Snorri Baldursson líffræðingur í pontu á Paradísarmissi. Ljósm. Smári, Landvernd.Ræða Snorra Baldurssonar á Paradísarmissi? Hátíð til verndar hálendi Íslands þ. 16. apríl 2015.

„Ég var beðinn að koma með fræðilega vídd inn á þennan fund og reyni að byrja þannig.... en tala þó ekki síður frá hjartanu, enda er vernd hálendisins hjartans mál ekki síður en höfuðsins.

Landslag er afurð andstæðra afla sem hlaða upp annars vegar og rífa niður hins vegar. Eldvirknin hefur byggt upp landið og ísaldarjökullin er það meginafl sem hefur rofið það og mótað. Þótt þessi öfl hafi verið mikilvirkust á ísöld hafa þau síður en svo látið af störfum. Enn eru megineldstövar í óða önn að hlaða upp gíga og hraun og enn eru jöklar og jökulár að puða við að rjúfa, slétta og jafna... að ógleymdum vindinum.

Miðhálendi Íslands er eldbrunnin háslétta þakin hraunbreiðum, vikrum og svörtum söndum. Upp úr sléttunni rísa bláhvítar jökulbreiður, grænir móbergshryggir, formfögur eldfjöll, dyngjur og stapar. Á stöku stað eru uppsprettulindir, gróðurvinjar og litskrúðug háhitasvæði, og til jaðranna samfelldar grónar heiðar með fiskivötnum þar sem himbrimi og hávella syngja. “Nóttlaus voraldarveröld þar sem víðsýnið skín” kvað Stephan G. og fangaði í einni setningu töfra öræfanna og íslenska sumarsins.”

Snorri Baldursson, líffræðingur og handhafi íslensku bókmenntaverðlaunana fyrir bókina Lífríki Íslands:

„Ég var beðinn að koma með fræðilega vídd inn á þennan fund og reyni að byrja þannig.... en tala þó ekki síður frá hjartanu, enda er vernd hálendisins hjartans mál ekki síður en höfuðsins.

Landslag er afurð andstæðra afla sem hlaða upp annars vegar og rífa niður hins vegar. Eldvirknin hefur byggt upp landið og ísaldarjökullin er það meginafl sem hefur rofið það og mótað. Þótt þessi öfl hafi verið mikilvirkust á ísöld hafa þau síður en svo látið af störfum. Enn eru megineldstövar í óða önn að hlaða upp gíga og hraun og enn eru jöklar og jökulár að puða við að rjúfa, slétta og jafna... að ógleymdum vindinum.

Miðhálendi Íslands er eldbrunnin háslétta þakin hraunbreiðum, vikrum og svörtum söndum. Upp úr sléttunni rísa bláhvítar jökulbreiður, grænir móbergshryggir, formfögur eldfjöll, dyngjur og stapar. Á stöku stað eru uppsprettulindir, gróðurvinjar og litskrúðug háhitasvæði, og til jaðranna samfelldar grónar heiðar með fiskivötnum þar sem himbrimi og hávella syngja. “Nóttlaus voraldarveröld þar sem víðsýnið skín” kvað Stephan G. og fangaði í einni setningu töfra öræfanna og íslenska sumarsins.”

„Hvergi í heiminum sé unnt að finna á afmörkuðu svæði jafn fjölbreytileg ummerki um átök jökla og eldvirkni og á hálendi Íslands.“

Virtustu jarðvísindamenn okkar hafa komist að þeirri skýru niðurstöðu að hvergi í heiminum sé unnt að finna á afmörkuðu svæði jafn fjölbreytileg ummerki um átök jökla og eldvirkni og á hálendi Íslands. Og jarðmyndanir sem þar er að finna hafa hjálpað fræðimönnum að skýra sambærileg fyrirbæri á plánetunni Mars; hrauntraðir, hamfarahlaupsfarvegi, gervigígaþyrpingar. Líf sem uppgötvast í Skaftárkötlum undir Vatnajökli leiðir óðar hugann að því hvort sambærilegt líf sé að finna undir íshellunni á Evrópu fylgitungli Júpíters.

Semsagt, hvergi er sköpun Jarðarinnar og starfsemi mótunarafla hennar, jarðelds, jökla, vatns, vinds og lífs sýnilegri en á hálendi Íslands. Þar fer fram stöðug sýnikennsla í landmótun og næmar manneskjur skynja þar vel þennan frumkraft sköpunarinnar. Það eru ekki margir staðir á jörðinni sem búa yfir sambærilegum töfrum og eru jafn aðgengilegir. Lundúnarbúi getur á einum degi komist úr skarkala stórborgarinnar aftur til upphafsins! Og fyrir okkur, íbúa þessa lands, tekur það aðeins einn til tvo tíma.

Æ fleiri ferðamenn, innlendir og erlendir, eru að uppgötva þessa staðreynd. Árið 1969 þegar Búrfellsvirkjun var vígð og markaði upphaf stóriðjustefnunnar, komu hingar 44.000 erlendir ferðamenn. Á síðasta ári voru þeir rétt um ein milljón og skiluðu um 300 milljörðum í gjaldeyristekjur, meir en nokkur önnur atvinnugrein. Fjórir af hverjum fimm þessara ferðamanna, 800.000 manns, sögðust koma hingað fyrst og fremst vegna einstæðrar náttúru landsins.

