Háspennumastur. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Landvernd fagnar úrskurði Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í kærumáli Landsnets hf. gegn Skipulagsstofnun. Með úrskurðinum er Landsneti gert að líta á jarðstreng sem raunverulegan valkost líkt og loftlínu í mati á umhverfisáhrifum fyrir Kröflulínu 3, 220kV raflínu frá Kröflu að Fljótsdalsvirkjun.

Í úrskurðinum segir m.a.: „Almenn vísan [Landsnets] til þess að fjárhagsleg sjónarmið og tæknileg vandkvæði við lagningu jarðstrengja valdi því að sá möguleiki komi ekki til greina sé á hinn bóginn ekki í málefnalegu samhengi við markmið laganna og tilgang mats á umhverfisáhrifum“. Með öðrum orðum, þá var það ekki málefnalegt af Landsneti að neita að meta áhrif jarðstrengs á umræddri línuleið og fyrirtækinu ber nú að gera það.

Landvernd væntir þess að úrskurðurinn marki endalok áralangrar andstöðu Landsnets við kröfu almennings um jarðstrengi. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar knýr Landsnet til að taka jarðstrengi til umhverfismats í verkefnum í framtíðinni þ.m.t. vegna Sprengisandslínu, að mati Landverndar.

Hin afdráttarlausa niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um að Landsneti sé óheimilt að útiloka jarðstrengi hefur að áliti Landverndar einnig áhrif á stöðu umhverfismats sem fyrirtækið hefur látið fara fram undanfarin ár án þess að meta áhrif jarðstrengja. Deilt hefur verið um umhverfismat þessara framkvæmda m.a. vegna þessa. Að mati Landverndar verður nú að endurskoða umhverfismat þessara raflínuframkvæmda því umhverfisáhrif jarðstrengja á þessum svæðum hafa ekki verið metin og þeir því ekki komið til álita sem valkostur við framkvæmdir líkt og loftlínur. Landvernd er því ósammála áliti Landsnets sem fram kemur í fréttatilkynningu fyrirtækisins frá 16. maí sl. að úrskuðrinn taki ekki til mats á umhverfisáhrifum framkvæmda sem þegar hefur farið fram.

Ljóst má vera að umhverfismat raflína þar sem jarðstrengir hafa verið sniðgengnir eru barn síns tíma og stjórn Landverndar harmar að Landsnet skuli ekki þegar í stað lýsa því yfir að fyrirtækið hyggist endurgera umhverfismat liðinna ára þar sem framkvæmdir eru óhafnar og taka þannig fullt tillit til þessarar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Með þessu heldur Landsnet í reynd áfram að komast hjá því að leita heppilegustu lausna í raforkuflutningi þegar kemur að áhrifum þeirra á umhverfið. Það mun því enn og aftur falla í hlut úrskurðaraðila og dómstóla að skera úr um skyldu Landsnets.

Skipulagsstofnun hefur nú til meðferðar kröfur um endurskoðun umhverfismats vegna Blöndulínu 3 og vegna lína frá Kröflu að Bakka, og Suðurnesjalína 2 sætir ágreiningi fyrir dómstólum. Í öllum tilvikum sleppti Landsnet því að meta umhverfisáhrif jarðstrengja, með sömu rökum og í málinu um Kröflulínu 3. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar frá 7. maí sl. um að þau rök hafi verið ómálefnaleg skiptir að mati Landverndar miklu máli um framhald þeirra mála.

Sjá úrskurð Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Hér er slóð á fréttatilkynningu Landsnets: http://landsnet.is/landsnet/upplysingatorg/frettir/frett/2015/05/16/Yfirlysing-fra-Landsneti-vegna-urskurdar-um-matsaaetlun-Kroflulinu-3/.

Birt:
19. maí 2015
Höfundur:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Úrskurður um jarðstrengi styrkir umhverfisvernd“, Náttúran.is: 19. maí 2015 URL: http://nature.is/d/2015/05/19/urskurdur-um-jardstrengi-styrkir-umhverfisvernd/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: