Ísland í hóp ríkja sem þrýsta á um metnaðarfullt samkomulag
Ísland vill að loftslagssamkomulag í París verði metnaðarfullt, en verði ekki bara einföld umgjörð utan um innsend markmið ríkja. Fjölmörg ríki hafa á síðustu dögum lýst yfir stuðningi við að tryggja hátt metnaðarstig í samningnum undir merkjum „Bandalags um mikinn metnað“. Ísland hefur lýst yfir stuðningi við þessa hreyfingu og mætti Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra á fund ráðherra í bandalaginu í dag.
Bandalagið er ekki samningahópur í viðræðunum, en ríkin í því hafa lýst yfir stuðningi við nokkur lykilmarkmið sem enn er tekist á um í viðræðunum. Þar á meðal er að tryggt verði að markmið ríkja verði endurskoðuð reglulega á 5 ára fresti og að sett verði upp öflugt bókhaldskerfi. Einnig vilja ríkin öll taka tillit til sjónarmiða smáeyjaríkja um að vísað sé í markmið um að reyna að halda hlýnun innan við 1,5 gráður. Í Bandalaginu eru bæði þróuð ríki og þróunarríki, en með því vilja ríkin sýna að breiður hópur ríkja með ólíkar aðstæður séu sammála um að tryggja metnað í Parísarsamkomulaginu.
Í dag liggja formlegar viðræður að mestu leyti niðri eftir stranga samningalotu síðustu nótt. Þá var farið yfir nýjustu samningsdrög sem Frakkar hafa lagt fram, en lítið þokaðist varðandi helstu deilumál sem út af standa, þótt andi viðræðna hafi verið góður. Í dag eiga Frakkar samráð við helstu ríkjahópa til að reyna að leysa þá hnúta sem eftir eru áður en nýr texti verður kynntur á morgun, laugardag. Þau ágreiningsmál sem eftir eru lúta einkum að metnaðarstigi og eftirfylgni markmiða, fjármögnun og ábyrgðarskiptingu þróaðra ríkja og þróunarríkja.
Umhverfis- og auðlindaráðherra tók þátt í fundi norrænna umhverfisráðherra í dag. Þar var farið yfir stöðu mála í samningaviðræðunum og voru ráðherrarnir sammála um að tryggja þyrfti að samningurinn yrði metnaðarfullur. Almenn ánægja var með samningsdrögin sem nú liggja fyrir, en ljóst er að mikið verður tekist á um mikilvæg mál á lokasprettinum og óvíst hversu langt endanlegt samkomulag nær. Norðurlöndin reka í fyrsta sinn sameiginlegan kynningarskála á þingi Loftslagssamningsins og er mikil ánægja með hvernig til hefur tekist.
Birt:
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Ísland í hóp ríkja sem þrýsta á um metnaðarfullt samkomulag“, Náttúran.is: 11. desember 2015 URL: http://nature.is/d/2015/12/11/island-i-hop-rikja-sem-thrysta-um-metnadarfullt-sa/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.