Við fjölskyldan erum nýbúin að kaupa jörð og koma okkur fyrir í sveitinni en við viljum vinna að ýmsum verkefnum sem á einhvern hátt skipta máli. Aukin dýravernd og lífrænn landbúnaður finnst okkur skipta máli og við vinnum að því. Í fyrra sumar vorum við með nokkra grísi sem ólust upp úti og frjálsir á landi okkar, nú viljum við gera enn betur og vera með fleiri og hafa kjötið til sölu, handa fólki.  
Við vorum einnig með nokkra grænmetisræktun í fyrra og verðum með enn meira núna. Draumurinn er sá að fólk geti komið til okkar og verslað kannski 15 til 20 vöruflokka, fengið sé kaffi og skoðað lífið á bænum. Við erum bara að byrja svo það er ekki svo mikið að sjá í augnablikinu.  

Grísir eru ótrúlega skemmtileg og gæf dýr. Það er óhætt að umgangast þá framan af, það eina sem þarf að gæta sín á er að þeir geta stundum verið full aðgangsharðir í matinn ef svo ber undir. Ég og krakkarnir mínir gáfum þeim bara matinn úr fötum og þeir komu alveg upp að okkur. Það var smá púsl að koma í þá vatni en með löngum garðslöngum tókst það skammlaust.
Í sumar langar okkur að gera þetta með varanlegri hætti, leggja vatnslagnir, búa til girðingar og skýli ásamt fleiru og þannig verður þetta vonandi að varanlegu verkefni hjá okkur og getum þá í kjölfarið boðið upp á svínakjöt undan frjálsum svínum um komandi ár. Við viljum sem sagt horfa til framtíðar með þetta verkefni okkar því þannig leggjum við okkar að mörkum í bættri umönnun og velferð dýra. Þess vegna erum við að leita eftir aðstoð og vonumst til að fólk sem hefur dýravelferð að leiðarljósi sé tilbúið að aðstoða okkur. 

Við kaupum grísina mjög unga frá svínabúinu og fóðrum þá upp í slátur stærð. Þeir koma til okkar þegar fer að hlýna í lok maí og verja öllu sumrinu frjálsir úti á túni. Um haustið, sirka september, fara þeir svo í nokkrum hollum í sláturhúsið og þaðan í kjötvinnslu. Allt kjötið er unnið af fagmönnum og við seljum það pakkað og tilbúið beint til neytenda. Það sem við vorum með í fyrra tókst alveg frábærlega. Beikonið var æðislegt, hamborgarhryggurinn var dásamlegur jólamatur og almennt var kjötið mjög þétt í sér og bragðgott. Það er trú okkar að þetta sé eina rétta leiðin við að ala svín og er það von okkar að þetta framtak okkar opni augu neytenda og að fleiri svínabændur taki þetta skref við að ala svín. Við viljum gefa neytendum kost á að kaupa sér svínakjöt vitandi til þess að svínin hafi átt gott líf og lifað við góðan aðbúnað á meðan þau lifðu.

Verkefnið á Karolina fund

Birt:
9. júní 2016
Höfundur:
Hallur Hróarsson
Tilvitnun:
Hallur Hróarsson „Útisvín í Ölfusi“, Náttúran.is: 9. júní 2016 URL: http://nature.is/d/2016/06/09/utisvin-i-olfusi/ [Skoðað:14. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: