Háspennumastur. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Landvernd telur úrskurð þann sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi í gær um að ógilda framkvæmdaleyfi Skútustaðahrepps fyrir Kröflulínu 4 vera fordæmisgefandi. Jafnframt felur niðurstaðan í sér viðurkenningu á gildi náttúruverndarsjónarmiða við ákvarðanir stjórnvalda. Í ákvörðun sinni í gær setti úrskurðarnefndin fram mikilvægar stefnumarkandi efnisniðurstöður og leiðbeiningar um markmið umhverfismats, vinnubrögð framkvæmdaaðila, hlutverk Skipulagsstofnunar og ekki síst skyldur sveitarfélaga. Úrskurðurinn felur í sér gagnrýni á vinnubrögð Landsnets og Skipulagsstofnunar við framfylgd markmiða umhverfismatslöggjafar og áfellisdóm yfir framfylgd skipulagslaga og náttúruverndarlaga í meðförum sveitarfélagsins á leyfisumsókn Landsnets.

Í úrskurðinum er tekið undir sjónarmið Landverndar og Fjöreggs í Mývatnssveit að umhverfismati framkvæmdarinnar og ákvarðanatöku sveitarfélagsins í tengslum við það hafi verið ábótavant. Tilgangur með umhverfismati er að draga úr umhverfisáhrifum framkvæmda. Það verður aðeins gert með vönduðum rannsóknum og samanburði framkvæmdakosta. Samkvæmt úrskurðinum sinnti Landsnet aðeins að nafninu til þeirri lagaskyldu að bera saman mismunandi valkosti fyrir lagningu raflínanna (jarðstrengir og línuleiðir) og Skipulagsstofnun brást eftirlitshlutverki sínu vegna þessa. Loks var ákvörðun sveitarstjórnar ekki byggð á viðeigandi rökstuðningi og hún sinnti ekki skyldu sinni til að rannsaka málið. Úrskurðurinn fjallar því fyrst og fremst um efnisleg mistök þessara aðila, ekki formgalla eins og skilja mátti af orðum umhverfisráðherra og oddvita Skútustaðahrepps í hádegisfréttum RÚV í dag.

Mikilvægt er að framkvæmdaraðilar, Skipulagsstofnun og sveitarfélög í landinu líti í eigin barm, læri af þeim mistökum sem hér voru gerð og líti til þeirra leiðbeininga sem felast í úrskurðinum. Á þetta ekki síst við um undirbúning og framkvæmd umhverfismats, eftirlit með því og þá ábyrgð sem fylgir ákvarðanatöku um framkvæmdir sem hafa verulega áhrif á umhverfið. Úrskurðurinn staðfestir jafnframt að hefði Landsnet tekið undir kröfu Landverndar og Fjöreggs í mars 2015 um endurbætt umhverfismat væri staðan í dag önnur.

Loks telur Landvernd að framangreindum aðilum væri hollara að viðhafa framvegis vandaðri vinnubrögð í samræmi við lög í landinu og sýna í verki virðingu sína gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum og ekki síst starfi umhverfisverndarsamtaka að bættu umhverfi og mannlíf. Sú fádæma aðför að málsmeðferðarréttindum umhverfisverndarsamtaka, stjórnarskrá og alþjóðasáttmálum sem stjórnvöld áætluðu með setningu löggjafar um framkvæmdaleyfin er nú fallin um sjálfa sig. Stjórnvöldum er ekki lengur stætt á að halda lagasetningu um Bakkalínur til streitu.

Birt:
11. október 2016
Höfundur:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Stefnumarkandi efnisniðurstöðu úrskurðarnefndar fagnað“, Náttúran.is: 11. október 2016 URL: http://nature.is/d/2016/10/11/stefnumarkandi-efnisnidurstodu-urskurdarnefndar-fa/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: