Umhverfisvaktin við Hvalfjörð kærir leyfisveitingu Umhverfisstofnunar til framleiðsluaukningar Norðuráls
Nýlega samþykkti Umhverfisstofnun nýtt starfsleyfi fyrir Norðurál með umtalsverðri aukningu á framleiðslu áls. Meðfylgjandi er kæra Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð til Úrskurðarnefnar umhverfis- og auðlindamála sem stjórn vaktarinnar hefur samþykkt að senda frá sér vegna þessa.
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð vonar að tekið verði tillit til atriðanna sem hún hefur svo oft lagt áherslu á og vinnur staðfastlega að því að koma í gegn. Hér að neðan er kærubréfið í fullri lengd:
Þann 16. desember 2015 gaf Umhverfisstofnun út nýtt starfsleyfi fyrir Norðurál ehf. á Grundartanga, með gildistíma frá 16. des. 2015 til 16. des. 2031. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð, kt: 591110-1520, leggur hér með fram kæru til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna ákvörðunar Umhverfisstofnunar.
Kæruefni og rökstuðningur:
Kært er að Umhverfisstofnun skuli veita Norðuráli nýtt starfsleyfi sem felur í sér framleiðsluaukningu um 50.000 tonn af áli á ári og losunarheimildir fyrir flúor sem gera Norðuráli mogulegt að sleppa langtum meira flúori út í andrúmsloftið en var árið 2014, en það starfsár hefur Norðurál notað sem viðmið um getu sína til að draga úr losun flúors.
Norðurál hafði starfsleyfi sem gilti til 2020 og heimilaði 300.000 tonna ársframleiðslu áls. Á undanförnum árum hefur Norðurál talið sig geta framleitt ál þannig að ekki þyrfti að nýta þann losunarkvóta á flúori, sem iðjuverinu var heimilt samkvæmt fyrra starfsleyfi.
Umhverfisvaktin minnir á að ein af forsendum þess að framleiðsluaukning Norðuráls fór ekki í umhverfismat var yfirlýsing Norðuráls um að með bættum mengunarvörnum yrði komið í veg fyrir aukna flúorlosun þrátt fyrir framleiðsluaukninguna.
Í nýja starfsleyfinu hefur Umhverfisstofnun dregið örlítið úr heimild Norðuráls til losunar flúors. Engu að síður er núverandi staða þannig að vilji álverið nýta losunarkvóta sinn á flúori, þá mun útsleppi flúors aukast um rúm 52% miðað við þá losun sem iðjuverið gefur upp fyrir árið 2014. Það ár framleiddi iðjuverið um 300.000 tonn áls en tókst að eigin sögn að takmarka losun flúors við 0,320 kg á hvert tonn áls.
Flúorlosun Norðuráls á Grundartanga mun, samkvæmt upplýsingum iðjuversins hafa numið um 96 tonnum af flúori árið 2014. Hefði Umhverfisstofnun byggt ákvörðun sína á þessum upplýsingum um árangur Norðuráls, og gert ráð fyrir að metnaður iðjuversins til sem minnstrar losunar flúors yrði enn til staðar, hefði útsleppi flúors aukist í 112 tonn á ári í nýja starfsleyfinu, þ.e. aukning um 16 tonn sem eru rúm 15 % m.v. árið 2014.
Með nýja starfsleyfinu heimilar Umhverfisstofnun Norðuráli að losa 0,470 kg flúors á hvert tonn áls upp að 320.000 tonna ársframleiðslu og 0,430 kg flúors upp að 350.000 tonna ársframleiðslu. Þannig hefur iðjuverið leyfi til að sleppa 150,5 tonnum flúors miðað við að nýta rétt sinn til 350.000 tonna ársframleiðslu, og með því að nýta að fullu heimild sína til losunar flúors. Um yrði að ræða 52,32% aukningu á útsleppi flúors miðað við árið 2014, og þar með gríðarlegt svigrúm fyrir Norðurál til aukinnar losunar flúors, með tilheyrandi áhættu. Ekki má gleyma því að íbúar við Hvalfjörð munu fá að taka þessa áhættu á sig í boði Umhverfisstofnunar. Því er svo við að bæta að samkvæmt nýja starfsleyfinu verður engar upplýsingar hægt að fá um það hvenær mikið útsleppi flúors á sér stað, en það veldur mestum skaða.
Bændur, aðrir íbúar, svo og eigendur frístundahúsa við Hvalfjörð, að ógleymdum fjölmörgum ferðamönnum og útivistarfólki, þurfa að lifa með þeirri staðreynd að ekki eru til upplýsingar um og styrk og áhrif loftmengunar af völdum flúors í umhverfi þeirra. Slík óvissa rýrir bæði lífsgæði fólks og eignir þess, auk ýmissa annarra óþæginda sem enginn vill búa við.
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hefur ítrekað vakið athygli á eftirfarandi atriðum, meðal annars í athugasemdum sínum við tillögu Umhverfisstofnunar um nýtt starfsleyfi Norðuráls, dags. 19. 10. 2015 og gert kröfur um úrbætur.
- Flúormengun er aðeins mæld hálft árið og engin fullvissa hefur verið gefin um að vöktun vegna flúors verði aukin. Í greinargerð með nýja starfsleyfinu segir að Umhverfisstofnun sé „samþykk breytingum“ á þessu og sé “að skoða” að setja inn vöktun á flúori allt árið. Enn er því óvissa um hvort, hvenær og hvernig unnt verður að nálgast niðurstöður mælinga á flúormengun, allt árið um kring. Umhverfisstofnun hefur ekki sinnt þeirri ósk að niðurstöðurnar mælinga verði birtar í rauntölum jafnframt því að birta meðaltöl.
- Ekki hafa farið fram rannsóknir á áhrifum viðvarandi flúormengunar á íslenskt búfé. Viðmið um þol búfénaðar á flúori eru m.a. byggð á gamalli rannsókn á norskum dádýrum. Bændur búa við óvissu varðandi búfénað sinn, en hann er grundvöllur undir afkomu þeirra.
- Íbúar geta ekki fylgst með flúormengun á rauntíma. Eins og sakir standa er aðeins hægt að fylgjast með mengun aftur í tímann, einu sinni á ári þegar umhverfisvöktunarskýrsla iðjuveranna á Grundartanga kemur út.
- Reynslan hefur sýnt, að mengungarslys getur orðið án þess að íbúar séu varaðir við (sbr. slysið sem varð 2006). Viðbragðsáætlun fyrir íbúa við Hvalfjörð vegna mengunarslysa í Norðuráli er ófullnægjandi. Umhverfisstofnun hefur samþykkt að bæta inn í starfsleyfi ákvæði um að Norðurál skuli tryggja að búfjáreigendur í Hvalfjarðarsveit og Kjós fái upplýsingar um það ef hreinsivirki verksmiðjunnar er úr rekstri í þrjár klst. eða lengur. Þessi tími er allt of langur miðað við þann skaða sem flúor veldur. Þar að auki ætti að sjáfsögðu að vara alla íbúa við. Athygli er vakin á leikskólinum Skýjaborg sem er aðeins steinsnar frá iðjuverinu. Kröfu Umhverfisvaktarinnar um viðbragðsáætlun til handa íbúum við Hvalfjörð hefur ekki verið mætt.
- Norðurál hefur í hendi sér utanumhald umhverfisvöktunar vegna eigin mengunar. Umhverfisstofnun virðist telja þetta fyrirkomulag gott, því það sé hluti af umhverfisstjórnun iðjuversins. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð fellst ekki á þau rök og telur að hægt sé að koma á góðri umhverfisstjórn innan iðjuversins án þess að það sé í lykilhlutverki í allri umhverfisvöktun vegna eigin mengunar.
- Umhverfisvaktin við Hvalfjörð sem er félag íbúa við Hvalfjörð og annars áhugafólks um náttúruvernd, telur eðlilegt að vera hluti af samráðshópi um framgang skilyrða starfsleyfis Norðuráls, rekstur, mengunarvarnir, vöktun og önnur atriði sem ræða þarf. Umhverfisvaktin fer hér með fram á að verða boðuð á samráðsfundina og hafa þar sama rétt og aðrir fundarmenn.
Norðurál hefur fengið rétt til framleiðsluaukningar og aukinnar losunar flúors, sem raun ber vitni, samkvæmt nýja starfsleyfinu. Jafnvel þó loforð hafi verið gefin um að losun flúors aukist ekki við framleiðsluaukninguna, sýnist óhjákvæmilegt að svo verði, enda hefur iðjuverið heimild til losunar 150,5 tonna flúors, átölulaust af hálfu íslenskra stjórnvalda.
Umhverfisvaktin við Hvalfjorð fer fram á að Norðurál þurfi að sýna fram á með óyggjandi hætti að það geti haldið útsleppi flúor innan þess ramma sem það sjálft hefur gefið til kynna að það ráði við, þ.e. 96 tonn á ári. Bent skal á að Alcoa Fjarðaál hefur leyfi til að losa 0,350 kg flúors per tonn af áli. Iðjuverin tvö eru álíka gömul, að undanskyldum elsta hluta Norðuráls.
Í ljósi alls ofanritaðs krefst Umhverfisvaktin við Hvalfjörð þess að starfsleyfi fyrir Norðurál frá 16. 12. 2015 verði fellt úr gildi. Jafnframt er þess krafist að ákvörðun um veitingu nýs starfsleyfis verði ekki tekin fyrr en eftirfarandi skilyrðum hefur verið fullnægt:
- Flúormengun hafi verið mæld allt árið utan þynningarsvæðis í a.m.k. tvöár.
- Vísindalegar rannsóknir hafi farið fram á áhrifum langtíma flúormengunar á íslenskt búfé.
- Upplýsingar um stöðu flúormengunar verði gefnar á rauntíma.
- Búin verði til haldgóð viðbragðsáætlun vegna mengunarslysa í iðjuverinu þar sem íbúum verður tafarlaust gert viðvart ef hreinsivirki bilar (nota má sms skilaboð svipað og Rarik notar með góðum árangri).
- Umhverfisvöktun vegna eigin mengunar hafi verið tekin úr höndum Norðuráls og færð í hendur þar til bærra opinberra aðila.
- Norðurál hafi sýnt fram á að geta starfað eftir sambærilegum viðmiðum um losun flúors og Alcoa Fjarðaál starfar eftir.
Virðingarfyllst,
Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð.
Birt:
Tilvitnun:
Ragnheiður Þorgrímsdóttir „Umhverfisvaktin við Hvalfjörð kærir leyfisveitingu Umhverfisstofnunar til framleiðsluaukningar Norðuráls“, Náttúran.is: 16. janúar 2016 URL: http://nature.is/d/2016/01/16/umhverfisvaktin-vid-hvalfjord-kaerir-leyfisveiting/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.