Loftslagsgangan í Reykjavík - Global Climate March
Þann 29. nóvember ætlar almenningur um heim allan að flykkjast út á götu og krefjast aðgerða í loftslagsmálum fyrir fund Sameinuðu þjóðanna í París í byrjun desember, en markmið fundarins er að þjóðir heimsins nái bindandi samkomulagi um samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda. Við ætlum líka að láta í okkur heyra, endurtaka leikinn frá því í fyrra og ganga Loftslagsgöngu í Reykjavík en hún hefst frá Kárastíg kl. 14:00.
Við viljum undirstrika þá kröfu að Ísland axli ábyrgð sína í loftslagsmálum, dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda og hætti við öll áform um olíuvinnslu á Drekasvæðinu.Um er að ræða alheimsviðburð því sams konar göngur munu fara fram í París, New York, Kaupmannahöfn, London, Róm, Tokyo, Berlín, Jóhannesarborg, Nýju Dehli, Melbourne og fjölda annarra borga um heim allan. Búist er við að viðburðurinn í ár verði jafnvel stærri en viðburðurinn í september í fyrra, en hann var sá stærsti tengdur loftslagsmálum í sögunni.
Safnast verður saman á svo kölluðu „Drekasvæði“ sem staðsett er á horni Kárastígs, Frakkastígs og Njálsgötu, þaðan sem gengið verður til kröfufundar á Lækjartorgi. Skýrsluhöfundar IPCC (Intergovernmental Panel on Climate Change) hafa tekið af öll tvímæli um að verði haldið áfram á sömu braut muni öfgar í veðri valda miklum hörmungum um víða veröld, hvort sem er í formi þurrka, hitabylgna eða æ ofsafengnari fárviðra. Einnig gæti yfirborð sjávar hækkað um allt að einn metra fyrir næstu aldamót og heimshöfin súrna hratt vegna síaukinnar losunar koltvísýrings út í andrúmsloftið. Súrnun sjávar mun líklega hafa graf alvarlegar afleiðingar fyrir Ísland sem fiskveiðiþjóð, rétt eins og hækkun yfirborðs sjávar ógnar framtíð þeirra þjóða sem byggja láglendar eyjar í Kyrrahafi.
Eina leiðin til að minnka skaðann er að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda á komandi árum. Krafa loftslagsgöngunnar er er að stjórnvöld axli ábyrgð, virði skuldbindingar landsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og taki undir ítrustu kröfur um frekari samdrátt á vettvangi Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna. Ennfremur að Ísland setji sér metnaðarfull markmið um samdrátt gróðurhúsaloftteguna til að kröfur um aðgerðir verði trúverðugar. Ríkisstjórn Íslands ber að taka undir málflutning Filipseyja og eyríkja sem mest er ógnað af völdum loftslagsbreytinga. Ennfremur er þess krafist, þar sem við horfum fram á óhjákvæmilegar afleiðingar útblásturs gróðurhúsalofttegunda á undanförnum 150 árum, að stjórnvöld hafi víðtækt samráð við almenning jafnt sem fyrirtæki og stofnanir um vinnu að aðgerðaáætlun um hvernig best sé að bregðast við breyttu loftslagi, breytingum á lífkerfi sjávar og viðbúnum auknum straumi flóttafólks.
Mætum og látum í okkur heyra!
-
Loftslagsgangan í Reykjavík
- Staðsetning
- None Kárastígur 1
- Hefst
- Sunnudagur 29. nóvember 2015 14:00
- Lýkur
- Sunnudagur 29. nóvember 2015 15:00
Tengdir viðburðir
Birt:
Tilvitnun:
Náttúruverndarsamtök Íslands „Loftslagsgangan í Reykjavík - Global Climate March“, Náttúran.is: 27. nóvember 2015 URL: http://nature.is/d/2015/11/04/loftslagsgangan-i-reykjavik-global-climate-march/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 4. nóvember 2015
breytt: 27. nóvember 2015