Kúrbíturinn þ. 30. júní 2015. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Sami kúrbítur 20 dögum seinna, þ. 20. júlí. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Kúrbíturinn vegur 1,62 kg. uppskorinn þ. 20. júlí 2015. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Kúrbítum eða Succini [Cucurbita pepo pepo] sáði ég til þann 19. apríl 2015. Ég gróðursetti tvær kúrbítsjurtir í óupphituðu plastgróðurhúsi af einföldustu gerði þ. 8. júní.

Þann 30. júní er jurtin orðin stór og myndarleg og einn fallegur kúrbítur kemst á legg en fjöldi blóma blómstraði þó.

Kannski hefði ég átt að pota í blómin og frjóðva þau en það gerði ég ekki. Er eitthvað feimin við slíkar aðfarir en sennilega er ekki nóg að treysta á þær flugur sem villast inn í gróðurhúsið. Samt hef ég það opið allan daginn þegar veður leyfir.

Ég hefði betur hlustað á vinkonu mína Hildi Hákonardóttir sem segir að það þurfi að frjóvga kúrbít (sjá grein með fjölda uppskrifta).

Fyrsta kúrbítinn uppskar ég síðan í fyrradag þ. 20. júlí enda orðin ansi stór. Við vigtun reyndist hann vera 1,62 kg. og smakkast dýrðlega. Hann mun duga í nokkrar máltíðir.

Þessi reynsla kennir mér að það sé auðvelt að rækta kúrbít hér á landi í sæmilegu gróðurskýli en að ég hafi ýmislegt að læra varðandi frjóvgun.

Það eru þó fleiri kúrbítar að braggast núna, bæði á þessari sömu jurt og nágranna þess enda er sumaruppskeran rétt að byrja.

 

Birt:
July 22, 2015
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Kúrbíturinn stóri“, Náttúran.is: July 22, 2015 URL: http://nature.is/d/2015/07/22/kurbiturinn-stori/ [Skoðað:June 23, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: