Ríkið brýtur á almenningi og umhverfisverndarsamtökum
Brotið er á réttindum almennings og umhverfisverndarsamtaka samkvæmt niðurstöðu eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá í síðustu viku, sem nú hefur verið birt. Niðurstaðan er í samræmi við skýrslu Landverndar frá árinu 2014.
Niðurstaða ESA er að íslensk lög tryggi ekki rétt almennings og umhverfisverndarsamtaka þegar kemur að kærurétti í umhverfismálum. Ekki er nægilegt að geta kært ákvarðanir og athafnir yfirvalda, heldur þarf líka að vera hægt að kæra þegar stjórnvöld aðhafast ekki – athafnaleysi. Um er að ræða brot á tveimur alþjóðasamningum, Árósasamningnum og EES-samningnum. Breyta þarf íslenskum lögum til að uppfylla þessar alþjóðaskuldbindingar. Bregðist Ísland ekki við fyrir 4. júlí, höfðar ESA mál gegn ríkinu fyrir EFTA dómstólnum.
Árið 2011 fullgilti Ísland Árósasamninginn, alþjóðasamning um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings og réttláta málsmeðferð í umhverfismálum. Samningurinn tryggir m.a. kærurétt almennings og umhverfissamtaka. Ári síðar var regla sama efnis tekin upp í EES-samninginn. Landvernd og fleiri aðilar, einstaklingar og samtök, hafa allt frá árinu 2013, meðal annars í kjölfar Gálgahraunsmálsins svokallaða, haldið því fram að ýmislegt væri brogað við framfylgd þeirra réttinda er þessir alþjóðasamningar veita.
Í kjölfar skýrslu sem Landvernd lét gera árið 2014 um framkvæmd Árósasamningsins á Íslandi, og sendi til tveggja alþjóðastofnana er fara með eftirlit með framangreindum samningum, hóf ESA rannsókn á meintu broti íslenska ríkisins. Ákvörðun ESA frá fyrri viku er annað stigið af þremur í s.k. samningsbrotamáli gegn íslenska ríkinu.
ESA krefst þess nú að íslenska ríkið breyti lögum til að tryggja að almenningur og samtök hans geti leitað til óháðs úrskurðaraðila þegar um er að ræða athafnaleysi stjórnvalda í umhverfismálum. Íslenska ríkið hélt því fram að sá réttur væri tryggður hér á landi og vísaði m.a. til tveggja úrskurða úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála, stjórnsýslulaga og þess að kvarta mætti til Umboðsmanns Alþingis. ESA féllst ekki á röksemdir íslenska ríkisins. Úrskurðarnefndin geti í dag ekki fjallað um athafnaleysi stjórnvalda. Stjórnsýslulög tryggi heldur ekki þennan rétt og álit Umboðsmanns Alþingis séu ekki skuldbindandi að lögum. Bregðist íslensk stjórnvöld ekki við ákvörðun ESA vísar stofnunin málinu til EFTA-dómstólsins. Íslenska ríkið hefur frest til 4. júlí 2016 til að færa löggjöfina til samræmis við alþjóðaskuldbindingar.
Viðbrögð íslenskra stjórnvalda skipta miklu fyrir almenning og félagasamtök sem gæta hagsmuna almennings í umhverfismálum, og þar með fyrir umhverfis- og náttúruvernd í landinu. Ákvörðun stjórnar ESA nr. 90/16/COL, frá 4. maí 2016 í máli nr. 75769 ásamt lista yfir málsgögn, má finna á vefsíðu ESA, þar sem einnig er að finna fréttatilkynningu stofnunarinnar á íslensku.
Fréttatilkynning frá Landvernd
Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar í síma 863-1177.
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd „Ríkið brýtur á almenningi og umhverfisverndarsamtökum“, Náttúran.is: 10. maí 2016 URL: http://nature.is/d/2016/05/10/rikid-brytur-almenningi-og-umhverfisverndarsamtoku/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.