Fjöldi manns mótmælti rammaáætlunartillögu á Austurvelli
Fjöldi manns sótti mótmælafund Landverndar á Austurvelli í gær. Tilefnið er tillaga meirihluta atvinnuveganefndar um að færa fjórar virkjanir til viðbótar í virkjanaflokk rammaáætlunar án þess að nægilega faglega hafi verið staðið að málum. Um er að ræða virkjanir í neðrihluta Þjórsár og upp á hálendinu sjálfu, við Skrokköldu á Sprengisandi og Hagavatn sunnan Langjökuls.
Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir starfmaður Landverndar skýrði fundinum frá stöðu mála á Alþingi. Tinna Eiríksdóttir, umhverfis- og auðlindafræðingur, Ósk Vilhjálmsdóttir hjá Hálendisferðum og Snorri Baldursson formaður Landverndar fluttu ávörp og Hemúllinn spilaði og söng nokkur lög.
Frummælendur mótmæltu því að tillaga meirihluta atvinnuveganefndar stæðist ekki lög.
Virkjanahugmyndirnar sem um ræði hafi ekki hlotið fullnægjandi málsmeðferð sem lög mæla fyrir. Í lok fundarins færði Snorri Baldursson formaður Landverndar Jóni Gunnarssyni formanni atvinnuveganefndar Alþingis ályktun aðalfundar Landverndar, en fundurinn mótmælti harðlega umræddri þingsályktunartillögu meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis. Í ályktuninni segir m.a.: „Verði þingsályktunartillagan samþykkt er rammaáætlunarferlið ónýtt. Aðalfundur Landverndar beinir því til Alþingis að falla þegar í stað frá tillögu meirihluta atvinnuveganefndar og bíða þess að verkefnisstjórn RÁ taki virkjanahugmyndirnar fimm fyrir í umfjöllun sinni í 3. áfanga RÁ. Vinna við umfjöllun verkefnisstjórnarinnar stendur nú yfir, en skila á niðurstöðum eftir rúmt ár.“
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd „Fjöldi manns mótmælti rammaáætlunartillögu á Austurvelli“, Náttúran.is: 14. maí 2015 URL: http://nature.is/d/2015/05/14/fjoldi-manns-motmaelti-rammaaaetlunartillogu-austu/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.