Séð yfir Hvalfjörðinn.Umhverfisvaktin við Hvalfjörð þakkar forsvarsmönnum sameignarfélagsins Faxaflóahafna kurteislegt bréf frá 12. 5. 2015 með svörum við spurningum tengdum Silicor Materials Inc. frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð, dags. 28. 4. 2015.
Spurningar Umhverfisvaktarinnar voru bornar fram vegna einhliða upplýsinga um starfsemi Silicor Materials Inc (Silicor). Svör Faxaflóahafna bæta því miður ekki miklu við fyrri upplýsingar sem flestar hefur mátt lesa áður í fjölmiðlum. Þau ná ekki að byggja upp nauðsynlegt traust á Silicor. Iðjuverið er enn sem fyrr á tilraunastigi og upplýsingar um stöðu þess sem slíks koma mest frá því sjálfu sem er að sjálfsögðu ekki æskilegt.

Umhverfisvaktin hefur ýmislegt við orðræðu Faxaflóahafna að athuga. Lögð er áhersla á að Silicor sé um það bil mengunarlaust. Flestir vita að stóriðja er aldrei mengunarlaus og þetta „um það bil“ lofar ekki góðu í ljósi sögunnar. Silicor yrði öflug viðbót við efnamengun, sjónmengun, hávaðamengun og ljósmengun sem nú þegar fylgir stóriðjunni á Grundartanga og myndi hafa ófyrirséð samlegðaráhrif með hinum iðjuverum þar. Í kjölfarið myndu lífsgæði fólksins sem hefur hlotnast sú gæfa að búa og ráða löndum í Hvalfirði skerðast á þann hátt að óbærilegt verður fyrir marga. Í þessu sambandi er rétt að benda á að sanngjörn krafa neytenda um upprunamerkingar matvæla verður sífellt háværari.

Umhverfisvaktin gerir fleiri athugasemdir við orðræðu Faxaflóahafna t.d. þá að stóriðja sé réttlætanleg vegna mikillar atvinnusköpunar. Þarna er verið að blanda saman tveimur ólíkum málefnum. Stóriðja skaðar náttúru og lífríki. Þess vegna á ekki undir nokkrum kringumstæðum að koma henni fyrir í landbúnaðarhéraði. Atvinna er annað mál og mikilvægt, en það er ekki atvinnuleysi við Hvalfjörð. Vegna Silicor þyrfti að flytja starfsmenn tugi kílómetra með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda og jafnvel sækja þá til útlanda. Einnig þyrfti að flytja varning til og frá verksmiðjunni á sjó og landi með ómældri mengun. Þessi atriði hafa ekki verið tekin inn í heildarmyndina, ekki frekar en versnandi lífsgæði íbúa og landeigenda við Hvalfjörð vegna áhrifa frá Grundartanga.

Hér á eftir má sjá spurningar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð (feit- og skáletruð) til Faxaflóahafna og svör þeirra:

1. Getur Umhverfisvaktin við Hvalfjörð fengið í hendur allar skýrslur sem lagðar hafa verið fram um væntanlega starfsemi Silicor Materials á Grundartanga og öll gögn sem liggja að baki skýrslunum? Jafnframt óskar Umhverfisvaktin upplýsinga um, hvar og undir hvaða kringumstæðum hið nýja framleiðsluferli Silicor Materials var prófað erlendis.

Sú starfsemi sem Silicor Materials áformar er tilkynningarskyld samkvæmtlögum um mat á umhverfisáhrifum. Það felst í því að framkvæmdaraðili tilkynnir framkvæmdina til Skipulagsstofnunar. Skipulagsstofnun leitar álits sérfræðistofnana og viðkomandi svetarfélaga á erindinu og tekur síðana ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati eða ekki.
Silicor Materials tilkynnti Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framleiðslu á sólarkísil á Grundartanga í mars 2014. Með erindi Silicor fylgdu gögn og upplýsingar um áformaða starfsemi sem skilað var Skipulagsstofnun. Gögnin eru aðgengileg á vefsíðu Skipulagsstofnunar.

Framleiðsuferli Silicor Materila var sannreynt og þróað í verksmiðju félagsins í Toronto í Kanada. Þá hafa viðskiptavinir félagsins nýtt sólarkísil með ágætum árangri.

Svar við bréfi þessu fylgir minnislykill þar sem finna má helstu gögn Faxaflóahafna sf. um verkefnið og sem geta upplýst um forsendur ákvörðunar.

2. Silicor Materials er ungt fyrirtæki með nýja tækni við hreinsun kísils. Á Grundartanga er stefnt að því að stórauka framleiðslu sem hefur aðeins verið á tilraunastigi í tvö ár, en það er of stuttur tími til að sannreyna ferlið.
Hefur verið gerð áhættugreining vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar og starfsemi Silicor Materials á Grundartanga? Ef svo er óskar Umhverfisvaktin eftir að fá hana í hendur. Hafi slík greining ekki verið gerð er beðið um skýringar á því.

Faxaflóahafnir sf. hafa þær upplýsingar að saga þeirra rannsókna sem búa að baki framleiðsluferli Silicor sé æði löng og megi rekja til fyrstu sólarhlaðanna (sólarsellanna) sem framleidd voru 1958. Síðan þá hafa menn sífellt verið að leita leiða til þess að framleiða þær á sem ódýrastan hátt. Rannsóknirnar byggjast á rannsóknum háskóla- og rannsóknarstofnana í Norður Ameríku og Evrópu.

Margvísleg áhættugreining og áreiðanleikakannanir hafa verið unnar á framleiðsluferlinum og verkefninu sjálfu og er niðurstaða þeirra allra jákvæð, þ.e. hvað varðar fjárfestingu, tækni og umhverfisáhrif, sem eru metin  óveruleg.
Hvað varðar framleiðsluferið sjálft er mikilvægt að hafa í huga að stuðst er við vel þekkta aðferðir úr málmvinnslu. Ferlið sem Silicor er að nota hefur verið þróað og betrumbætt á undanförnum 8 árum, þ.a. í samstarfi við þýska fyrirtækið SMS Siemag en það fyrirtæki var stofnað 1871 og er leiðandi á heimsvísu á þessu sviði.

Vefsíða Silocor Materilas veitir ágætar upplýsingar um framleiðsluferilinn (www.silcormaterials.com).
Allnokkur reynsla er komin á framleiðsluaðferð Silicor. Þegar hafa verið framleidd 70 tonn af sólarkísil, og úr þeim yfir 20 milljón sólarhlöð. Sólarkísillinn hefur staðist allar gæðakröfur viðskiptavina og virkni sólarhlaðanna uppfyllt væntingar. Megnið af tækjabúnaði Silicor er þrautreyndur staðalbúnaður í málmvinnslu. Þá er mikilvægt að hafa í huga að þýska fyrirtækið SMS Siemag ábygist framleiðslugetu Silicor og sér um tækjabúnaðinn.

3. Faxaflóahafnir sf. hafa ekki látið vinna sérstaka áhættugreiningu á vinnsluferlinu en vísar til umhverfisfyrirspurnar Silicor, úrskurðar Skipulagsstofnunar og skýrslu Environice, sem er á minnislyklinum.
Einungis hafa verið framleidd 5 -700 tonn af hreinum kísil með hinni nýju aðferð Silicor Materials í Kanada. Áætluð ársframleiðsla Silicor Materials á Grundartanga er um 19.000 tonn. Mjög lítil reynsla er komin á framleiðsluna. Finnst forsvarsmönnum Faxaflóahafna réttlætanlegt að sannreyna tilraunastarfsemi Silicor Materials á náttúru og lífríki Hvalfjarðar?

Vísað er til þess sem fram kemur í svari við spurningu númer 2. Miðað við þá lýsingu sem þar er að fina er það mat Silicor að næg framleiðslureynsla sé fyrir hendi og því ekki um tilraunastarfsemi að ræða.
Eftirfarandi er svo við að bæta:
Styrkur verkefnisins liggur í hinni nýju tækni sem hlífir umhverfinu og er því ekki í andstöðu við náttúur og lífríki. Útstreymi koltvísýrings (CO2) er áætlað um 100-800 tonn á ári sem mun vera svipað og frá meðalstóru mjólkurbúi á Íslandi með 35 kýr (500 tonn á ári af CO2).
Environice, umhverfisráðgjafafyrirtæki undir forystu Stefáns Gíslasonar umhverfisstjórnunarfræðings vann úttekt fyrir Hvalfjarðarsveit og komst að þeirri niðurstöðu: „Fyrirhuguð verksmiðja Silicor Matrials á Grundartanga stefnir í að verða „umhverfisvænasta stóriðja á Íslandi til þessa“. Ástæða þess er að sú nýja tæknin, sem fyrirtækið hefur þróað og hefur einkarétt á, leysir af hólmi eldri aðferðir sem eru þekktar fyrir að hafa neikvæð áhrif á umhverfið.
Minnisblað Environice fylgir með á minnislykli.

4. Í hvaða löndum hefur Silicor Materials reynt að selja viðkomandi tækni?

Vísað er til eftirfarandi upplýsinga frá Silicor:
„Silicor Meterials hefur ekki reynt að selja eigin tækni heldur hyggst félagið nýta hana sjálf:

Fyrirhugað er að beita nýju framleiðsluferli sem Silicor Materials hefur einkaleyfi á, en í því er kísillinn hreinsaður með því að bræða hann í fljótandi áli. Þegar bráðin er kæld fellur út kísill af þeim hreinleika sem þarf við framleiðslu á sólarhlöðum. Framleiðslan mun felast í að hreinsa 99,5% hreinan kísil með því að minnka magn bórs, fosfórs og ýmissa málma í kísilnum. Þannig er fyrirhugað að fá 99,9999% hreinan kísil sem nota má í sólarhlöð. Bráðið ál verður notað sem eins konar hreinsilögur á kísilinn, til að fjarlægja óhreinindin sem bindast frekar áli en kísil.
Undirbúningur að þróun þessarar aðferðar hófst árið 2006 og þróunarvinnan hófst síðan árið 2009. Sú þróunarvinna skilaði góðum árangri og árið 2010 var lítlli verksmiðju komð á fót í Toronto í Kanada sem fram til þessa hefur framleitt um 700 tonn af sólarkísil með þessari aðferð. Reynslan af verksmiðjunni í Toronto gaf góða raun og árið 2012 var tekin ákvörðu um að hefja undirbúning að verkmðju í fullri stærð.

Upphaflegar áætlanir Silicor Materials um uppbyggingu verksmiðju í fullri stærð gerður ráð fyrir því að hún yrði staðsett í Missisippiríki í Bandaríkjunum. Vegna umtalsverðra viðskiptahindrana á milli Bandaríkjanna og Kína, sem er helsta framleiðsluland sólarhlaða í heiminum, neyddist Silicor Materials til þess að hverfa frá þeim áformum og leita að vænlegum stað fyrir verksmiðjuna utan Bandaríkjanna. Niðurstaðan varð að hefja undirbúning að uppgyggingu verksmiðju á Grundartanga á Íslandi. Þeir þættir, sem höfðu áhrif á ákvörðun um það staðarval voru sterk samfélagsgerð, aðgengi að sjálfbærri orku, aðgangur að vel menntuðu starfsfólki og fríverslunarsamningur Íslands við Kína. Nú er stefnt að byggingu verksmiðju á Grundartanga á Íslandi.

5. Hefur sameignarfélagið Faxaflóahafnir nýtt sér ráðgjöf aðila sem hafa starfað fyrir Silicor Materials á Íslandi? Hvaða stöðu og sérþekkingu hefur ráðgjafarfyrirtækið VSÓ og aðrir sem hafa lagt mat á fyrirhugaða starfsemi Silicor Materials á Íslandi, til að leggja óháð mat byggt á sérfræðiþekkingu á starfsemi verksmiðjunnar? Umhverfisvaktin leggur áherslu á að það eru t.d. ekki nægjanleg rök að efnaverkfræðingur sé til staðar hjá viðkomandi ráðgjafarfyrirtæki.

Silicor hefur skilað gögnum og farið í gegnum þau ferli sem íslensk lög gera ráð fyrir til að fyrirtæki geti hafið starfsemi hér á landi. Fjöldi ráðgjafa á vegum opinberra og einkaaðila hefur yfirfarið forsendur verkefnisins sbr. yfirlýsingu Skipulagsstofnunar sem fylgir gögnum á minnislykli. Faxaflóahafnir sf. hafa ekki keypt þjónustu vegna verkefnisins af aðilum sem starfa fyrir Silicor á Íslandi en hafa haft aðgang að gögum frá þeim.
Faxaflóahafnir sf. keyptu þjónustu af VSÓ vegna annarra óskyldra verkefna en hvorki geta né vilja leggja sérstak mat á hæfi eða sérfræðiþekkingu VSÓ umfram önnur fyrirtæki, sem hafa langa reynslu af framkvæmdum og ráðgjöf á Íslandi. Eðlilegast er að beina þeirri spurningu til fyrirtækisins sjálfs.

6. Forsvarsmenn Reykjavíkurborgar heilluðust af hugmyndinni um tækni við Hellisheiðarvirkjun á sínum tíma. VSÓ var álitsgjafi Reykjavíkurborgar varðandi virkjunina en þar fer fram umdeild tilraunastarfsemi sem nú veldur vandræðum. Finnst Faxaflóahöfnum að það eigi að bjóða náttúru og lífríki Hvalfjarðar upp á meiri tilraunastarfsemi varðandi mengandi iðnað? Er ekki hægt að læra eitthvað af Hellisheiðarvirkjun og núverandi stöðu mengunarmála vegna stóriðju á Grundartanga?

Það er ekki á verksviði Faxaflóahafna sf. að meta Hellisheiðarvirkjun eða sjálfstæð ráðgjafafyrirtæki. Varðandi verkefni Sillicor er vísað til niðurstöðu Skipulagsstofnunar og yfirlýsingar þar sem segir m.a.:

„Skipulagsstofnun telur að áhrif starfseminnar á loftgæði og gæði yfirborðsvatns verði óveruleg. Því veldur fyrst og fremst að unnið er að því að fullhreinsa hráefni sem er mjög hreint þegar það er tekið til vinnslu og framleiðslan ferur ekki í sér útblástur og útskolun mengunarefna, heldur er unnið með lokaðan framleiðsluferil þar sem öll framleiðslan og hliðarafurðir nýtast sem söluvara. Starfsemin felur hvorki í sér útblástur af flúor né brennisteinsdíoxíði og hefur því engin áhrif á stærð þynningarsvæðis fyrir iðjuverin á Grundartanga eða aukið mengunarálag innan þess.“

Samkvæmt upplýsingum frá verkfræðistofunni VSÓ hefur fyrirtækið aldrei starfað sem álitsgjafi Reykjavíkurborgar vegna Hellisheiðarvirkjunar né kom að hönnun hennar.

7. Umhverfisvaktin minnir á að tvær nýjustu verksmiðjurnar á Grundartanga störfuðu lengi á undanþágu með samþykki Umhverfisstofnunar, en það þýðir mengun eftir „þörfum“ fyrirtækisins. Hafa forsvarsmenn Faxaflóahafna hugsað sér að Silicor Materials starfi á undanþágu fyrst í stað? Ef svo er, þá hversu lengi? Faxaflóahafnir eru beðnar að skýla sér ekki á bak við Umhverfisstofnun þegar þessari spurningu verður svarað.

Sú starfsemi sem Silicor Materials áformar er tilkynningarskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í samræmi við það tilkynnti Silicor Skipulagsstofnun um framkvæmdina og skilaði til stofnunarinnar öllum nauðsynlegum gögnum og upplýsingum. Í framhaldi af því fór Skipulagsstofnun yfir gögnin og leitaði álits sérfræðistofnana og viðkomandi sveitarfélaga. Því næst komst Skipulagsstofnjn að þeirri niðurstöðu að starfsemi verksmiðjunnar „sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.“ Í rökstuðninig stofnunaarinnar fyrir niðurstöðunni segir:

„Skipulagsstfofnun telur að áhrif starfseminnar  á loftgæði og gæði yfirborðsvatns verði óveruleg. Því veldur fyrst og fremst að unnið er að því að fullhreinsa hráefni sem er mjög hreint þegar það er tekið til vinnslu og framleiðslan felur ekki í sér útblástur eða útskolun mengunarefna, heldur er unnið með lokaðan framleiðsluferil þar sem öll framleiðslan og hliðarafurðir nýtast sem söluvara. Starfsemin felur hvorki í sér útblástur af flúor né brennisteinsdíoxíði og hefur því engin áhrif á stærð þynningarsvæðisins fyrir iðjuverin á Grundartanga eða aukið mengunarálag innan þess. Sú mengun sem berst frá starfseminni til andrúmslofts er ryk en miðjað við framlagðar upplýsingar um magn og samsetningu þess telur Skipulagsstofnun að áhrif að földum þess verði óveruleg.“

Sérstök athygli er vakin á niðurlagi Skipulagsstofnunar þar sem segir:

„Sú framleiðsluaðferð, notkun hættulegra efna og umhverfisáhrif sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum að undanförnu í tengslum við áform Silicor Materials á Grundartanga er ekki í samræmi við þá starfsemi sem tilkynnt var til Skipulagsstofnunar og stofnunin tók afstöðu til í ákvörðun sinni. Þegar kemur að leyfisveitingum til framkvæmdarinnar, þ.e. útgáfa Umverfisstofnunar á starfsleyfi og sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar á framkvæmdaleyfi, þurfa þessir leyfisveitendur að ganga úr skugga um að framkvæmdin sé sú sama og lýst var í þeim gögnum sem framangreind ákvörðun Skipulagsstofnunar byggði á.“

