Forsíða bókarinnar Íslenskar fléttur.Nýlega kom út bókin Íslenskar fléttur eftir Hörð Kristinsson, grasafræðing. Hún hefur að geyma lýsingu ásamt útbreiðslukortum og litmyndum af 390 tegundum fléttna, en það er nálægt því að vera helmingur allra þeirra tegunda sem þekktar eru frá Íslandi.

Það er bókaútgáfan Opna ásamt Hinu íslenska bókmenntafélagi sem standa að útgáfunni. Auk þess hefur útgáfa bókarinnar verið styrkt af Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar, Hagþenki og Miðstöð íslenskra bókmennta.

Notendur bókarinnar geta í byrjun nýtt sér myndirnar og lýsingar á ytra útliti til að greina auðveldustu tegundir, en fyrir þá sem vilja ganga lengra eru gefin upp smásjáreinkenni og myndir af gróum sem hjálpa til að greina erfiðari tegundir. Einnig fylgja upplýsingar um efnainnihald og þalsvörun með ýmsum hjálparefnum við greininguna. Auk þess er þekkt útbreiðsla hverrar tegundar sýnd með litlu Íslandskorti líkt og er í Plöntuhandbókinni.

Fremst í bókinni eru myndskreyttar skýringar á ýmsum fræðiorðum og líkamshlutum fléttunnar. Til að forða notendum frá því að þurfa að fletta allri bókinni í leit að þeirri fléttu sem þeir eru að skoða, eru aftan til í bókinni grófir lyklar sem eiga að fækka verulega þeim myndum sem þarf að fletta upp á til samanburðar.

Íslensk nöfn hafa lengi verið til á nokkrum af þeim fléttum sem eru vel þekktar, eins og engjaskóf, geitaskóf, fjallagrös, maríugrös, skollakræða, álfabikar, litunarskófir og hreindýramosi svo einhverjar séu nefndar. Hinar eru þó miklu fleiri sem áttu sér engin íslensk nöfn þegar sú rannsóknavinna sem bókin byggir á fór af stað. Því hafa verið búin til nöfn á þessar tegundir eftir svipuðu kerfi og áður hefur verið notað bæði fyrir blómplöntur, mosa og sveppi. Þá eru ákveðnar endingar notaðar fyrir skyldar tegundir innan sömu ættkvíslar.

Hörður byrjaði að skoða og taka myndir af fléttum á námsárunum 1961, en hlaut svo styrk frá National Science Foundation í Bandaríkjunum til rannsókna á íslenskum fléttum árin 1967-1970 að loknu líffræðinámi í Þýskalandi. Styrkurinn fékkst fyrir tilstilli bandarískra sérfræðinga sem kallaðir voru til aðstoðar við skipulagningu rannsókna á landnámi plantna í Surtsey. Fyrir þennan styrk ferðaðist Hörður um Ísland sumrin 1967 og 1968 og safnaði skipulega fléttum um allt landið frá ystu annesjum inn að jöklum hálendisins. Safnið var síðan greint og unnið úr því, í fyrstu við Duke Háskóla í Bandaríkjunum, en frá 1970 á Náttúrugripasafninu á Akureyri, Líffræðistofnun Háskólans, og að lokum á Náttúrufræðistofnun Norðurlands sem síðar sameinaðist Náttúrufræðistofnun Íslands.

Birt:
7. júlí 2016
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Hörður Kristinsson „Íslenskar fléttur - ný bók eftir Hörður Kristinsson“, Náttúran.is: 7. júlí 2016 URL: http://nature.is/d/2016/07/07/islenskar-flettur-ny-bok-eftir-hordur-kristinsson/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: