Lagt til að fresta gildistöku nýrra laga um náttúruvernd til 1. janúar 2016
Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp sem varðar frestun gildistöku laga nr. 60/2013 um náttúruvernd til 1. janúar 2016. Jafnframt hyggst ráðherra mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd næsta haust, sem felur í sér endurskoðun á náttúruverndarlögum. Þetta er gert til að tryggja að frumvarp um náttúruvernd fái fullnægjandi umfjöllun á Alþingi.
Lög nr. 60/2013, um náttúruvernd áttu að taka gildi 1. apríl 2014. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis skilaði nefndaráliti í febrúar 2014 þar sem lagt var til að höfðu samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra, að gildistöku náttúruverndarlaga yrði frestað til 1. júlí 2015 og að þau yrðu endurskoðuð og gerðar á þeim nauðsynlegar breytingar.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur unnið að endurskoðun náttúruverndarlaga, með hliðsjón af nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar og átti ráðuneytið víðtækt samráð við stofnanir, hagaðila og umhverfis- og samgöngunefnd við gerð frumvarpsins.
Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd voru birt á heimasíðu ráðuneytisins í mars 2015 þar sem öllum var gefið tækifæri til að veita umsögn um frumvarpið. Að loknu umsagnarferli vann ráðuneytið drög að endanlegu frumvarpi á grundvelli þeirra umsagna sem bárust.
Þar sem ekki er unnt að afgreiða frumvarp um endurskoðun náttúruverndarlaga fyrir þingfrestun hefur ráðherra lagt til að gildistöku náttúruverndarlaga verði frestað til 1. janúar 2016. Þar sem hér er um að ræða grundvallarlöggjöf er nauðsynlegt að frumvarpið fái fullnægjandi umfjöllun á Alþingi til að skapa sem mesta sátt um niðurstöður þess. Er ráðgert að frumvarp um breytingu á lögum um náttúruvernd verði lagt fram á Alþingi næstkomandi haust með gildistöku um næstu áramót.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Lagt til að fresta gildistöku nýrra laga um náttúruvernd til 1. janúar 2016“, Náttúran.is: 23. maí 2015 URL: http://nature.is/d/2015/05/23/lagt-til-ad-fresta-gildistoku-nyrra-laga-um-nattur/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 24. maí 2015