8. Í upphafi kynningar á Silicor Materials var ekki minnst á flúormengun frá iðjuverinu, aðeins talað um „óverulega mengun“ sbr. ummæli efnaverkfræðings hjá VSÓ sem hafði einnig unnið fyrir Silicor, og forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar. Báðir þessir aðilar sem svo oft hefur verið vitnað til virðast annaðhvort ekki hafa séð þennan veigamikla þátt eða að hann hafi ekki skipt máli í þeirra augum. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hafði þá þegar ákveðið að ekki skyldi aukið við flúormengun frá Grundartangasvæðinu og kvikaði ekki frá þeirri ákvörðun. Silicor Materials tók þá til við að breyta vinnsluferlinu til að koma í veg fyrir losun flúor, að sögn forsvarsmanna. Fyrst ekki var sagt satt og rétt frá í upphafi, má velta fyrir sér hverju megi eiga von á síðar. Við álbræðslu er flúor nauðsynlegur og við hreinsun kísils er notað brætt ál. Geta Faxaflóahafnir lagt á borðið fullnægjandi sannanir um að Silicor Materials muni ekki losa flúor út í andrúmsloftið?

Faxaflóahafnir eru ekki opinber eftrilitsaðili sem fjallar um slík mál en bendir á álit Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar í þessum efnum. Þar er skýrt kveðið á um að ekki sé flúormengun.
Vísað er til upplýsinga Silicor um efni spurningarinnar:
„Í matsskyldufyrirspurn sem lögð var fyrr Skipulagsstofnun kemur fram að flúorefni er notað í einu af frameliðsuskrefum Silicor. Hvergi er verið að reyna að leyna því í framlögðum gögnum. Þar kemur einnig fram að engin flúormengun fylgi rekstrinum. Í niðurstöðum loftgæðamælinga sem gerðar voru í ferlinum í Kanada kemur fram að ekki mælist flúr í útblæstrinum. Í framhaldi prófana sem gerðar voru í Þýskalandi á notkun efnistins sem innhélt flúroefnið kom í ljós að hægt er að nota annað efni sem ekki innheldur flúr í stað þess. Ákvörðun hefur verið tekin um að nota það efni á Grundartanga og verður því ekkert efni sem innheldur flúor notað við framleiðsluna hjá Silicor á Grundartanga .
Engin flúroefni eru notuð við að bræða álið í verksmiðju Silicor og engin þörf a´því .“

Ástæða er einnig til þess að benda á að við breytingu á aðal- og deiliskipulagi þess svæðis sem tekur til fyrirhugaðrar lóðar Silicor eru ákvæði sem taka sérstakleg á banni við losun flúors og brennisteinsdíoxíðs og er vísað til viðeigandi ákvæða í skipulagsgögnum þar að lútandi.

9. Hvernig verður unnt að mæla hvort flúor kemur frá verksmiðju Silicor Materials þar sem henni er ætlaður staður rétt hjá álveri Norðuráls?

Í áliti Skipulagsstofnunar stendur að flúormengun sé ekki til staðar:
„Starfsemin felur hvorki í sér útblástur af flúor né brennisteinsdíxíð og hefur því engin áhrif á stærð þynningarsvæðis fyrir iðjuverin á Grundartanga eða aukið mengunarálag innan þess.“

Í starfsleyfi sem gefið verður út fyrir Silicor er kveðið á um vöktunaráætlun fyrir verksmiðjuna. Þar verða sett skilyrði um að ekki sé notaður flúor í útblæstrinum. Ekkert inn – ekkert út.

10. Þegar talað er um „óverulega mengun“ er meðal annars átt við um 60 tonn af ryki sem fari árlega út í andrúmsloftið frá fyrirhugaðri verksmiðju Silicor Materials. Hvaða eiturefni munu verða í þessu „ryki“ og í hvaða magni?

Engin eiturefni eiga að vera í ryki sem tilkynnt er um að komi frá starfseminni. Efnasamsetning kemur fram í matsskyldufyrirspurninni frá Silicor. Bent hefur verið á að fyrirhuguð starfsemi Silicor sé afar ólík öðrum verkefnum sem fyrirhuguð eru á Íslandi um þessar mundir. Í umfjöllun er „sólarkísilframleiðslu“ gjarnan ruglað saman við „kísilverksmiðjur“. Án þess að fara í sérstakan samanburð á framleiðsluferli mismunandi fyrirtækja er rétt að benda á að samantekt Umhverfisstofnunar um áhrif nokkurra iðnverkefna:

Í  þessari töflu frá Umhverfisstofnun sést glöggt á hvaða forsendum Skipulagsstofnun byggði úrskurð sinn um að verkefnið þyrfti ekki að fara í umhverfismat.

 

11. Talað er um „lokaða ferla“ hjá verksmiðju Silicor Materials. Lítið hefur verið fjallað um mengun innan verksmiðjunnar sjálfrar þar sem gert er ráð fyrir að 350- 400 manns vinni að staðaldri. Umhverfisvaktin spyr hvort hægt sé að fá greinargóða lýsingu á starfsaðstæðum innan veggja fyrirhugaðrar verksmiðju.

Í verksmiðju Silicor er hitaálag líklega það sem mun hafa mest áhrif á þann hluta vinnuumhverfis sem næst er þeirri starfsemi. Unnið er með málmbráð sem er um 800 - 900 gráða heit. til þess að mæta þessu hitaálagi þarf loftræsikerfi og einnig mun sjálfvirknivæðing verða mjög mikil, sem dregur verulega úr þörf starfsmanna til þess að vera nálægt heitustu stöðunum. Fyrirtækið þarf að uppfylla öll lög og reglugerðir sem gilda um starfsumhverfi og mun Vinnueftirlit ríkisins fylgjast með því að þessar kröfur séu uppfylltar.

12. Iðjuverin á Grundartanga halda sjálf utan um umhverfisvöktun vegna starfsemi sinnar. Mun þetta fyrirkomulag einnig gilda um Silicor Materials? Enn og aftur eru Faxaflóahafnir beðnar að skýla sér ekki á bak við Umhverfisstofnun þegar þessari spurningu verður svarað.

Í starfsleyfum fyrirtækjanna eru settar fram kfr0fur um innra eftirlit. Faxaflóahafnir sf. hafa ekkert með það eftirlit að gera og er það í höndum viðkomandi eftirlitsaðila. Í þessu efni er þó minnt á umsögn Faxaflóahafna sf. frá árinu 2010 um þá vöktunaráætlun sem nú er unnið eftir á Grundartanga. Þar var m.a. lögð áhersla á eftirfarandi:

a) Afar mikilvægt er að Umhverfisstofnun staðfesti niðurstöður umhverfisvöktunar á Grundartanga og ábygist að niðurstöður þeirra séu réttar. Sú staðfesting er forsenda þess að unnt sé að leggja upplýsingar og gögn fram sem trúverðuga grundvallar umhverfisupplýsingu fyrir Grundartanga og nágrenni.

b) Aðgengi sveitarfélaga, fyrirtækja og almennings að þeim mælingum sem gerðar eru er afar mikilvægur þáttur, sem lagt er til að verði bætt verulega frá því sem nú er. Lagt er til að Umhverfisstofnun gefi mælingar á svæðinu út árlega og birti þær á heimasíðu stofnunarinnar. Í því sambandi er einnig mikilvægt að framsetning upplýsinganna sé skýr og auðskilin almenningi.

c) Sem hluti vöktunaráætlunar á Grundartanga og nágrennis sbr. starfsleyfi iðjuveranna á Grundartanga er mikilvægt að herða á framkvæmd tilkynningarskyldu og viðbragðsferla þegar einhverjir hlutir fara úrskeiðsi. Þessi atriði má með einföldum hætti bæta, nágrönnum og öllu umhverfinu til frekara öryggis.

Umsögnina má í heild finna á meðfylgjandi minnislykli.

Í umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar, vegna ákvörðunartöku síðarnefndu stofnunarinnar um matsskyldu verksmiðju Silcor Materials, kemur fram að sú fyrrnefnda leggur áherslu  á að fyrirtækið taki þátt í sameiginlegri mengunarvöktun fyrirtækja á Grundartangasvæðinu. Silicor Materials mun fylgja leiðsögn eftirlitsstofnana í þessum efnum.

Af hálfu Faxaflóahafna sf. hefur verið gerð úttekt á umhverfismálum, sbr. skýrslu frá árinu 2013 sem er á minnislyklinum. Þá fengu Faxaflóahafnir sf. Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri til að mæla ákveðna þætti sjávargæða við Grundartanga og þær niðurstöður eru á minnislyklinum.

