Urriðaganga við Öxará
Haustið er gengið í garð og stórurriðar af Öxarárstofni sem ætla að hrygna þetta haustið hafa flestir skilað sér upp á riðin í Öxará. Þessir þreknu íbúar Þingvallavatns fá áhugasamt fólk í heimsókn til sín laugardaginn 17. október þegar árleg fræðsluganga til kynningar á Þingvallaurriðanum verður haldin á bökkum Öxarár. Kynningin hefst kl 14:00 við bílastæðið þar sem forðum stóð Valhöll.
Þetta er 13. haustið í röð sem Laxfiskar í samvinnu við Þjóðgarðinn á Þingvöllum halda slíka kynningu. Risaurriðar og aðrir minni sem veiddir hafa verður hægt að skoða á meðan fræðslugöngunni stendur meðal annars í stóru fiskabúri sem gefur börnum og öðrum stærri færi á að virða þennan konung íslenskra ferskvatnsfiska vel fyrir sér.
Að vanda mun Jóhannes Sturlaugsson fara yfir ýmsa megin þætti sem varða lífshætti og umhverfi Þingvallaurriða auk þess sem tæpt er á nýmeti upplýsinga frá rannsóknum Laxfiska á Þingvallaurriða. Dæmi um slíkt nýmeti nú eru upplýsingar frá merkingum Laxfiska í sumar á urriðum sem stangveiddir voru í Ölfusvatnsárósi í vor og sumar. Fáeinir þeirra fiska hafa nú þegar gengið í Öxará til hrygningar auk þeirra sem sést við hrygningu Í Ölfusvatnsánni.
Öxæringarnir sem dokuðu við í Ölfusvatnsárósi á ætisgöngu sinni í Þingvallavatni í vor og sumar undirstrika mikilvægi þess að mörkuð sé samræmd heildarstefna við veiðar og aðra umgengni í Þingvallavatni öllu, í ljósi þess að urriðinn nýtir allt vatnið. Tiltæk rannsóknagögn vitna samt sem áður um mun í dreifingu urriðanna í Þingvallavatni með hliðsjón af stofnum þeirra en bitastæðustu gögnin hingað til varða urriða af Öxarárstofni.
Rannsóknir Laxfiska sem hófust í sumar á urriðum í sunnanverðu Þingvallavatni munu gefa ítarlega innsýn í það hvað greinir urriðastofnana helst að annað en hrygningasvæðin og það hvar seiði þeirra taka út vöxt sinn í upphafi ævi sinnar.
-
Urriðaganga við Öxará
- Staðsetning
- None Þingvellir
- Hefst
- Laugardagur 17. október 2015 14:00
- Lýkur
- Laugardagur 17. október 2015 16:00
Tengdir viðburðir
Birt:
Tilvitnun:
Jóhannes Sturlaugsson „Urriðaganga við Öxará“, Náttúran.is: 16. október 2015 URL: http://nature.is/d/2015/10/16/urridaganga-vid-oxara/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.