Landvernd og Fjöregg í Mývatnssveit hafna því að raflínur Landsnets verði lagðar um náttúruverndarsvæði við Leirhnjúk. Hafa samtökin kært leyfi Skútustaðahrepps til lagningar Kröflulínu 4, frá Kröflu að Þeistareykjum. Leirhnjúkshraun á að friðlýsa samkvæmt lögum um verndun Mývatns og Laxár. Þrátt fyrir það stendur nú til að leggja Kröflulínu 4 yfir þetta verðmæta náttúruverndarsvæði. Samtökin telja forsendur eldra umhverfismats brostnar og margvíslega annmarka vera á leyfisveitingunni sem varði ógildingu hennar. Nauðsynlegt sé að endurskoða val Landsnets á línuleið, sneiða hjá Leirhnjúkshrauni og umhverfismeta jarðstrengi. Eftir að áform um álver á Bakka voru slegin af eru forsendur framkvæmda gjörbreyttar vegna minni raforkuþarfar iðnaðarsvæðisins. Opnast því möguleikar á minni og umhverfisvænni mannvirkjum, ekki síst jarðstrengjum sem ekki fari um hraun. Samtökin telja óhjákvæmilægt að nýtt umhverfismat fari fram og að yfirvofandi framkvæmdir í Leirhnjúkshrauni verði stöðvaðar.

Kröflulína 4 er fyrirhuguð 220kV háspennulína í lofti frá Kröflu að Þeistareykjum. Er línunni ætlað af fara yfir Leirhnjúkshraun sem rann í Mývatnseldum 1726-1728. Þeistareykir eru á náttúruminjaskrá og Leirhnjúkshraun nýtur sérstakrar verndar sem eldhraun samkvæmt náttúruverndarlögum og á að friðlýsa hraunið skv. lögum um verndun Mývatns og Laxár. Því er ljóst að um afar verðmæt svæði er að ræða. Umhverfisstofnun sagði í umsögn sinni um umhverfismat sem gert var árið 2010 að lagning loftlína myndi hafa talsverð neikvæð og óafturkræf áhrif á Leirhnjúkshraunið og verulega neikvæð áhrif á landslagsheild svæðisins.

Í mars 2015 óskuðu Landvernd og Fjöregg, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, eftir því að Skipulagsstofnun tæki ákvörðun um gerð nýs umhverfismats fyrir Kröflulínu 4, frá Kröflu að Þeistareykjum. Forsendur eldra umhverfismats væru gjörbreyttar eftir að álver á Bakka hefði verið slegið út af borðinu enda væri raforkuþörf kísilvers einungis um tíundi hluti þess sem álver hefði kallað eftir. Þar með opnuðust bæði möguleikar á minni raflínum í lofti eða í jörð, og annarri línulegu, sem hefðu minni umhverfis- og samfélagsleg áhrif. Skipulagsstofnun vísaði erindi samtakanna frá á þeim grundvelli að þau ættu ekki lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu. Skipulagsstofnun hefur haft til skoðunar samskonar erindi frá landeigendum í Reykjahlíð í meira en ár, án þess að komast að niðurstöðu.

Landvernd og Fjöregg telja að nýgengnir dómar Hæstaréttar um eignarnámskröfur Landsnets á Suðurnesjum hafi fordæmisgildi. Segir í dómunum að m.a. hafi átt að skoða með viðhlítandi hætti „hvar slíkur strengur gæti legið eða hver yrðu umhverfisáhrif hans og kostnaður af lagningu hans eftir atvikum með tilliti til þjóðhagslegrar hagkvæmni, sbr. 1. gr. raforkulaga”. Að sömu niðurstöðu hafði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála áður komist varðandi Kröflulínu 3, frá Kröflu í Fljótsdal. Skipulagsstofnun hefur einnig komist að sömu niðurstöðu varðandi Blöndulínu 3. Ljóst er því að engar framkvæmdir í flutningskerfi raforku verða, nema raunverulegt mat hafi verið lagt á lagnaleiðir jarðstrengja sem valkosts í umhverfismati. Ekkert mat var lagt á umhverfisáhrif jarðstrengja og mögulegar lagnaleiðir þeirra í umhverfismati háspennulína frá Kröflu til Bakka árið 2010. Meira en ár er liðið frá ábendingum Landverndar og Fjöreggs um endurgerð umhverfismats Kröfulínu 4 og ljóst að Landsnet hefur haft nægan tíma til að meta hvar jarðstrengur gæti legið og umhverfisáhrif hans. Eftir því sem fyrirtækið dregur það lengur, tefur það enn frekar fyrir framkvæmdum í raforkukerfinu, á kostnað þjóðarhagsmuna.

Ákvörðun um framkvæmdaleyfi Skútustaðahrepps er að mati Landverndar og Fjöreggs haldin fjölmörgum ágöllum og er því ógildanleg. Samtökin telja að stjórnsýslulög hafi verið brotin við undirbúning og töku ákvörðunar, auk þess sem hún fari í bága við almenna náttúruverndarlöggjöf á Íslandi, sérlög um verndun Mývatns og Laxár, skipulagslöggjöf og lög um mat á umhverfisáhrifum.

Landsnet hefur þegar gengið til samninga um vinnu við lagningu línuvega og gerð undirstaða undir háspennumöstur og stefnt er að því að verkinu verði lokið hinn 1. ágúst 2016. Framkvæmdir í Leirhnjúkshrauni eru óhafnar, en að óbreyttu vofir því yfir að hrauninu verði raskað á óafturkræfan hátt. Í ljósi þessa leggja Landvernd og Fjöregg fram kröfu um stöðvun yfirvofandi framkvæmda til bráðabirgða á meðan úrskurðað er í málinu.

Birt:
19. maí 2016
Tilvitnun:
Landvernd, Fjöregg – félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit „Umhverfisverndarsamtök hafna raflínum um verndarsvæði í Mývatnssveit “, Náttúran.is: 19. maí 2016 URL: http://nature.is/d/2016/05/19/umhverfisverndarsamtok-hafna-raflinum-um-verndarsv/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: