Ný samningsdrög kynnt í París
Forseti 21. Aðildaríkjaþings loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP21), Laurent Fabius, kynnti í dag ný drög að hnattrænum samningi um aðgerðir í loftslagsmálum, með þátttöku allra ríkja.
Í ræðu á stuttum fundi í dag þar sem samningsdrögunum var dreift sagði Fabius að búið væri að ná saman að mestu leyti um mikilvæg atriði á borð við hvernig standa skuli að aðlögun að loftslagsbreytingum, tækniyfirfærslu o.fl. Enn á þó eftir að komast að niðurstöðu um veigamikil atriði er varða m.a. fjármögnun aðgerða, eftirfylgni með markmiðum ríkja til lengri tíma og ábyrgðarskiptingu milli ríkja og ríkjahópa. Drögin nú eru miklum mun skýrari en þau sem viðræðuhópur skilaði til þingsins um síðustu helgi og dregur betur fram kosti varðandi helstu ágreiningsefni. Fabius sagði að vel hefði miðað, en enn væri þó mikil vinna eftir á lokasprettinum.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir ánægjulegt að kominn sé skriður á viðræðurnar. „Tilfinningin er sú að nú þokist hratt í samkomulagsátt en björninn er þó ekki unninn. Þótt búið sé að landa mikilvægum atriðum er varða einstaka þætti samningsins á eftir að tengja þá saman og búa til heildarramma utan um nýtt samkomulag. Næstu sólarhringar fara í að sníða þennan ramma og ég er vongóð um að það takist.“
Hröð bráðnun jökla
Fyrr í dag ávarpaði ráðherra gesti á hliðarviðburði Veðurstofu Íslands um bráðnun jökla á Norðurslóðum sem haldinn var í norræna skálanum á Parísarfundinum. Á fundinum fóru vísindamenn frá Íslandi og Danmörku yfir þær öru breytingar sem orðið hafa á ísþekju á Norðurlöndum og horfurnar framundan. Þá var kynnt samnorrænt verkefni, SVALI, um vöktun þessara breytinga.
Birt:
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Ný samningsdrög kynnt í París“, Náttúran.is: 9. desember 2015 URL: http://nature.is/d/2015/12/09/ny-samningsdrog-kynnt-i-paris/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.