Öræfin okkar, hálendi Íslands, er þess vegna einstök gersemi fyrir okkur íbúa þessa lands og alls heimsins, langstærsta óbyggða víðerni Evrópu sunnan heimskautsbaugs og einn allra dýrmætasti arfur þjóðarinnar til langs tíma litið. Þetta blásna, eldbrunna hjarta landsins hefur aldrei verið byggt – að undanskildum örfáum útilegumönnum – en það býr samt í okkur öllum. Öræfin búa í hjörtum okkar og sinni, hugarheimi, sögum, menningu og listum. Þau eru hluti af okkur alveg eins og sagan og tungan. Hvar væru íslensku ævintýrin, útilegumannasögurnar, hrollvekjurnar án óbyggðanna?.... “Enn er þó reymt á Kili”..... Eða kvæðin og vísurnar sem allir þekkja: “Ríðum og ríðum”, “Yfir kaldann eyðisand”, ”Óbyggðirnar kalla” og „kyrja þar dimman kvæðasón Kverkfjallavættir reiðar“. Örnefni eins og Ódáðahraun, Sprengisandur, Eiríksjökull, Hvannalindir og Vonarskarð springa út í hugum okkar í litríkum sögum og sýnum. Öræfin eru náttúruarfur Íslendinga, Konungsbók náttúrunnar.

„Öræfin búa í hjörtum okkar og sinni, hugarheimi, sögum, menningu og listum. Þau eru hluti af okkur.“

Önnur konungsbók, Konungsbók eddukvæða, er með orðum Arnaldar Indriðasonar „tötrum klædd bókardrusla... en … þótt við ættum aðeins hana eina værum við rík að bókmenntum og hefðum lagt stóran skerf til heimsmenningarinnar.“ Hvað er hálendið annað en Konungsbók íslenskrar náttúru? Þótt við ættum það eitt, villt og dulúðugt, værum við rík að náttúrugæðum. Að spilla því meir en orðið er fyrir svokallað raforkuöryggi eða örfá megavött til viðbótar er ekkert annað en glæpur gegn náttúrunni og íslenskri þjóðarsál. Væri atvinnuveganefnd Alþingis til í að selja Konungsbók eddukvæða bærist í hana gott tilboð, svo sem eins og tveir milljarðar?

Blásnautt alþýðufólk hér áður fyrr notaði skinnhandrit í skóleppa og reyndi jafnvel að leggja þau sér til munns í hallærum. Fátæklingar úti í heimi selja úr sér annað nýrað til að framfleyta fjölskyldum sínum, vegna þess að það er eina úrræðið sem eftir er. En enginn selur sjálfviljugur úr sér hjartað og við Íslendingar erum ekki lengur blásnautt fólk, við erum rík þjóð.

Í mínu ungdæmi þótti það ekki bera vott um mikil búhyggindi – frekar heimsku og búskussahátt – að eta útsæði næsta árs. Samt eru sterk öfl í þessu þjóðfélagi ennþá til sem vilja eta þetta útsæði framtíðarinnar, þennan óendanlega dýrmæta náttúru- og menningararf okkar. Jökulfljótin og háhitasvæðin fara ekkert á næstunni þótt þau fái að renna og blása óáreitt. Þau mala okkur gull óhamin. Öræfin okkar eru á alla mælikvarða verðmætari villt en virkjuð.

„Jökulfljótin og háhitasvæðin fara ekkert á næstunni þótt þau fái að renna og blása óáreitt. Þau mala okkur gull óhamin.“

Ég klóra mér oft í kollinum yfir okkar ágætu ráðamönnum, körlum og konum til hægri og vinstri. Eru þau svona rígföst í fjötra hugarfars síðustu aldar að þau skynji ekki tíðarandann? Halda þau enn að stóriðja, fiskveiðar og landbúnaður séu einu bjargráð þjóðarinnar? Eru þau svona miklar gungur að þau geta ekki staðið í lappirnar gegn freka karlinum sem á og rekur Skrokköldu hf eða Hagavatnsvirkjun ehf? Ráða eiginhagsmunir för? Hvað veldur?

Ég hef ekki svar við því, kæru áheyrendur, en veit þó að við getum ekki treyst á skyndilega hugarfarsbreytingu stjórnmálamanna. Við verðum sjálf, með órofa samstöðu, að tryggja vernd hálendisins. Til þess þurfum við að láta finna fyrir okkur. Við þurfum að tala við vini og vandamenn, senda bréf og pósta, skrifa greinar, birta myndir, láta til okkar taka á samfélagsmiðlum. Við þurfum að nýta sambönd okkar í útlöndum, standa á Austurvelli og óhlýðnast þegar þess þarf. Og við þurfum umfram allt að vera albúin að leggjast fyrir jarðýturnar, vogi þær sér upp á Sprengisand.“

Birt:
10. maí 2015
Höfundur:
Snorri Baldursson
Tilvitnun:
Snorri Baldursson „Ræða Snorra Baldurssonar á Paradísarmissi - Enginn selur sjálfviljugur úr sér hjartað“, Náttúran.is: 10. maí 2015 URL: http://nature.is/d/2015/05/10/raeda-snorra-baldurssonar-paradisarmissi-enginn-se/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: