Áskorun á ríkisstjórn Íslands að grípa til ráðstafana til bjargar lífríki Mývatns og Laxár
Landvernd skorar á ríkisstjórn Íslands að grípa þegar til ráðstafana til bjargar lífríki Mývatns og Laxár. Fram hefur komið í fréttum að undanförnu að lífríki vatnsins sé í bráðri hættu vegna næringarefnaauðgunar. Ofauðgunin hefur leitt til mikils vaxtar blágerla, svokallaðs leirloss, í vatninu sem dregur úr birtuskilyrðum í vatnsbol og á botni og þar með vexti þörunga, undirstöðufæðu vatnsins. Kúluskíturinn er horfinn af botni, hornsílastofninn hefur aldrei verið minni og bleikjan er svipur hjá sjón miðað við það sem áður var.
Að mati Landverndar er afar mikilvægt að sameina krafta sveitarstjórnar, ríkisvalds og ferðaþjónustuaðila á svæðinu og grípa til allra mögulegra aðgerða sem draga úr áhrifum mannsins á lífríki svæðisins, ekki síst vegna skólplosunar. Einnig þarf að kanna næringarefnalosun úr brotsárum á námasvæðum vatnsins eftir kísilgúrnámið á sínum tíma og hvaða þýðingu hún hefur varðandi það ástand sem uppi er og til hvaða aðgerða megi þá grípa.
Skútustaðahreppur hefur lýst því yfir að hann, einn og sér, hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir í fráveitumálum svo draga megi úr mengun frá ferðaþjónustu og annarri starfsemi. Landvernd skorar því á ríkisstjórnina að hlaupa undir bagga með sveitarfélaginu í þeim efnum og enn fremur að tryggja fjármagn til frekari rannsókna. Aðkoma ríkisvaldsins er bráðnauðsynleg til að vernda lífríki Mývatns og Laxár.
Þegar horft er til framtíðarnýtingar á svæðinu verður lífríki Mývatns og Laxár ávallt að njóta vafans. Forðast ber alla röskun af mannavöldum á næringarefnaflæði til vatnsins. Mikil óvissa fylgir t.d. frekari jarðvarmanýtingu í Bjarnarflagi og á Kröflusvæðinu er við kemur þessu atriði.
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Snorri Baldursson „Áskorun á ríkisstjórn Íslands að grípa til ráðstafana til bjargar lífríki Mývatns og Laxár“, Náttúran.is: 4. maí 2016 URL: http://nature.is/d/2016/05/09/askorun-rikisstjorn-islands-ad-gripa-til-radstafan/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. maí 2016