Verkefnisstjórn rammaáætlunar skilar ráðherra tillögum sínum
Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar skilaði í dag umhverfis- og auðlindaráðherra tillögum sínum að flokkun virkjunarkosta.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir afhendingu tillagna verkefnisstjórnar mikil tímamót. „Þetta er í fyrsta sinn sem lögð er fram tillaga sem er unnin að öllu leyti í samræmi við lög um rammaáætlun sem tóku gildi að fullu árið 2013. „Ekki er síður ánægjulegt að tímaáætlun og ferlið sem lagt var upp með stóðst. Þessu ber að fagna og á verkefnastjórn rammaáætlunar þakkir skildar fyrir sitt framlag.“
Verkefnisstjórn leggur til að átta nýir virkjunarkostir bætist í orkunýtingarflokk áætlunarinnar, þ.e. Skrokkölduvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Austurgilsvirkjun, Austurengjar, Hverahlíð II, Þverárdalur og Blöndulundur. Um er að ræða fjórar vatnsaflsvirkjanir með uppsett afl upp á alls 277 MW, þrjár jarðhitavirkjanir með uppsett afl allt að 280 MW og einn vindlund með uppsett afl allt að 100 MW. Ekki eru lagðar til breytingar á flokkun þeirra virkjunarkosta sem fyrir voru í orkunýtingarflokki en þeir eru alls tíu talsins. Samtals er því lagt til að átján virkjunarkostir verði flokkaðir í orkunýtingarflokk og hafa þeir samtals 1421 MW uppsett afl. Með þessari tillögu verkefnisstjórnar aukast möguleikar á orkuvinnslu um sem nemur tæpum 50% í jarðvarmaafli og um rúm 150% í vatnsafli frá 2. áfanga rammaáætlunar.
Í verndarflokk bætast við fjögur landsvæði með tíu virkjunarkostum, þ.e. Skatastaðavirkjunum C og D, Villinganesvirkjun, Blöndu – veitu úr Vestari Jökulsá, Fljótshnjúksvirkjun, Hrafnabjargavirkjunum A, B og C, Búlandsvirkjun og Kjalölduveitu. Allir nýir virkjunarkostir á landsvæðum í verndarflokki eru vatnsaflsvirkjanir. Ekki eru lagðar til breytingar á flokkun þeirra virkjunarkosta sem fyrir voru í verndarflokki en þeir eru sextán talsins. Samtals er því lagt til að 26 virkjunarkostir verði flokkaðir í verndarflokk.
Þrjátíu og átta virkjunarkostir eru í biðflokki og hafa tíu bæst við þann flokk frá fyrri áfanga. Þar af eru fjórir virkjunarkostir í jarðvarma (Trölladyngja, Innstidalur, Hágönguvirkjun og Fremrinámar), fimm í vatnsafli (Hólmsárvirkjun án miðlunar, Hólmsárvirkjun neðri við Atley, Búðartunguvirkjun, Hagavatnsvirkjun og Stóra-Laxá) og einn í vindorku (Búrfellslundur).
Sjá skýrsluna í fullri lengt hér. Lokaskýrsla verkefnisstjórnar 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar 2013 - 2017
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Verkefnisstjórn rammaáætlunar skilar ráðherra tillögum sínum“, Náttúran.is: 26. ágúst 2016 URL: http://nature.is/d/2016/08/26/verkefnisstjorn-rammaaaetlunar-skilar-radherra-til/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.