Frá KerlingarfjöllumÚrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur tekið undir kröfu Landverndar í mikilvægu máli um nýja hótelbyggingu í Kerlingarfjöllum. Tveir úrskurðir nefndarinnar fela í sér skýr skilaboð til sveitarfélaga og Skipulagsstofnunar um vandaðri undirbúning ákvarðana sem hafa áhrif á náttúru og umhverfi. Úrskurðirnir skapa mikilvæg  fordæmi fyrir stjórnsýsluna. Kæruréttur umhverfissamtaka til óháðs úrskurðaraðila var tekin upp í íslenska löggjöf árið 2011 í kjölfar fullgildingar hins alþjóðlega Árósasamnings um rétt almennings til upplýsinga um umhverfismál, þátttöku í ákvarðanatöku og réttláta málsmeðferð. Gildi þess kæruréttar hefur rækilega sannað sig með nýlegum úrskurðum nefndarinnar.

Í ágúst 2015 kærði Landvernd þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að Fannborg ehf. þyrfti ekki að umhverfismeta fyrsta áfanga af þremur í byggingu nýs hótels í Kerlingarfjöllum. Hótelið á að geta hýst 340 gesti með nútímaþægindum. Framkvæmdin er á miðhálendi Íslands. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komst að þeirri niðurstöðu að umhverfismeta bæri alla áfangana enda samrýmdist annað ekki markmiðum umhverfismatslöggjafarinnar. Krafa Landverndar byggði einmitt á þessu. Úrskurðarnefndin taldi, líkt og Landvernd byggði á, að framkvæmdir við fyrsta áfanga hótels breyttu umfangi og eðli mannvirkjagerðar og þjónustu frá því sem nú er, og hafnaði þannig skilningi Skipulagsstofnunar. 

Framkvæmdaleyfi Hrunamannahrepps til efnistöku til hótelbyggingarinnar var einnig fellt úr gildi. Gagnrýni sveitarstjórnar Hrunamannahrepps á Landvernd í fjölmiðlum í þá veru að samtökin hafi valdið tjóni með kærum sínum og fullyrðingar um að staðið hafi verið að öllum leyfisveitingum lögum samkvæmt falla því um sjálfar sig. Kröfu Landverndar um að byggingarleyfið sjálft yrði fellt úr gildi var hins vegar vísað frá úrskurðarnefndinni vegna þess að kærufrestur var liðinn. Ljóst er þó að sveitarfélagið getur ekki látið byggingarleyfi fyrsta áfanga hótelsins standa, þar sem það byggir á forsendu sem nú er brostin, þ.e. leyfisveitingin byggði á sínum tíma á því að ekki þyrfti umhverfismat fyrir fyrsta áfanga, en þeirri ákvörðun hefur nú verið hnekkt. Samkvæmt því hlýtur sveitarstórn að afturkalla byggingarleyfið.

Landvernd hefur lagt áherslu á að fyrirhuguð hótelbygging í Kerlingarfjöllum sé hin fyrsta sinnar gerðar á hálendinu, bæði að umfangi, útliti og eðli þjónustu. Hafi málið allt því mikið fordæmisgildi. Að loknum öllum þremur áföngum byggingarinnar yrðu gistirými alls 342 talsins, þar af 240 í 120 tveggja manna herbergjum. Landvernd hefur einnig bent á að alls kostar óvíst sé hvort hótelbyggingin samræmist nýrri landsskipulagsstefnu. Þá stendur yfir vinna við friðlýsingu Kerlingarfjalla en ekki er ljóst hvernig hótelbyggingin myndi falla að drögum að friðlýsingarskilmálum sem auglýstir hafa verið.

Ljóst er að kæruréttur umhverfissamtaka hefur með þessum úrskurðum sannað gildi sitt. Landvernd vonar að kærurétturinn leiði til vandaðri ákvarðana og betri stjórnsýslu í framtíðinni, líkt og reynsla erlendis hefur sýnt. 

Birt:
15. júlí 2016
Höfundur:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Nýtt hótel í Kerlingarfjöllum þarf umhverfismat“, Náttúran.is: 15. júlí 2016 URL: http://nature.is/d/2016/07/20/nytt-hotel-i-kerlingarfjollum-tharf-umhverfismat/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. júlí 2016

Skilaboð: