Hálendisvegur. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Landsnet hf. hefur lagt fram tillögu sína að matsáætlun fyrir umhverfismat 220 kV háspennulínu yfir Sprengisand (Sprengisandslínu). Skipulagsstofnun hefur tillöguna nú til umfjöllunar og hefur óskað eftir athugasemdum við hana í síðasta lagi 17. nóvember n.k.

Með því að skrifa undir áskorunina, tekur þú undir meginkröfu Landverndar í málinu og nýtir lýðræðislegan rétt þinn til áhrifa á ákvarðanatöku í samfélaginu. Meginkrafan er að Landsnet hf. falli frá áformum um Sprengisandslínu og að Skipulagsstofnun hafni matsáætlun fyrirtækisins.

Áskorunin er eftirfarandi:

Ég skora á Landsnet hf. að falla þegar í stað frá áformum fyrirtækisins um Sprengisandslínu og krefst þess að Skipulagsstofnun hafni áætlun þess um umhverfismat línunnar.

Sprengisandslína myndi kljúfa landslagsheildir og víðerni miðhálendisins í tvennt, skerða upplifun ferðamanna og möguleika á útivist og ferðaþjónustu. Hálendið eins og við þekkjum það í dag, myndi tilheyra fortíðinni. Mun fleiri eru andvígir Sprengisandslínu (43%) en fylgjandi (25%) samkvæmt könnun Gallup í mars 2015. Kanna ber einnig aðrar línuleiðir en um Sprengisand.

  • Falli Landsnet ekki frá áformum sínum er það krafa mín að Skipulagsstofnun hafni matsáætlun Landsnets sökum verulegra annmarka á áætluninni, þ.m.t.:
  • Landsnet gerir ekki ráð fyrir jarðstreng á hálendinu nema á 50 km kafla. Valkostur um jarðstreng alla leið er lágmarkskrafa í umhverfismati.
  • Landsnet hefur neitað að veita almenningi aðgang að nýlegri sérfræðiskýrslu um jarðstrengi. Lágmarkskrafa er að upplýsingum sé hvorki haldið frá Skipulagsstofnun né almenningi. Landvernd hefur kært málið.
  • Landsnet gerir ekki ráð fyrir að meta sameiginlega umhverfisáhrif Sprengisandslínu og háspennulína í byggð, frá Blöndu í Fljótsdal. Krefjast verður sameiginlegs umhverfismats.
  • Landsnet byggir áætlun um Sprengisandslínu á raflínuáætlun (kerfisáætlun) frá 2014. Landvernd hefur krafist ógildingar á þeirri áætlun fyrir dómi.

Miðhálendið býr yfir fágætum verðmætum. Þar er hægt að upplifa lítt snortna náttúru og njóta einveru og kyrrðar. Ég vil halda í þessi verðmæti og mótmæli fyrirætlunum Landsnets um lagningu háspennulínu yfir Sprengisand.

Virðingarfyllst,

…………(nafn þitt) Skora á Landsnet og Skipulagsstofnun (smella hér).

Hægt er að kynna sér efni matsáætlunarinnar á vefsíðu Landsnets.

Þú getur stutt við náttúruverndarbaráttuna með því að gerast félagsmaður í Landvernd.

Nánari upplýsingar um framkvæmdahugmyndir á Sprengisandi er að finna á www.hjartalandsins.is

Birt:
13. nóvember 2015
Höfundur:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Áskorun til Landsnets og Skipulagsstofnunar“, Náttúran.is: 13. nóvember 2015 URL: http://nature.is/d/2015/11/13/askorun-til-landsnets-og-skipulagsstofnunar/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: