Norræn (orku)skilvirkni – Nýtt tölublað „Green Growth the Nordic Way“
Nýjasta tölublað „Green Growth the Nordic Way“ kemur út í tengslum við viðburðinn World Efficiency, sem fram fer í París 13.–15. október í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar COP21. Þar munu Norræna ráðherranefndin og sendiráð Norðurlandanna í Frakklandi kynna fjölda grænna lausna, úr einkageiranum svo og opinbera geiranum, undir yfirskriftinni „Norræn skilvirkni“.
Í nýjasta tölublaði „Green Growth the Nordic Way“ má lesa um spennandi, notendadrifna nýsköpun innan vébanda Nordic Built Cities, þriggja ára áætlunar til að stuðla að bættu borgarskipulagi og þéttbýlisþróun á Norðurlöndum og víðar.
Nordsyn, verkefni um skilvirkni í orkumálum, miðar að því að efla norrænt samstarf um vistvæna hönnun og orkumerkingar og er um leið ætlað að vera innblástur fyrir önnur Evrópusambandslönd sem eru að innleiða tilskipanir framkvæmdastjórnar ESB í þessum málaflokkum.
Í blaðinu er einnig fjallað um norrænt samstarf á sviði orkumála og raforkumarkaðinn Nord Pool Spot, samþættasta millilandamarkað heims fyrir orku.
Kynningunni á norrænni skilvirkni á viðburðinum World Efficiency verður fylgt eftir með norrænum sýningarskála á COP21. Nánari upplýsingar eru í hinu væntanlega tölublaði „Green Growth the Nordic Way“.
Birt:
Tilvitnun:
Norden - Norræna ráðherranefndin „Norræn (orku)skilvirkni – Nýtt tölublað „Green Growth the Nordic Way““, Náttúran.is: 13. október 2015 URL: http://nature.is/d/2015/10/13/norraen-orkuskilvirkni-nytt-tolublad-green-growth-/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.