hlýnandi sjór við Íslandsstrendur og súrnun sjávar með tilheyrandi áhrifum á fiskstofna eru afleiðingar loftslagsbreytinga. Við sjáum jöklana okkar bráðna og minnka að umfangi frá ári til árs. Við vitum ekki hvort Golfstraumurinn mun halda styrk sínum og stefnu og gera landið byggilegt áfram. En við vitum hvað þarf að gera til að bregðast við þessari óheillaþróun. Það er ekki í boði að bíða með það. Við verðum að draga stórfellt úr losun gróðurhúsalofttegunda með öllum tiltækum ráðum.

Eftir stendur að forsætisráherra veiti umhverfisráðherra fullan óskoraðan stuðning sinn við að gera og fylgja eftir:

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið.

Að öðrum kosti munu aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni halda að sér höndum, líkt og verið hefur undanfarna áratugi.

Náttúruverndarsamtök Íslands fagna ummælum forsætisráðherra og vænta þess að fyrsta skrefið verði stigið með aðgerðaráætluninni sem allra fyrst.

 


[1] Bent skal á að ríkisstjórn Íslands á enn eftir að ná samkomulagi við Evrópusambandið um þátttöku Íslands í sameiginlegri loftslagsstefnu Evrópuþjóða. Á hinn bóginn hafa norsk stjórnvöld fyrir nokkru lýst ánægju sinni með þá tillögu ESB að dregið verði úr losun þar í landi um 40% miðað við 1990. Sjá einnig grein umhverfisráðherra Noregs, Vidars Helgesens, sem birtist í VG 20. júlí 2016.

Birt:
25. janúar 2017
Tilvitnun:
Náttúruverndarsamtök Íslands „Tímamót í loftslagsmálum?“, Náttúran.is: 25. janúar 2017 URL: http://nature.is/d/2017/01/25/timamot-i-loftslagsmalum/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: