Snorri Baldursson á grænfánabyltingunni þ. 13. maí 2015. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Góðu félagar,
Takk fyrir að koma hingað á Austurvöll í dag til að reyna að koma viti fyrir stjórnvöld í einu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar; skynsamlegri orkunýtingu.

Jón Gunnarsson sagði í fréttum RÚV í gær, aðspurður um lágkúrulega og að öllum líkindum löglausa tilraun atvinnuveganefndar til að smygla fjórum virkjanakostum inn í nýtingarflokk Rammaáætlunar, að orkuskortur ríkti í landinu og því yrði bókstaflega að virkja. Skilja mátti á orðum þingmannsins að þessi meinti orkuskortur, og allt að því neyðarástand, réttlætti aðför að Rammaáætlun, því gagnmerka ferli sem hleypt var af stokkunum fyrir 16 árum til að skapa faglegan grundvöll umræðu og ákvarðanatöku varðandi hina umdeildu spurningu um hvar megi virkja og hvar ekki. Einn megintilgangur Rammaáætlunar var og er að koma í veg fyrir vinnubrögðin sem Jón og félagar beita.

En ríkir orkuskortur í landinu? Nei, ekki nema í hugskoti Jóns Gunnarssonar og félaga. Stefnir í orkuskort? Nei, ekki nema Jóni og meðreiðarfólki hans takist að troða fjórum kísilverum ofan í kokið á okkur, í andstöðu flestra landsmanna, ekki síst á Reykjanesi og í Hvalfirði. Ríkir þá hvergi skortur? Jú, það ríkir skortur – hjá Jóni og félögum hans á Alþingi – á skynsemi og auðmýkt gagnvart hlutverki sínu, skortur á yfirsýn, samhygð og trúnaði gagnvart landi og þjóð og ekki síst trúnaði við réttarreglur lýðræðisins.

Því framganga þeirra í þessu máli lýsir frekju svo jaðrar við valdníðslu. Það er frekja að neyta aflsmunar til að sniðganga leikreglur í þágu fárra. Það er valdníðsla að brjóta gegn meginmarkmiði rammaáætlunarlaganna um að nýting orku eigi að byggjast á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati. Það er furðulegt háttarlag að ganga gegn eigin umhverfisráðherra. Það er óheyrilegur yfirgangur að skuldbinda þjóðina til orkusölusamninga áður en fyrir liggur hvaða orka er tiltæk og hversu dýru verði hún verður keypt. Það er heimska að fórna meiri hagmunum fyrir minni. Það er illvirki að höggva skörð í óbyggðir Íslands, hjarta landsins þaðan sem þjóðarsálin er upprunnin, til þess eins að særa út 65 megavött af rafmagni.

Horfum aðeins á stærðir og staðreyndir.

Fyrirhuguð fjögur kísilver, eitt á Bakka, eitt á Grundartanga og tvö í Helguvík, munu þurfa tæp 500 megavött fullbúin – minna fyrir fyrsta áfanga. Þetta er sambærilegt við orkuþörf álvers Norðuráls á Grundartanga. Samkvæmt samatekt Umhverfisstofnunar (sjá „Framleiðsla sólarkísils – Minnisblað um umhverfislega áhættu. Environice 2014 ), munu þessi kísilver til samans dæla út um 450 tonnum af svifryki á ári hverju; 4.300 tonnum af brennisteinsdíoxíði, 1.000 tonnum meira en Norðurál, um milljón tonnum af koltvísýringi, 65% meira en álverið, auk minna magns af málmögnum, fjölhringa kolvetnum og öðru ámóta. Kísiliðnaður er því stóriðja, afar langt frá því að geta flokkast sem hreinn iðnaður.

En hvað með þessar virkjanir sem styrrin stendur um:

Hagavatnsvirkjun er virkjun Farsins með því að breyta Hagavatni við jaðar Langjökuls í uppistöðulón. Það sem við missum er: hluti af víðáttumiklu, lítt snortnu víðerni sunnan jökulsins, lifandi og síkvikum landmótunarferlum sem eru kjörin til fræðslu og þekkingarferða, örstutt frá alfaraleið, og sandfok mun halda áfram með sama eða meiri krafti en fyrr. Það sem við fáum eru 20 megavött sem er 4% af orkuþörf kísilveranna. Það þyrfti sem sagt 25 Hagavatnsvirkjanir til að uppfylla orkuþörfina!

Skrokkölduvirkjun á Sprengisandi sem þiggur vatn úr Hágöngulóni og veitir því áfram til Kvíslavatna er að hluta til á röskuðu svæði því Hágöngulón er manngert. Það sem við missum þó er Skrokkalda sjálf, sem verður holuð að innan, og víðernin sunnan Skrokköldu vegna lagningu uppbyggðs vegar og rafstrengs frá stöðvarhúsinu um óröskuð öræfi niður í Vatnsfell. Það sem við fáum eru 45 megavött sem er 9% af orkuþörf kísilveranna fjögurra. Ellefu Skrokkölduvirkjanir þarf til að seðja orkuþörf kísilveranna fjögurra.

Þær tvær virkjanir í neðri hluta Þjórsár sem meirihluti atvinnuveganefndar ætlar að smygla fram hjá Rammaáætlun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun, eru í biðflokki vegna óvissu um áhrif á stærsta laxastofn landsins auk bleikju og sjóbirtingsstofna. Verkefnisstjórn 3. áfanga Rammaáætlunar treysti sér ekki að svo búnu, eftir að hafa fengið áliti tilkvaddra sérfræðinga í seiðabúskap og niðurgönguhegðun laxfiska, til að mæla með því að þessir tveir kostir fari í nýtingarflokk vegna þessarar óvissu. En Jón Gunnarsson og meiri hluti atvinnuveganefndar treystir sér til þess að leggja tíunda hluta af villtum laxi á Íslandi að veði. Ávinningur samtals 140+57 = 200 megawött 40% af orkuþörf kísilveranna.

Semsagt þessar fjórar virkjanir sem á að keyra í gegn með þjösnaskap munu rétt ná að seðja helming orkuþarfar kísilveranna fjögurra, stóriðju sem Íslendingar almennt vilja ekki lengur, aðeins þeir fáu sem beinan hag hafa af framkvæmdunum. Þjóðin í heild mun, ef að líkum lætur, njóta lítils arðs til langframa af stóriðjunni en missa óendanlega mikið verðmætari öræfi og hugsanlega stærsta laxastofn við Norður-Atlantshaf.

Er nokkuð ofmælt að tala um frekju og yfirgang? Og því spyr ég, góðir áheyrendur, hvort er öfgafólkið við sem hér stöndum og reynum með rökum að vernda íslenska náttúru eða þeir sem inni sitja og vilja brytja hana niður við trog mengandi stóriðju?

Birt:
14. maí 2015
Höfundur:
Snorri Baldursson
Tilvitnun:
Snorri Baldursson „Ræða Snorra Baldurssonar á Austurvelli þ. 13. maí 2015“, Náttúran.is: 14. maí 2015 URL: http://nature.is/d/2015/05/14/raeda-snorra-baldurssonar-austurvelli-th-13-mai-20/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: