Frá KröfluLandvernd undrast fréttir af mögulegum pólitískum afskiptum ríkisstjórnar Íslands af máli sem rekið er fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vegna loftlína frá Kröflu að Bakka. Ríkisstjórn getur ekki haft áhrif á ákvarðanir óháðra úrskurðarnefnda eða dómstóla og Alþingi ekki breytt lögum afturvirkt, svo sem hugmyndir eru uppi um. Öll slík íhlutun væri einnig brot á alþjóðasamningum og rétti almennings til endurskoðunar ákvarðana um umhverfismál. 

 

Brot á alþjóðasamningum 

Sú hugmynd hefur verið viðruð af ríkisstjórninni að breyta náttúruverndarlögum afturvirkt til þess að verkefni sem komin voru af stað fyrir gildistöku laganna í nóvember 2015 verði ekki stöðvuð. Samþykki Alþingi sértæka eftiráaðgerð væri það fordæmalaust brot á skuldbindingum Íslands samkvæmt alþjóðasamningum, þ.m.t. EES-samningnum og Árósasamningnum. Með fullgildingu Íslands á Árósasamningnum fyrir fimm árum skuldbundu íslensk stjórnvöld sig til þess að tryggja að óháður úrskurðaraðili eða dómstóll endurskoði leyfi til framkvæmda. Sú endurskoðun er á valdsviði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem stefnir að því að úrskurða í málunum er varða línurnar til Bakka í næsta mánuði. 

Efnislega fjalla málin um lögmæti leyfisveitinga sveitarfélaga frá apríl og júní á þessu ári. Einungis þau lög er þá giltu verða lögð til grundvallar úrskurða í þeim málum, ekki seinni tíma löggjöf.  

 

Kröfum um náttúruvernd ekki mætt

Á síðustu 14 árum hefur Landvernd margítrekað gert athugasemdir við umhverfismat og skipulag vegna framkvæmda á Þeistareykjum, við Kröflu og háspennulínur að Bakka. Mikilvægir náttúruverndarhagsmunir eru á svæðinu og lagaákvæði um verndun nútímahrauna hefur verið í gildi allt frá síðustu öld.  

Fyrir hálfu öðru ári fóru samtökin formlega fram á að fleiri valkostir yrðu skoðaðir með nýju umhverfismati raflína frá Kröflu að Bakka. Forsendur höfðu þá gjörbreyst frá umhverfismati 2010 vegna minni raforkuþarfar á Bakka og tækniframfara í lagningu jarðstrengja. Ekki var hlustað á kröfur og ábendingar Landverndar. Landvernd beitti síðan kærurétti sínum um leið og lög leyfðu, það er þegar sveitarfélögin gáfu leyfi fyrir framkvæmdum í vor og sumar. 

 

Tómlæti Landsnets 

Að mati Landverndar þarf Landsnet að svara fyrir það hve seint sótt var um framkvæmdaleyfi. Það var ekki fyrr en í mars á þessu ári, eftir að Landsnet hafði boðið út framkvæmdirnar. Miðað við alvarleika málsins og forsögu mátti Landsnet búast við kæru frá umhverfisverndarsamtökum og/eða landeigendum. Landsnet hefur haft miklu meira en nægan tíma til að skoða aðra valkosti í línulögnum. Fyrirtækinu er skylt að horfa til umhverfissjónarmiða. Ábyrgð Landsnets á stöðu mála er mikil og undrast Landvernd tómlæti fyrirtækisins þegar svo miklir fjárhagslegir hagsmunir eru sagðir vera í húfi.

Standi vilji til þess að finna lausn á þessu máli áður en niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir, liggur beinast við að Landsnet komi fram með tillögur að línulögnum og -leiðum sem hlífa hraununum. Þrátt fyrir það láta tillögur frá fyrirtækinu enn á sér standa, tveimur og hálfum mánuði eftir að fyrsti úrskurðurinn um stöðvun framkvæmda var kveðinn upp í þessum málum. 

Birt:
12. september 2016
Höfundur:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Íhlutun ríkisstjórnar í störf úrskurðarnefndar fráleit“, Náttúran.is: 12. september 2016 URL: http://nature.is/d/2016/09/12/ihlutun-rikisstjornar-i-storf-urskurdarnefndar-fra/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: