Við Mývatn. Ljósm. Landvernd.Náttúruverndarsamtökin Fjöregg í Mývatnssveit og Landvernd hafa kært fyrirhugaða lagasetningu um Bakkalínur til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Að mati samtakanna væru slík lög brot á rétti umhverfisverndarsamtaka til að bera ákvarðanir stjórnvalda undir dómstól eða annan óháðan og sjálfstæðan úrskurðaraðila. Framkvæmdaleyfi fyrir Bakkalínum, þar með talið umhverfismat frá 2010, eru nú í skoðun hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í fjórum kærumálum samtakanna. Nefndin stefnir að því að úrskurða í málunum í vikunni 10.-14. október[1].
 
Bakkalínufrumvarpið miðar annarsvegar að því að afturkalla framkvæmdaleyfi sveitarfélaganna sem kærð voru og koma þannig í veg fyrir að úrskurðað verði í málinu og hinsvegar að gefa út nýtt framkvæmdaleyfi fyrir línunum. Slík lög myndu kippa kæruréttinum úr sambandi og væru því brot á EES-samningnum, eins og fjöldi sérfræðinga[2] hefur bent Alþingi á. „Við ákváðum að leita strax til ESA með þetta mál og höfum fengið það staðfest að þau muni skoða málið ef og þá um leið og lögin yrðu samþykkt af Alþingi“, segir Ólafur Þröstur Stefánsson, formaður Fjöreggs í Mývatnssveit.
 
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar segir að samtökin séu einnig að kanna möguleikann á því að kvarta til eftirlitsnefndar Árósasamningsins og að senda kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu verði frumvarpið samþykkt, en ráðgjöf hollenska lagaprófessorsins Kees Bastmeijer[3] til atvinnuveganefndar Alþingis er afdráttarlaus um að lögin séu líkleg til að fara gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð. „Sú staðreynd að líklega eru bara ein til tvær vikur í úrskurð sýna einbeittan brotavilja stjórnvalda gegn náttúruvernd og umhverfisverndarsamtökum í landinu. Á sama tíma þegja þunnu hljóði þau yfirvöld sem bera ábyrgð á framfylgd umhverfis- og náttúruverndarlaga í landinu, þ.e.a.s. umhverfisráðuneytið og undirstofnanir þess“, segir Guðmundur Ingi.

[1] http://www.althingi.is/altext/erindi/145/145-2171.pdf.
[2] http://www.althingi.is/altext/erindi/145/145-2169.pdf. / http://www.althingi.is/altext/erindi/145/145-2151.pdf. / http://www.althingi.is/altext/erindi/145/145-2174.pdf.
[3] http://www.althingi.is/altext/erindi/145/145-2174.pdf.

Birt:
3. október 2016
Tilvitnun:
Landvernd, Fjöregg – félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit „Náttúruverndarsamtök kæra Bakkalínur til ESA“, Náttúran.is: 3. október 2016 URL: http://nature.is/d/2016/10/03/natturuverndarsamtok-kaera-bakkalinur-til-esa/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: