Landsnet úrskurðað til að afhenda skýrslu um jarðstrengi
Landsneti var skylt að afhenda Landvernd skýrslu um jarðstrengi, samkvæmt nýföllnum úrskurði. Landsnet neitaði að afhenda skýrsluna í mars í fyrra en Landvernd kærði málið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Skýrslan er á ensku og ber heitið „High Voltage Underground Cables in Iceland“. Landsnet lét gera skýrsluna.
Í skýrslunni er greint frá niðurstöðum rannsókna á lagningu jarðstrengja við íslenskar aðstæður, en að mati Landverndar þyrfti að vinna frekari samanburð mismunandi aðferða við lagningu strengja. Það er ekki síst mikilvægt nú í kjölfar nýfallinna dóma Hæstaréttar í eignarnámsmálum landeigenda á Suðurnesjum og ákvörðunar umhverfisráðuneytis vegna Blöndulínu 3. Án slíks samanburðar fæst ekki trúverðug mynd af þeim möguleikum sem jarðstrengjalagnir hafa. Að mati Landverndar er um mikilvægan úrskurð að ræða, en hingað til hefur lítið reynt á lög um upplýsingarétt um umhverfismál. Úrskurðurinn eykur upplýsingagjöf til almennings og ber að fagna því. Ljóst er þó að tíminn sem tekur að úrskurða er alltof langur. Skýrslan er nú aðgengileg á vefsíðu Landverndar.
Forsaga málsins er sú að Landsnet hf. gaf út íslenska samantekt ofangreindrar skýrslu í febrúar 2015. Í henni var vitnað til enskrar útgáfu, sem ekki fékkst afhent. Landvernd kærði Landsnet til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem gerði Landsneti hf. nú í maí skylt að afhenda skýrsluna. Upplýsingar um fjárhags- og viðskiptahagsmuni Landsnets og aðila í viðskiptum við fyrirtækið eru þó undanskildar.
Í ensku skýrslunni eru ítarlegri upplýsingar um lagningu jarðstrengja, m.a. í hrauni við Hafnarfjörð, en finna mátti í íslenskri samantekt hennar. Með nýlegum dómum Hæstaréttar um eignarnámskröfu Landsnets gagnvart landeigendum á Suðurnesjum gerir dómurinn þá kröfu að Landsnet greini frá því hvar jarðstrengir geti legið, hver umhverfisáhrif þeirra séu og kostnaður m.t.t. þjóðhagslegrar hagkvæmni. Nú þegar fyrirtækinu er gert að ráðast í þessa vinnu, mun hin nýbirta skýrsla Landsnets án efa nýtast. Það er þó með þeim fyrirvörum að nauðsynlegt er að Landsnet endurskoði strengverð sem hefur lækkað á síðastliðnu ári, hugi að gengisbreytingum og viðhafi ítarlegri samanburð fleiri aðferða við lagningu strengja en gert er í skýrslunni, en án slíks samanburðar fæst ekki trúverðug mynd af þeim möguleikum sem jarðstrengjalagnir hafa. Sama vinna þarf að fara í gang á öðrum svæðum á landinu þar sem fyrirtækið hyggur á stórframkvæmdir.
Landvernd skorar enn og aftur á Landsnet að taka jarðstrengi inn sem raunverulegan valkost við loftlínur. Í skýrslu Landsnets segir m.a. að í mörgum löndum geti umhverfismat og leyfisferli vegna byggingar loftlínu tekið allt að 5-10 ár á meðan ferli vegna jarðstrengja tekur gjarnan styttri tíma. Þetta eitt og sér geti leitt til þess að hagkvæmara sé að leggja jarðstreng út frá arðsemissjónarmiðum. Undir þetta er tekið í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis í september 2015 þar sem segir: „Því lengur sem úrbætur dragast þeim mun meiri verður kostnaðurinn af óhagkvæmu flutningskerfi auk þess sem afhendingaröryggi og gæði raforku er teflt í tvísýnu. Til lengri tíma litið eru þessi neikvæðu áhrif þyngri á metunum en kostnaðarmunur milli ólíkra uppbyggingarvalkosta, t.a.m. milli ólíkra línustæða eða lagningar jarðstrengja.“ Það er því alveg ljóst að vinnubrögð Landsnets þurfa að breytast ef framkvæmdir í raforkukerfinu eiga ekki að tefjast enn frekar en orðið er.
Landvernd fagnar úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál, en lítið hefur reynt á lög um upplýsingarétt um umhverfismál hingað til. Landvernd lýsir þó jafnframt yfir áhyggjum af löngum úrskurðartíma nefndarinnar, en hann reyndist lengri en heilt ár. Árósasamningurinn sem fjallar um rétt almennings til upplýsinga, þátttöku og réttlátrar málsmeðferðar í umhverfismálum, kveður á um að málsmeðferð í úrskurðum sem þessum eigi að vera skilvirk og tímanleg. Hún var það alls ekki í þessu tilfelli og mikilvægt að bæta úr því.
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd „Landsnet úrskurðað til að afhenda skýrslu um jarðstrengi“, Náttúran.is: 1. júní 2016 URL: http://nature.is/d/2016/06/01/landsnet-urskurdad-til-ad-afhenda-skyrslu-um-jards/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.