Faxaflóahafnir munu áfram fylgjast með niðurstöðum rannsókna samkvæmt vöktunaráætlun og útiloka ekki að viðhafa sjálfstæðar mælingar á þáttum sem efni standa til að mæla.

13. Gríðarleg hávaða- og sjónmengun er nú þegar frá Grundartanga. Tilkoma Silicor Materials mun gera hana langtum verri. Hennar gætir mest sunnan megin fjarðar, í Kjós. Hvernig hafa forsvarsmenn Faxaflóahafna hugsað sér að eyða þessari mengun þannig að íbúar við fjörðinn megi vel við una?

Mannvirkin sem verða reist fyrir starfsemina verða sýnileg, enda lóð fyrirtækisins stór. Varðandi hávaða þá þarf fyrirtækið að uppfylla kröfur í lögum og reglum, sem reyndar eru nokkuð hertar í aðal- og deiliskipulagi frá því sem verið hefur. Fyrirtækið mun þurfa að uppfylla allar gildandi kröfur í skipulagi, lögum og reglugerðum um hávaða. Þá er vísað til upplýsinga, sem fram komu á fundi þann 30. apríl s.l. þar sem farið var yfir niðurstöður hljóðmælinga á liðnu ári. Fram hefur komið að hálfu Norðuráls ehf. og ELKEM Island ehf. að vilji sé til þess að vinna að enn frekari takmörkun á því að hljóð berist frá svæðinu. Af hálfu Faxaflóahafna sf. er vilji til þess að kanna hvernig haga megi ljósabúnaði þannig að birtu sé sem innst beint út fyrir hafnarsvæðið.
Þá er áréttað að í tengslum við framkvæmdir á lóð Silicor er í deiliskipulagi gert ráð fyrir jarðvegsmönum sunnan og austan við fyrirhugaða lóð fyrirtækisins. Þeim jarðvegsmönum er m.a. ætlað að draga úr sjónrænum áhrifum. Ríkur vilji er til þess að mæta þeim atriðum, sem lúta að hljóði og lýsingu, með aðgerðum sem draga eins og kostur er úr áhrifum þessa á nágrennið.

 14. Mikill hraði hefur verið á undirbúningi samnings við Silicor Materials. Þann 31. mars síðastliðinn hitti stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð borgarstjóra, Dag B. Eggertsson, til að tjá honum áhyggjur vegna Grundartanga og fá upplýst hvert Reykjavíkurborg stefndi með svæði Faxaflóahafna þar, en borgin á rúm 75% í Faxaflóahöfnum. Innan örskamms tíma var skrifað undir samninga við Silicor. Borgarstjórinn gaf sér ekki tíma til að hlusta á rök okkar. Hvers vegna?

Formlegar viðræður Silicor við Faxaflóahafnir hafa verið í gangi frá 28. nóvember 2013. Málið hefur verið til undirbúnings allan þann tíma og viðeigandi skipulagsbreytingar auglýstar og kynntar lögum samkvæmt. Haldin var sérstök ráðstefna um verkefnið í Háskólanum í Reykjavík á árinu 2014. Í júnímánuði árið 2014 var undirrituð viljayfirlýsing um verkefnið og hún kynnt auk þess sem fjölmiðlar hafa flutt fréttir af framgangi mála. Ekki er unnt að taka undir að sérstakur hraði hafi verið á undirbúningi málsins heldur þvert á móti hefur hann tekið sinn tíma. Af hálfu Silicor er nú unnið að samningum um verkefnið en á meðan þeir eru ekki allir í höfn er verkefnið í heild háð þeim fyrirvara að þeir samingar verði gerðir.

15. Hvert stefnir með Hvalfjörð? Enginn hefur þorað að segja upphátt að breyta ætti þessari undurfögru náttúruperlu í mengaðan iðnaðarfjörð. En verkin tala og það sem Faxaflóahafnir hafa aðhafst á Grundartanga síðustu árin bendir því miður allt í þá átt að það eigi ekki að hlífa Hvalfirði.

Öllum er kunnugt um þær framkvæmdir sem átt hafa sér staða á Grundartanga allt frá árinu 1978 - eða fyrir um 37 árum síðan. Um áratuga skeið hefur verið olíubirgðastöð við innanverðan Hvalfjörð auk þess sem þar hefur verið rekin starfsemi Hvals hf. Um skemmri eða lengri tíma hefur því verið umtalsverð starfsemi í Hvalfirði. Um áratuga skeið hefur verið stefnt að atvinnuppbyggingu á Grundartanga og frá árinum1990 með gerð svæðisskipulags hefur það verið sameiginleg stefna sveitarfélaganna sunna Skarðsheiðar að byggja upp atvinnustarfsemi á Grundartanga. Þess sér m.a. stað í gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar. Af hálfu Faxaflóahafnar sf. og eigenda fyrirtækisin hefur það markmið verið sett að ný starfsemi valdi lágmarks umhverfisröskun. Sú stefna er áréttuð í nýlegu samkomulagi Faxaflóahafn sf. og Hvalfjarðarsveitar þar sem segir m.a.:

Aðilar samkomulags þessa eru sammála um eftirfarandi: Að við úthlutun lóða til nýrra fyrirtækja, sem við gerð samnings þessa eru ekki starfandi á Grundartanga á skilgreindum iðnaðarsvæðum, samkvæmt gildandi aðalskipulagi á verði gerðar ríkar kröfur til þess að starfsemi nýrra fyrirtækja hafi í för með sér lágamarks umhverisáhrif og starsemi þeirra þess eðilis að hún falli ekki iundir flokkk A í viðauka 1 um lög um mat á umhverfisáhrifum (nr. 106/2000). Þar er tilgreind starfsemi, sem ávallt er háð mati á umhverfisáhrifum og getur þar af leiðandi haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Aðilar eru jafnframt sammála um að auka samstarf við þau fyrirtæki sem þegar starfa á Grundartanga. í því skyni að ná enn frekari árangri í umhverifsmálum. Aðilar eru sammál um að móta stefnu um æskileg nýja starfsemi á svæðinu þar sem umhverfissjónarmið verði höfð að leiðarljósi.

a. Að ný fyrirtæki á iðnaðarlóðum skili til Faxaflóahafna sf. Hvalfjarðarsveitar og Skipulagsstofnunar umhverfisskýrslu, þar sem fyrirhugaðri starfsemi er ítarlega lýst. Á grundvelli þeirrar skýrslu taki Faxaflóahafnir sf. og Hvalfjarðarsveit sameiginlega ákvörðun um hvort til úthlutun lóðar komi.

b. Að Faxaflóahafnir sf. og Hvalfjarðarsveit eigi með sér formlega samráðsfundi um umhverfismál á Grundartanga og miðlun upplýsinga um þá aðila sem áhuga hafa á úthlutun lóða á svæðinu.“

Þegar fjallað er um Grundartanga er rétt að hafa í huga að um áratugaskeið hefur fjöldi starfsmanna haft þar atvinnu. Nú eru um 1000 fastir starfsmenn á svæðinu auk þess sem ýmsir verktakar sinna tilfallandi verkefnum þar um lengri eða skemmri tíma. Það eru jafnt hagsmunir þessara starfsmanna, fyrirtækjanna á svæðinu, eigenda Faxaflóahafna sf. og fyrirtækisins sjálfs að gætt sé þannig að umhverfismálum að þau standist alla þá mælikvarða sem stefna eigenda, lög og reglugerðir setja. Í dag eru gerðar umfangsmiklar mælingar og Faxaflóahafnir sf. eru reiðubúnar að styðja allar góðar tillögur um hvernig megi bæta þá umhverfisvöktun sem þegar er fyrir hendi. Í því sambandi er vísað til umsagnar stjórnar Faxaflóahafna sf. um þá áætlun sem nú er í gildi um umhverfisrannsóknir á svæðinu. Atvinnustarfsemi á Grundartanga er vissulega umfansmikill og það umfang leggur þær skildur á herðar öllum þeim sem að málum koma, að gætt sé að þeim umhverfisáhrifum sem fyglja starfsemi á svæðingu. Bygging verksmiðju Silicor er þar engin undantekning, en verksmiðjan mun framleiða hráefni í sólarhlöð sem munuá sinn ´háttt stuðlsa að nýtingu vistvænna orkugjafa en nú eru notaðir víðað um heim.

Virðingarfyllst,

Gísli Gíslason, hafnstjóri.

Birt:
24. maí 2015
Tilvitnun:
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð „Svör Faxaflóahafna vegna fyrirhugaðrar verksmiðju Silicor á Grundartanga fátækleg að mati Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð“, Náttúran.is: 24. maí 2015 URL: http://nature.is/d/2015/05/24/natturuperlan-hvalfjordur-og-silicor-material-inc/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: